Þegar undirrituð fékk símtal frá gamalli vinkonu í vanda hljóp ég til og mannaði næturvakt á heimili geðfatlaðra að Bjargi að Skólabraut 10, Seltjarnarnesi á dögunum. Mig óraði ekki fyrir því sem ég varð vitni að þar innanhúss. Aðbúnaður einstaklingana var vægast sagt slæmur og fyrir mér er það ljóst að eitthvað mikið er að í okkar samfélagi sem býður sínum minnstu, veikustu bræðrum að eyða ævikvöldinu við óviðunandi aðstæður. Þessi frásögn er ekki endilega um hvað gerist þegar einkaaðilar sinna opinberri heilbrigðisþjónustu eða hvað mér finnst um slíkt fyrirkomulag yfirhöfuð, ekki hvernig eftirlit með starfsháttum virðist í höndum rekstraraðila og velunnara né um ákveðnar persónur. Ölluheldur fjallar hún um sinnuleysi, lélegt utanumhald, gegnumgangandi og kerfislæga óvirðingu í garð fatlaðs fólks og mannfjandsamlegt kerfi sem fjársvelt reiðir sig á útvistanir sjálfsagðrar almenningsþjónustu. Það skal einnig tekið fram að það starfsfólk sem ég ræddi við mætir til vinnu sinnar daglega af hugsjón og umhyggju fyrir fólkinu sem um ræðir í bland við eigin afkomuótta.
Mannvirðing ehf.
Þegar ég kom á vaktina á mánudagskvöld tók ég við af áðurnefndri vinkonu sem hafði þá verið á svæðinu við almenn umönnunarstörf í þrjátíu og tvær klukkustundir án hlés. Hún er menntuð í öðru, vinnur annars staðar en hjá sama fyrirtæki og rekur Bjarg; Mannvirðingu ehf. Vinkonan hafði fyrir tilviljun flækst inn í starfsemina á föstudegi þegar hún kom þangað að sinna öðrum erindum. Hún komst að því þá að forstöðukona Bjargs sem jafnframt er annar tveggja eiganda Mannvirðingar, Kristín O. Sigurðardóttir hafði verið með viðveru á Bjargi meira og minna allan sólarhringinn svo dögum skipti. Hún kenndi í brjósti um Kristínu sem var að vonum þreytt og bauðst til að leysa hana af í fáeina tíma svo Kristín gæti skroppið heim til sín, farið í sturtu og hvílt sig aðeins. Kristín snéri ekki aftur og er skv. heimildum komin í langvarandi veikindaleyfi.
Hinn eigandi Mannvirðingar ehf. er Guðmundur Sævar Sævarsson tók á móti undirritaðri á vaktina og fer með rekstur Bjargs í fjarveru Kristínar ásamt tilfallandi starfsfólki. Guðmundur kom vel fyrir og hef ég ekkert út á okkar samskipti að setja. Hann þekkja eflaust einhverjir úr fjölmiðlum en Guðmundur var áður deildarstjóri á geðsviði Landspítala. Hann lét af störfum vorið 2021 í kjölfar umfjöllunar um greinargerð Geðhjálpar um starfsemi öryggis- og réttargeðdeildanna. Greinargerðin byggði meðal annars á frásögnum samstarfsfólks Guðmundar sem lýsti illri meðferð á sjúklingum, lyfjaþvingunum, slæmum starfsanda og ógnarstjórn sem hann ber af sér með öllu. Þá sinnti Guðmundur um tíma varaþingmennsku fyrir hönd Flokks fólksins en sagði af sér þingmennsku og leitaði sér hjálpar eftir fyllerísskandal. Guðmundur tók það strax fram við mig að margt innanhúss væri óeðlilegt, óhefðbundið, jafnvel mjög slæmt. Þetta væri allt þekkt og vitað en ekki þeim að kenna. Húsið er löngu komið til ára sinna og hafa áform um að loka úrræðinu alfarið verið í umræðunni lengi en framkvæmd alltaf frestað af hinu opinbera m.a. vegna skorts á öðrum úrræðum til að taka við heimilismönnunum.
Líklega verður það að teljast í skásta máta óeðlilegt að fela ókunnugri manneskju eins og undirritaðri ábyrgð sem þessa en ljóst er að á Bjargi ríkir neyðarástand.
Liggur allan daginn með ipad
Þrátt fyrir einhverja reynslu frá fyrri árum fóru um mig ónot að vera ein í húsinu sem er stórt og mikið. Það var ekki vegna hræðslu við heimilismenn heldur vegna þess sem ég varð áskynja við á yfirferð minni um húsnæðið. Þar var áberandi óhreint, ólykt og tilfinnanlegur skortur á helstu gæðum góðs heimilis. Á jarðhæðinni, þar sem mér gafst kostur að vera, er sameiginlegt eldhús, stofa og reykherbergi fyrir íbúana sem koma og fara þar um eins og þeim finnst best. Á annarri og þriðju hæð eru síðan mörg herbergi og búa karlarnir í þeim, fimm talsins. Hver og einn með sitt eigið, fyrirkomulagið er nokkuð gamaldags, ekki í takt við nútíma áherslur um sjálfstæða búsetu, virkni og mannlega reisn. Flestir íbúanna hafa búið þarna í áratugi og í greinagerðum um húsið og íbúana þar sem ég las yfir nóttina hefur gamla fyrirkomulagið á Bjargi verið réttlætt með þeirri staðreynd að mennirnir séu einfaldlega orðnir svo vanir því að hafa hlutina með þessum hætti og ekki taki því að breyta til úr þessu. Alvarlegast verða að teljast aðstæður eins íbúans sem hefur algjöra, skerta hreyfigetu vegna hrörnunar og er rúmliggjandi á annarri hæð hússins. Fastur inni á herbergi því aðgengismál hússins bjóða ekki uppá annað. Engin viðeigandi stoðtæki voru til í húsinu, ekki hjólastóll til umráða og engin salerni í herbergjum. Notast er við handafl til að færa manninn í hægindastól þar sem hann dvelur jafnan á daginn og horfir á bíómynd eða hlustar á hlaðvarp sem starfsfólk setur fyrir framan hann á ipad. Hann er svo færður eins tilbaka á kvöldin. Aðspurður sagðist Guðmundi ekki líða vel yfir þessum aðstæðum mannsins. Hann kvað ábyrgðina ekki sína eða Mannvirðingar ehf. sótt hefði verið um hjúkrunarrými fyrir íbúann og þess beðið að hann kæmist að á elliheimili. Ástæðan lægi því eins og í öðru hjá hinu opinbera og/eða Seltjarnarnesbæ og títtumræddum seinagangi kerfisins.
-Þó að mikið sé til í því velti ég á þessum tímapunkti fyrir mér hlutverki okkar sem manneskjur og samfélagslegri ábyrgð gagnvart samferðarfólki okkar, sérstaklega þeim sem kunna að standa höllum fæti. Hversvegna hafði ekkert verið gert áður? Farið með manninn á spítala? Hversvegna var Bjargi ekki bara lokað? Og hver er hvatinn að halda svona áfram? Og á kostnað heilsu og lífs þessa manns? Hversvegna hefur enginn hringt í heilbrigðiseftirlitið? Geðhjálp? Starfsfólk landspítala? Einhvern?
Ég kvaddi Guðmund á miðnætti með loforði að vera þeim innan handar áfram og taka næturvaktir á meðan úr málefnum heimilisins yrði leyst. Loforð þetta dró ég síðan tilbaka í símtali eftir vaktina. Síðan hringdi ég í Geðhjálp sem brást hratt við með því að senda fulltrúa réttindargæslu fatlaðra á staðinn.
Vistun afbrotamanns og átök um Bjarg
Guðmundur Sævar er eins og komið hefur fram annar tveggja eigenda Mannvirðingar ehf. en hefur það að eigin sögn að meginstarfi að reka annað úrræði á vegum fyrirtækisins, sérhæft öryggisúrræði að Reynimel í Reykjavík. Um það hefur einnig verið fjallað í fjölmiðlum. Heimildir herma að leitað sé af hentugra húsnæði undir þann rekstur þar sem Reynimelur sé of lítill og líklega til að mæta brýnni þörf á slíku úrræði undir afplánunarfanga hefur verið fluttur, tímabundið á Bjarg, einstaklingur undir fertugu með „ljótan dóm“ eins og Guðmundur orðaði það við mig, fyrir kynferðisbrot gegn barni. Þessi ráðstöfun skýtur nokkuð skökku við. Einstaklingar sem metnir eru sakhæfir fyrir dómi, þegar refsing telst árangurslaus og/eða ekki til þess fallin að lærdómur hljótist af, eru til að tryggja réttaröryggi, dæmdir til öryggisvistunar um óákveðinn tíma. Öryggisvistun er því mjög langt frá því að teljast það sama og sjálfstæð dvöl á vistheimili eða í búsetuúrræði líkt og Bjargi þar sem geðfatlað fólk, íbúar eru frjálsir ferða sinna og hafa ekki til saka unnið.
Tekist á um framtíð Bjargs
Saga Bjargs spannar hálfa öld og hófst með samstarfi Hjálpræðishersins og Kleppsspítala. Árið 1996 tóku svo heilbrigðisyfirvöld við samstarfinu af Kleppsspítala auk fjármögnunar rekstrarsamnings við Hjálpræðisherinn. Árið 2011 fól ráðuneytið Jöfnunarsjóði sveitarfélaga ábyrgð á fjármögnun vistheimila. Síðan þá hefur staðið styr um hverjir raunverulega beri ábyrgð á vistmönnum Bjargs, karlmönnum á efri árum með geðklofagreiningu sem hafa búið þar síðan áttunda og á níunda áratug síðustu aldar. Þegar Hjálpræðisherinn dró sig í hlé frá rekstrinum fyrir um sjö árum síðan varð uppi mikil óvissa um framtíð vistheimilisins en sjö karlar bjuggu þar þá. Árið 2018 fól Velferðarráðuneytið Seltjarnarnesbæ að taka alfarið við umönnun karlanna enda hefðu þeir lögheimili í bæjarfélaginu. Vísuðu stjórnvöld í þá-gildandi lög um málefni fatlaðs fólks þessu til stuðnings. Seltjarnarnesbær hafnaði þeirri ábyrgð og bar þáverandi bæjarstjóri, Ásgerður Halldórsdóttir við að ekki væri neina sérþekkingu að finna hjá bænum til að veita svo sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu líkt og fram fór á Bjargi. Þá gerðu lögin sem ráðuneytið vísaði til jafnframt ráð fyrir að þjónustusvæði fatlaðs fólks ætti að hafa að minnsta kosti átta þúsund íbúa en á Seltjarnarnesi byggju tæplega fimm þúsund.
„Allir eru sammála að mestu skiptir að tryggja velferð og hagsmuni íbúa Bjargs og bærinn telur ljóst að það verði ekki gert með því að hætta skyndilega rekstri vistheimilis eftir hálfa öld, leysa heimilið upp og treysta á að málið leysist af sjálfu sér innan viðkomandi sveitarfélags. Ábyrgðin á áframhaldandi rekstri vistheimilisins er stjórnvalda og það er þeirra að finna lausn sem tryggir íbúum Bjargs þann stuðning og þjónustu sem þeir eiga skilið að fá,“ segir í minnisblaði bæjarstjórnar Seltjarnarnessbæjar frá árinu 2018.
Um þetta var fjallað á sínum tíma í fjölmiðlum og skárust ýmis hagsmunasamtök í umræðuna. Til að mynda sendi Öryrkjabandalagið Seltjarnarnesbæ áskorun í nóvember 2018.
„Enginn vafi leikur á að Seltjarnarnesbæ beri að taka við þjónustu við íbúa Bjargs eftir að Hjálpræðisherinn hættir rekstrinum um áramót. Raunar ætti bærinn að biðja íbúa Bjargs afsökunar á því að hafa ekki veitt þeim liðveislu, akstursþjónustu og aðra viðeigandi þjónustu um árabil. Fjármagn ætti heldur ekki að standa í vegi fyrir því að Seltjarnarnesbær taki þjónustuna að sér enda myndi hún nánast alfarið vera greidd af ríkinu. Því til viðbótar ætti sveitarfélagið rétt á að innheimta leigu- og fæðiskostnað af íbúunum eftir að þeir hafa fengið greiddar örorkubætur í samræmi við búsetu í sveitarfélaginu. Hingað til hafa þeir aðeins fengið lágmarks dagpeninga í tengslum við vistun á stofnun,” segir í bréfi ÖBÍ.
Seltjarnarnesbær vill ekki reksturinn
Vegna staðfastrar neitunar Seltjarnarness að sinna þjónustunni og mikillar óvissu um framtíð íbúa Bjargs ákvað ráðuneytið loks að gera samning við Mannvirðingu ehf. í lok árs 2018 um reksturi og þjónustu heimilisins í eitt ár. Þetta var gert til að tryggja öryggi íbúanna á meðan önnur úrræði skyldu skoðuð. Málefni Bjargs fóru fyrir ráðuneyti sveitarstjórnarmála til umfjöllunar og óskað var eftir því í bréfi þangað að umboðsmaður Alþingis yrði upplýstur um meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Við þessu var orðið. Í bréfi ráðuneytisins til UA 2019 var tekið fram að gripið yrði til aðgerða gegn Seltjarnarnesbæ fyrir að neita að neita mönnunum um þjónustu. „ráðuneytið hefði gjört Seltjarnarnesbæ kunnugt að vanrækti sveitarfélagið skyldur sínar gagnvart íbúum vistheimilisins þegar núverandi rekstraraðili léti af störfum myndi ráðuneytið beita sveitarfélagið þvingunarúrræðum á grundvelli 116. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, til að knýja á um úrbætur.“
Engar upplýsingar eru um hvort þessum afdráttarlausu hótunum ríkissins gegn Seltjarnarnesbæ hafi verið fylgt eftir eða þær komið til framkvæmdar. UA heldur áfram sínu aðhaldi með reglulegum bréfum til ráðuneytisins árin á eftir og fylgist náið með þróun mála. Þau svör sem bárust aftur frá ráðuneytinu voru alltaf á sömu leið, að unnið væri að því með hagsmunaaðilum að útbúa langtímaáætlun um rekstur Bjargs og að viðræður væru í gangi um langtímasamninga um áframhaldandi rekstur á Bjargi. Síðasta svarbréf ráðuneytisins til UA berst í febrúar 2023.
Framtíð heimilsmanna
Ekki hefur ennþá fundist farsæll lausn um rekstur og framtíð Bjargs. Mannvirðing ehf. sér því um rekstur á starfsemi vistheimilisins sem má sannarlega muna sinn fífil fegurri. Fjármögnun er á grundvelli samkomulags milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, mennta- og barnamálaráðherra og innviðaráðherra sem gilda átti til ársloka 2024, en var framlengt til ársloka 2025. Hvað verður þá um mennina á Bjargi er ekki gott að segja.