„Ég sat þennan fund og það hryggir mig að formaður Framsóknarflokksins fari ekki rétt með orð Þorgerðar Katrínar. Ekkert nálægt þessu var sagt. Það kom hins vegar skýrt fram að Íslendingar muni geta greitt atkvæði um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við ESB eða ekki,“ skrifar Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar.

„Þjóðin ákveður framhaldið en ekki ríkisstjórnarflokkarnir. Ef þjóðin vill halda viðræðum áfram þá verður það gert og samningurinn borinn undir þjóðina sem getur þá sagt já eða nei. Með öðrum orðum, þjóðin þarf að samþykkja tvisvar áður en hún gengur í ESB. Þetta er lýðræðislegt ferli og það getur að sjálfsögðu þýtt að þjóðin segi nei, allt eins og já.
Orðalagið að stefnt sé lóðbeint með þjóðina inn í ESB er því rangt og ekki í neinu samhengi við stjórnarsáttmálann eða þau orð sem féllu á fundinum. Trúi því ekki fyrr en reynir á að stjórnmálaflokkar ætli að leggjast gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Af hverju að ræna Íslendinga réttinum til ákveða þetta?“