Carbfix hefur boðað til kynningarfundar á Húsavík nú í vikunni um uppbyggingu og rekstur athafnasvæðis til móttöku, niðurdælingar og bindingar CO₂.
Tilgangur fundarins er að hefja samtal við íbúa svæðisins um uppbyggingu.
„Á fundinum verður skýrt af hálfu fyrirtækisins hvers vegna er verið að byggja slíkar stöðvar, hvernig ferlið gengur fyrir sig, hvernig slíkar stöðvar eru byggðar upp, hvernig þær geta litið út og hvaða samfélagslegu og efnahagslegu áhrif þær hafa,“ segir í tilkynningu frá Carbfix.
Sveitarstjórn Norðurþings hefur undirritað yfirlýsingu með Carbfix um uppbyggingu svokallaðrar Codastövar á Bakka þar sem fyrir er kísilmálverksmiðja PCC.
Hafnfirðingar fagna að hafa hrakið áformin burt úr bænum en mikill hiti varð um fyrirhugaða niðurdælingu ekki alls fyrir löngu.
Á facebook-þræðinum Umræður á Húsavík lýsir manneskja eftir sjónarmiðum óánægðra á Húsavík með fyrirhugaða starfsemi. Hún fær kaldar kveðjur hjá Kristjáni nokkrum Önundarsyni sem skrifar: „Ég ætla rétt að vona að enginn setji sig í samband við þig varðandi þetta mál og berjist gegn uppbyggingu, atvinnusköpun og framþróun á svæðinu. Kónar sem berjast gegn þessu á mínu heimasvæði eiga alla vega ekki uppá pallborðið hjá mér, hugsaðu bara um þitt heimasvæði, láttu aðra í friði !!!!“
Ummælum Kristjáns er á facebook þræðinum líkt við þöggun og hótun.