Vaxandi gagnrýni á Bjarna frá hægri

Stjórnmál 17. okt 2022

„Fækka þarf þeim verkefnum sem hið opinbera sinnir og auka rými einkaaðila, enda er það nauðsynlegt eigi að vera hægt að halda uppi þeirri framleiðslu hér á landi sem staðið getur undir þeirri velmegun sem við höfum fengið að venjast og viljum búa við áfram,“ stendur í leiðara Moggans í morgun, enn eitt merki um vaxandi gagnrýni á Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, frá hægri í aðdraganda landsfundar.

Þessi gagnrýni er kemur úr herbúðum harðra nýfrjálshyggjusinna sem enn vilja halda því fram að niðurbrot opinberrar þjónustu og einkavæðing auki almenna velsæld, kenning sem fáir aðhyllast í dag nema kannski Liz Truss í Bretlandi og kjarni forystusveitar Sjálfstæðisflokksins á Íslandi.

Hin vaxandi gagnrýni snýst um mikinn halla á fjárlögum, nú þegar cóvid er að mestu að baki og efnahagslífið er komið á fullt skrið. Samt leggur Bjarni fram fjárlagafrumvarp með miklum halla, næstum 90 milljarða króna gati. Sem er á stærð við einn nýjan Landspítala.

Verkalýðshreyfingin, allt frá Eflingu að BHM, hefur gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir þetta gat á þeim forsendum að það sé þarna vegna veikingar tekjuhliðar fjárlaga. Verkalýðshreyfingin vill að skattar verði lagðir á þá sem eru aflögufærir og sérstaklega á þau fyrirtæki sem nú njóta góðæris í rekstri: Stórútgerð, fjármálafyrirtæki og stóriðja. Að öðrum kosti muni gatið verða að vaxtakostnaði á næstum árum sem mun enn þrengja að opinberri þjónustu.

Morgunblaðið og hægrið er sammála um að hallinn gangi ekki en sér allt aðra lausn, vill skera niður opinbera þjónustu um þennan Landspítala á ári. Í einum af mörgum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins, sem er einskonar málgagn hægrisins hægra megin við Moggann, var dregin upp dökk mynd efnahagshorfum í heiminum og síðan sagði:

„En íslenska fjármálaráðuneytið hefur ekki frétt af þessu. Ríkisútgjöld verða hækkuð um 129 milljarða milli ára á næsta ári, ef tekið er tillit til tímabundinna útgjalda ríkissjóðs vegna Covid. Þetta er auðvitað sturlun. Það sem helst er að frétta af Sjálfstæðisflokknum, sem ætti að verja okkur fyrir þessari vitleysu allri, eru vangaveltur um hver verður ritari. Hver tekur við embætti sem er algjörlega ónauðsynlegt og var stofnað til í miklum misskilningi.“

Þessi gagnrýni er þung undiralda í Sjálfstæðisflokknum, að Bjarni Benediktsson sé að reka ríkissjóð með óréttlætanlegum halla við ágæt stand í efnahagslífinu. Hún mun líklega brjótast fram á næstu tveimur vikum fram að landsfundi og blandast við þau mörgu mál sem ráðherrar og þingmenn hafa lagt fram að undanförnu til að skerpa á hægristefnu flokksins. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt til hörku í innflytjendamálum, Diljá Mist Einarsdóttir leggur til rýmri heimildir til að reka opinbera starfsmenn, Óli Björn Kárason vill afnema skylduaðild að lífeyrissjóðum og svo framvegis.

Það er vaxandi krafa innan flokksins um að hann nái hægristefnu sinni fram; skeri meira niður, brjóti niður völd verkalýðshreyfingarinnar, dragi úr réttindum vinnandi fólks, herði útlendingalög, einkavæði meira og nái fram stefnu sem minnir meira á Liz Truss en Katrínu Jakobsdóttur.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí