Þórlaug Borg Ágústsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur með sérhæfingu í cyberstjórnmálum, varar við alvarlegum ógnum sem steðja að lýðræðinu vegna tækniþróunar og netárása. Í viðtali við Rauða borðið á Samstöðinni ræddi hún meðal annars um nýlegt hakk á Morgunblaðinu og víðtækari hættur sem fylgja tækniauðvaldi.
Þórlaug staðfesti að Morgunblaðið hefði orðið fyrir netárás: „Morgunblaðið var til dæmis hakkað og þeir komust inn í allt kerfið hjá þeim.“ Hún benti á alvarlegar afleiðingar slíks innbrots: „Þú getur ímyndað þér hvað það er mikið magn af nafnlausum heimildarmönnum sem þarna eru orðnir viðkvæmir og mögulega hægt bara að fjárkúga fólk eða eitthvað annað.“ Aðspurð hvort vitað væri hverjir stæðu á bak við árásina sagði Þórlaug: „Þetta eru alltaf einhverjir svona hakkarahópar, gætu verið glæpahópar.“
Hún lagði áherslu á hættuna sem steðjar að fjölmiðlum og lýðræðinu: „Þetta er bara kjarni lýðræðisins, er frjáls fréttaflutningur, og hefur fjórða valdið, fjölmiðlavaldið, sem ekki fær, fær ekki sitt frelsi og er undir árás eins og hefur verið núna. Þá erum við bara í miklum vanda stödd.“
Þórlaug ræddi almennt um stöðu netöryggismála á Íslandi. Þó að margt hafi áunnist, sérstaklega vegna erlendra áhrifa eins og Evrópulöggjafar og NATO-samstarfs, sé enn pottur brotinn. „Netöryggi snýst um innviði sem eru þá kaplarnir okkar og tölvurnar okkar, um kerfin okkar, greiðslugáttirnar, bankana, heilbrigðiskerfið, allt þetta,“ útskýrði hún, en bætti við: „Og sú þriðja fasi er mannlegi þátturinn. Og mannlegi þátturinn veldur sirka sjötíu og fimm til áttatíu prósentum af tölvuinnbrotum eða svindli eða öðru. Það er yfirleitt mannlegi þátturinn sem klikkar. Og þarna erum við bara alls ekkert nógu vel undirbúin.“
Hún benti á þörfina fyrir aukna menntun í netöryggi innan félagsvísinda: „Við erum að tala um mannfræði, sálfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði, afbrotafræði, bara félagsvísindi eins og þau leggja sig. Þau eiga fullt erindi þarna inn.“
Þórlaug varaði einnig við upplýsingaóreiðu og markvissum árásum í tengslum við komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-viðræður: „Við vitum að það er strax nú þegar búið að búa til fullt af gervimönnum, sem eru að fara að taka þátt í umræðunni … Sérfræðingar á sviðinu segja að það verði holskefla af netárásum og bara netárásum þegar þetta allt byrjar. Og hvernig ætlum við sem samfélag að taka á því?“
Hún fjallaði um kenningar Shoshönu Zuboff um „eftirlitskapítalisma“ þar sem tæknirisar safni persónuupplýsingum til að spá fyrir um og stýra hegðun fólks. „Þegar þú ert farinn að selja spádóm þá þarftu náttúrulega að tryggja það að spádómurinn rætist líka þannig að það er komið hringrásarhagkerfi í gang þar sem að gögn, persónuleg gögn mín og þín… eru notuð,“ sagði Þórlaug. Hún bætti við að þetta væri hættulegt þegar „tæknirísar vita svona rosalega mikið um þig og eru farnir að hafa hagsmuni af því að stjórna þér.“
Varðandi varnir Íslands sagði Þórlaug að þær væru öðruvísi en hjá öðrum þjóðum: „Ef þú ætlar að taka Ísland, þá er líklega ekki að fara að koma neitt stórt lið hérna … Þú þarft bara að klippa á samskiptin okkar, hafnirnar okkar, og þá ertu með okkur.“ Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að verja innri samskipti og styrkja fjölmiðla- og upplýsingalæsi almennings. „Við þurfum að passa það að við höfum bæði einkarekna fjölmiðla og að við höfum ríkisfjölmiðil sem sinnir sínu hlutverki sem þessi öryggisventill.“
Að lokum kallaði Þórlaug eftir aukinni lýðræðislegri stjórn á stóru tæknifyrirtækjunum sem reka nú „markaðstorg hugmyndanna“: „Við verðum að ná lýðræðislegri stjórn á þessum stóru veitum, og við verðum að ná að, sem sagt eftirfylgni á þessi fyrirtæki … það er komið nóg af því að einkaeignarrétturinn stjórni samfélaginu okkar.“