„Nú þegar ákveðið hefur verið í borgarráði að stytta séra Friðriks Friðrikssonar verði látin víkja úr Lækjargötu legg ég til að styttan Járnsmiðurinn eftir Ásmund Sveinsson komi þar í staðinn. Hún er nú í litlum garði við Snorrabraut neðan Þorfinnsgötu þar sem fáir taka eftir henni eða njóta hennar.“
Þetta skrifar Guðjón Friðriksson sagnfræðingur á Facebook en líkt og hann vísar til þá er ekki enn búið að að ákveða hvaða stytta ætti að koma í stað styttunnar af séra Friðrik. Likt og fyrr segir þá leggur Guðjón til að Járnsmiðurinn komi í staðinn.
„Þegar Iðnskólinn í Reykjavík varð 50 ára árið 1954 gáfu nokkrir einstaklingar skólanum þessa styttu í tilefni af afmælinu. Meðal þeirra voru Sveinn Guðmundsson í Héðni, Ragnar í Smára, Tómas Guðmundsson skáld, Axel Kristjánsson í Rafha, Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt og Kristín Andrésdóttir í Verkakvennafélaginu Framsókn. Styttan var svo tákn iðnsýningarinnar sama ár,“ segir Guðjón og bætir við:
„Af einhverjum ástæðum fékk hún ekki að vera við hinn nýbyggða iðnskóla í Skólavörðuholti áfram. Vel færi á að hafa hana í Lækjargötu. Þar var gamli iðnskólinn (húsið stendur enn) og þess má geta að einn af þekktustu jársmiðum bæjarins, Þorsteinn Tómasson var með járnsmiðju sína í Lækjargötu 10.“