Eldræða Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur á Facebook-síðu hennar tekur af fullum þunga á framsetningu Friðjóns Friðjónssonar, einn af helstu meðlimum kosningateymis Katrínu Jakobsdóttur í forsetakosningum, um að kosningabaráttan hafi verið „heiðarleg, sanngjörn og skemmtileg“.
Steinunn er alls kostar ekki á sömu skoðun og segir raunar alla sína meðframbjóðendur hafa tekið eftir því sama. Kosningabaráttan hafi fremur einkennst af „grimmd, heift og frekju“, sem Steinunn segir hafa átt sér uppruna meðal stuðningsmanna Katrínar.
„Ég hef aldrei orðið vitni af jafn skaðræðislegri og ómerkilegri kosningabaráttu og þessari hér“, segir Steinunn.
Aðförin hafi einkum beinst að öðrum frambjóðendum sem litu út fyrir að vera sigurstranglegir framan af, eins og Baldri Þórhallsyni.
„Hvernig Baldur var krafinn um hlýðni og að draga framboð sitt til baka sem hann hefur gert grein fyrir.
Hvernig sóðasveit Katrínar kom sögum á kreik um persónlegt líf hans og gerði að almannaróm löngu áður en sá ómerkilegi Stefán Einar gerði sig að fífli fyrir framan alþjóð í þætti hans Spursmálum.
Hvernig því var dreift um samfélagið að Baldur væri lyginn og ómerkilegur hervæðingarsinni.
Hvernig honum var af fjölmiðlum nuddað upp úr Icesave.“
Aðförin að Höllu Hrund Logadóttur hafi ekki verið skárri:
„Reynt að gera störf hennar hjá Orkustofnun ómerkileg þegar hún er bókstaflega ein af fáum sem hefur staðið í lappirnar fyrir hönd landsmanna þar innandyra.
Dregin á hárinu endurtekið fyrir að hafa tekið fund í embætti sínu, fund sem nota bene hafði engin áhrif.
Gert grín að óvana hennar í fjölmiðlum og látbragði.
Reynt að gera hana að glæpamanni fyrir að hafa myndskeið í kosningamyndbandi sínu sem hún sjálf bar enga ábyrgð á.
Sjálft Ríkisútvarpið í síðustu kappræðum reyndi að nudda henni upp úr máli sem engan annan tilgang hafði en að reyna að leggja fyrir hana gildru og kom erindi hennar ekkert við.“
RÚV hafi þannig hunsað kröfur 11 frambjóðenda, allra nema Katrínar, um fyrirkomulag lokakappræðanna og látið í ljós hlutdrægni sína.
„Hvernig Ríkisútvarpið kom öðruvísi fram við Katrínu en aðra frambjóðendur svo allir frambjóðendur tóku eftir og hlógu að sín á milli. Lotningin gagnvart hugsanlegum forseta og fyrrum forsætisráðherra gerði alla fréttamenn RÚV að fíflum.“
Þá gagnrýnir Steinunn Ólína harðlega málflutning hinna ýmsu stuðningsmanna Katrínar sem komu úr röðum mennta- og mennningarelítunnar umtöluðu: „Það fylgir því ábyrgð að vera listamaður og auðvaldsdælurnar og valdasleikjurnar úr menningarlífinu sem hæst létu í aðdraganda kosninganna og klesstu sér þétt upp við skapara sinn og atvinnuveitanda til margra ára, skulu hafa það hugfast að það á ekkert skylt við menningu að mylja undir fólk sem með ásetningi eyðileggur framtíð lands og náttúru þar með auðvitað menningu þjóðarinnar.“
Niðurstaða kosningainna hafi í raun verið sú að kjósendur flykktust á bak við frambjóðandann sem hafði ekki orðið fyrir skothríð úr herbúðum Katrínar: „Þjóðin kaus ekki taktiskt, þjóðin einfaldlega valdi sér forseta sem fjölmiðlar og öfl þeirra sem eiga og ráða höfðu ekki eyðilagt með ófrægingarherferð úr smiðju leðjudeildar Katrínar Jakobsdóttur sem hún hreyfði engum mótbárum við en augnaráð hennar flóttalegt vitnaði um skömmina.“
Steinunn segist samt viss um að Halla Tómasdóttir verði „fjarskalega góður forseti“ og deilir loks mynd af virkjunarkorti sem sýni áform ríkisstjórnar Katrínu Jakobsdóttur:
Færslu Steinunnar má finna hér: