Íslenska ríkið braut gegn réttinum til frjálsra kosninga við alþingiskosningarnar árið 2021. Þetta er niðurstaða Mannréttindadómstól Evrópu sem kvað upp úrskurð sinn í málinu í morgun.
Upphaf málsins má rekja til þess að annmarkar voru á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi, þá einkum talningar atkvæða. Það leiddi til endurtalningar sem gerði það að verkum að fimm frambjóðendur sem höfðu hlotið þingsæti samkvæmt fyrri talningu misstu þingsæti sitt en aðrir fimm töldust kjörnir. Tveir þeirra, Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í kjördæminu, og Magnús Davíð Norðdahl, frambjóðandi Pírata í kjördæminu, leituðu til Mannréttindadómstólsins vegna málsins.
Gerðar voru alvarlega athugasemdir við talningu atkvæða, sem og vörslu kjörgagna í Norðvesturkjördæmi en talning fór fram í Borgarnesi. Salur sem kjörgögn voru geymd í var ekki innsiglaður og ljóst var að inn í hann gat fólk hafa valsað án þess að eftirlit væri með því. Málið var kært til lögreglu sem vísaði því frá að lokum. Það var einnig kært til kjörbréfanefndar Alþingis sem komst að því að þrátt fyrir ágalla á framkvæmdinni væri ekkert sem benti til að þeir hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna og skyldu þau því standa, það er eftir endurtalninguna. Alþingi samþykkti síðan kjörbréf þingmanna með 42 atkvæðum gegn 5 en 16 þingmenn sátu hjá. Því greiddi hið sama Alþingi og deilt var um hvort væri rétt skipað atkvæði um, og samykkti, kjörbréfin. Það er Alþingi hins vegar skylt að gera, samkvæmt stjórnarskrá. Í tillögum að nýrri stjórnarskrá er sá kaleikur frá Alþingi tekinn.
Niðurstaða dómsins er sú að brotið hafi verið gegn réttinum til frjálsra kosninga, og einnig um réttinn til að njóta skilvirkra réttarúrræða. Dómstóllinn komst að því að störf kjörbréfanefndar hefðu verið sanngjörn og nefndin hlutlæg í sinni vinnu. Hins vegar hafi afgreiðsla þingmanna, þegar kom að eigin kjöri, í eðli sínu verið pólitísk. Þeir geti ekki verið pólitískt hlutlægir og þá ekki síst þeir þingmenn sem beinlínis eigi sæti sitt undir að kjörbréf verði staðfest.
Íslenska ríkinu er gert að greiða þeim Magnúsi og Guðmundi bætur, að jafnvirði um tvær milljónir króna hvorum.
Í færslu á Facebook fagnar Magnús úrskurðinum og segir hann fullnaðarsigur. „Á sama tíma og ég finn fyrir mikilli ánægju og gleði að dómstóllinn hafi tekið undir þau sjónarmið, sem við höfum haldið fram frá upphafi þessa máls, er það kvíðvænlegt að annmarkar séu á fyrirkomulagi lýðræðis í okkar samfélagi.
Uppspretta valdsins í okkar samfélagi er í þingkosningum. Löggjafarvaldið velur hverjir fara með framkvæmdarvald sem síðan skipar þá sem fara með dómsvald. Heilindi kerfisins í heild voru því undir í þessu mikilvæga máli.
Enginn ætti að taka lýðræðinu sem gefnum hlut, sérstaklega þegar kjörnum fulltrúum er falið að úrskurða um gildi kosninga þar sem þeir sjálfir náðu kjöri. Nú er það stjórnvalda að grípa til allra viðeigandi ráðstafana til þess að vernda lýðræðið og tryggja að atburðir af þessu tagi endurtaki sig ekki. Það þarf meðal annars að gera með löngu tímabærum breytingum á stjórnarskrá.“