Jón Trausti Reynisson, þrautreyndur blaðamaður hjá Heimildinni, bendir í samtali við Björn Þorláks, Samstöðinni og Ólaf Arnarson, DV, við Rauða borðið, að staða einkarekinnar fjölmiðlunar hér á landi hafi veikst mjög á sama tíma og staða Ríkisútvarpsins hefur styrkst með sívaxandi fjármunum úr vasa almennings.
Flestir blaðamenn eru sammála um að hrun einkarekinnar fjölmiðlunar gangi ekki í upplýsingalegu og lýðræðislegu tilliti. Jón Trausti bendir á þá áhættu sem myndi skapast ef öll fréttamiðlun verður á eigin stað, þ.e.a.s. á Ríkisútvarpinu.

Hins vegar segir Jón Trausti mikilvægt að Rúv sé í stakk búið til að vera málsvari almennings og standa sem skjöldur gegn pólitískum öflum. Í því tilliti nefnir hann að í Ungverjalandi og í Póllandi hafi vafasamar stjórnmálahreyfinga komist til valda og haft mikil áhrif á störf fjölmiðla. Það sé ekki hægt að taka þá áhættu að bjóða bara upp á fréttastofu Rúv en enga einkarekna miðla. En mikilvægt sé að öflugt Ríkisútvarp standi þó í lappirnar ef uppgangur Miðflokksins verður meiri og meiri. „Orbanísk“ þróun geti orðið hér líkt og í öðrum löndum. Miðflokkurinn hafi horn í síðu Rúv. Sjálfstæði Rúv þurfi að vera óskert og styrkur fréttastofu Rúv traustur. Einkum ef afl líkt og Miðflokkurinn kemst til valda.
Þá segir Jón Trausti að samkeppni við Rúv sé „eiginlega ómöguleg“ fyrir miðil eins og Sýn. Þar á bæ er búið að farga kvöldfréttatímum um helgar og enginn veit hvort framhald verður á kvöldsfréttum virka daga, samanber ummæli forstjóra Sýnar.
Einnig var rætt hvort betra væri að vera bara með eitt dagblað eftir að Fréttablaðið féll eða ekkert. Morgunblaðið dregur taum stórútgerðarinnar og hluta peningaflanna í samfélaginu. Ísland sker sig mjög frá öðrum Evrópuríkjum hvað varðar dagblaðaútgáfu. Ekkert annað Evrópuríki lætur sér duga eitt dagblað. Ólafur Arnarson lýsir ýmsum áhyggjum af stöðu mála.
Sjá umræðuna hér: