Albanska þingið hefur samþykkt umdeildan samning við ítalska ríkið sem felst í því að tvær flóttamannabúðir verði settar upp í Albaníu og þangað fluttir hælisleitendur sem bjargað er á ítölsku hafsvæði. Meirihluti stjórnarþingmanna á albanska þinginu samþykkti samninginn á meðan stjórnarandstaðan sat hjá við atkvæðagreiðsluna.
Stjórnarandstaðan í báðum löndum hefur fordæmt samninginn og það hafa mannréttindasamtök einnig gert. Höfðað hefur verið dómsmál til að koma í veg fyrir að samningurinn taki gildi fyrir dómstólum í Tirana, höfuðborg Albaníu. Stjórnarskrárdómstóll Albaníu blessaði hins vegar samninginn í lok síðasta mánaðarð, sem gerði atkvæðagreiðsluna í dag mögulega.
Flóttamannabúðirnar verða byggðar upp í nágrenni albanska hafnarbæjarins Shengjin. Búðirnar verða reknar af Ítölum og geta rúmað þrjú þúsund flóttamenn hið mesta, á meðan þeir bíða eftir að umsóknir þeirra um hæli verði teknar til afgreiðslu.
Hægrisinnuð stjórnarandstaðan í Albaníu hefur gagnrýnt forsætisráðherrann Edi Rama harðlega fyrir ógagnsæi í tengslum við samninginn og kallað hann óábyrgan og hættulega ógn við þjóðaröryggi Albaníu.