Ragnar Þór Ingólfsson, formaður fjárlaganefndar Alþingis, tekur undir gagnrýni og kröfu um að ríkislögreglustjóri segi af sér.
Þetta kom fram í sjónvarpsþættinum Synir Egils á Samstöðinni í dag undir stjórn Sigurjóns Magnúss Egilssonar.
Ragnar kallaði fégreiðslur Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra, sem hafa verið í fréttum „þetta botnlausa bruðl“. Hann segist telja að Sigríði sé ekki sætt áfram í þessu embætti. Það geri illt verra að 160 milljóna króna greiðslurnar til stjórnunarráðgjafans Þórunnar Óðinsdóttur upplýsist nú á sama tíma og uppsagnir reyndra starfsmanna innan lögreglu eigi sér stað.
Formaður Landssambands lögreglumanna hefur nefnt opinberlega að lögga sem fari útkall vegna morðs um miðja nótt fái um 6.000 krónur á tímann – eða um sex sinnum lægri fjárhæð en Þórunn rukkaði embætti ríkislögreglustjóra fyrir – til að snatta í kringum píluspjald og fleira.
Umræðan um ríkislögreglustjóra, hægagang og sukk í kerfinu sem ekkert breytist frá tíma til tíma er í upphafi þáttarins.