Sólveig Anna Jónsdóttir hjá Eflingu biður forsætisráðherra að grípa til „raunverulegra aðgerða til að lina efnahagsleg vandamál verka- og láglaunafólks sem er fast á gróðavæddum leigumarkaði“ eins og hún orðar það í færslu á facebook.
Í þeim efnum vísar Sólveig Anna til biðlista hjá Bjargi en þar bíða nú tæplega 4000 manneskjur eftir því að „komast í skjól frá gróðavæddum leigumarkaði lýðveldisins, sem ber nú mesta arðsemi allra fjárfestinga“.
„Enda er það svo að íslensk yfirstétt ákvað í kjölfar hrunsins að breyta húsnæði alþýðufólks í gróðauppsprettu fyrir sig og sína, með stórkostlegum fjárhagslegum ávinning,“ segir Sólveig Anna.
Þá biður hún forsætisráðherra vegna stefnuræðu á Alþingi í gær að viðurkenna að stéttskipting og misskipting eru samfélagslegt eitur.
„Ef að hún hefur áhyggjur af tón og orðum þingmanna ætti hún að hafa miklu meiri áhyggjur af þeim vandamálum sem margfaldast ár frá ári vegna þeirrar ömurlegu hegðunnar sem viðgengst í garð vinnuaflsins. Hegðunnar sem að stjórnmálastéttin hefur blessað með aðgerðum og/eða aðgerðaleysi árum saman.“
Í vikunni var rætt við Guðmund Hrafn Arngrímsson á Samstöðinni en hann er formaður Leigjendasamtakanna og upplifir að leigjendur eigi sér enga málsvara nú um stundir.