“Það eru ekki mannréttindi að vera ráðherra.”
Þetta sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við Björn Þorláks á Samstöðinni í þjóðmálaþættinum Synir Egils fyrr í dag, spurð um tilurð afsagnar Ástu Lóu Þórsdóttur
Öryggis- og varnarmál voru mest til umræðu en Björn spurði undir lok samtalsins hvort Kristrún hefði lagt þrýsting á Ástu Lóu Þórsdóttur um afsögn hennar sem barna- og menntamálaráðherra.

Þegar Kristrún svaraði ekki þeirri spurningu beint, benti Björn á að ef hún hefði ekki þrýst á Ástu Lóu væri henni í lófa lagið að neita því að hafa þrýst á Ástu Lóu, sem Kristrún neitaði ekki.
Kristrún benti þá á að ráðherradómur væri ekki mannréttindi. Hún hældi Ástu Lóu fyrir ákvörðun hennar að stíga frá borði sem ráðherra. Mörg dæmi væru um að ráðherrar hafi þurft að segja af sér þótt þeir hefðu ekkert gert af sér. Stundum kölluðu aðstæður, krafa um traust og mikilvægi góðra siða á afsagnir og Ásta Lóa hefði tekið rétta ákvörðun.
Sjá allt viðtalið hér: https://youtu.be/rXB2DyaFW44?si=Hu5SuaSH7x9YXOMK
Mynd af Kristrúnu: Pétur Fjeldsted.