Óhætt er að segja að enn gneisti sem aldrei fyrr milli Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar og Hallgríms Helgasonar rithöfundar eftir rifrildi þeirra í þættinum Synir Egils í gær á Samstöðinni þar sem Sólveig Anna hellti sér yfir Hallgrím eftir Hallgrímur kallaði Sólveigu Önnu trumpista. Deiluefnið var hvort woke væri gott eða vont.
Bæði tvö hafa gert grein fyrir sínu máli á samfélagsmiðlum eftir að upp úr sauð í þættinum á Samstöðinni. Skeytasendingarnar hafa orðið harðari og harðari sem hefur vakið athygli í ljósi þess að Hallgrímur baðst afsökunar á orðum sínum í þætti Samstöðvarinnar í gær.
Í nýrri færslu á facebook segir Sólveig Anna í svari við skrifum Hallgríms Helgasonar – „þar sem að hann segist hafa beðið mig afsökunar á því að kalla mig Trumpista af því að hann hafi fattað að það kæmi mögulega um það frétt (lol) og kallar mig svo mannhatara. Sófa-bardagamennirnir eru alltaf svo fyrirsjáanlegir – eina bardagalistinn sem þeir kunna er að uppnefna og svívirða þau sem eru þeim ekki þóknaleg, rang-hugsarana. Ef maður mætir þeim í persónu og vill taka slaginn þá fara þeir fyrst í fýlu, verða svo hræddir og finna loksins hugrekkið til að slást þegar þeir eru komnir í skjól heima með lyklaborðið í fanginu. Öruggir í bergmálshellinum sínum,“ eins og Sólveig Anna orðar það.
Sjá orðaskipti þeirra um woke-ið í sjónvarpsþætti Samstöðvarinnar, Synir Egils, hér að ofan.