Nánast mátti heyra feginleikaandvarp fara um heimsbyggðina í morgun þegar Nóbelsnefndin sæmdi Mariu Corinu Machado friðarverðlaunum Nóbels.
Áhyggjur voru um að þrýstingur Bandaríkjaforseta, Donalds Trump, á að hann ætti verðlaunin skilið umfram nokkurn annan, gæti haft áhrif á útnefninguna.
Maria er leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Hugrekki hennar var hælt á hvert reipi í innblásinni ræðu við athöfnina. Hún leggur líf sitt í hættu dag hvern, þar sem hún býður harðstjórn og vopnavaldi byrginn með friðsamlegum aðferðum.
Sumpart hafa gjörðir valdamesta manns heims undanfarið þótt fullkomlega andstæðar baráttuaðferðum Mariu Corinu. Fréttaskýrendur hafa bent á að í ræðu sem flutt var við athöfnina, þar sem áhersla var lögð á að nýta lýðræðið og friðsamlegar leiðir meirihlutans til að vinna gegn einræði og harðstjórn, hafi líkt og verið skrifað til höfuðs harðræðisaðferðum Trump.
Trump hafði hótað öllu illa ef hann fengi ekki friðarverðlaunin.
Hann eignar sér vopnahlé á Gaza en á sama tíma stendur hann fyrir stigmögnuðum árásum á ýmis réttindi fólks og tekur sér dag frá degi æ meira einræðisvald á kostnað borgaranna.
Margir hafa haft á orði síðan kjörinu var lýst í morgun, að friðarhorfur víða um heim væru mun minni ef Trump hefði hlotið Nóbelinn.