Mikill fjöldi mannúðarsamtaka hafa harðlega mótmælt brottflutningi flóttafólks til Grikklands í vikunni. Þau efna til mótmæla á Austurvelli á morgun, sunnudaginn 6. nóvember klukkan tvö.
Í viðburði fundarins á Facebook, EKKI Í OKKAR NAFNI – Mótmælum brottvísunum, segir að á sama tíma og samfélagið fordæmi þessar ómannúðlegu aðför að fólki á flótta, berist fréttir af því að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi klappað fyrir Jóni Gunnarssyni og frammistöðu hans í málefnum flóttafólks.
„Klappað fyrir dómsmálaráðherranum sem hunsar vilja dómara um að fólkið sem um ræðir gæti sagt sögu sína fyrir dómi við aðalmeðferð sem fer fram eftir nokkra daga! Við verðum að standa saman gegn þessari mannfjandsamlegu afstöðu stjórnvalda. Ekki fleiri ómannúðlegar brottvísanir í okkar nafni!“ er ritað á viðburðinn.
Á fundinum verða fluttar fjölmargar ræður: Magga Stína tónlistarkona, Anna Lára Steindal frá Þroskahjálp, Sigrún Ásta Gunnarsdóttir nemandi við FÁ, Illugi Jökulsson blaðamaður, Embla Guðrúnar Ágústsdóttir frá Tabú, Anna Sonde frá Antirasistunum, Bragi Páll rithöfundur og Sólveig Ástu- og Daðadóttir frá Q-félaginu lesa fyrir Mohammed Alkurd. Fundarstjóri er Sema Erla Serdar frá Solaris.
Eins og áður sagði hafa fjölmörg mannúðarsamtök andmælt þessum brottförum á undanförnum dögum. Hér eru sýnishorn:
„Stjórn Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi fordæmir aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem fela í sér ómannúðlegar brottvísanir fólks á flótta úr landi í skjóli nætur,“ var skrifað á vegg samtakanna á Facebook. „Síðustu daga hafa íslensk yfirvöld leitað uppi og flutt úr landi fólk sem bíður eftir endurupptöku á beiðnum um alþjóðlega vernd hér á landi sem og aðalmeðferð fyrir dómstólum og með því brotið á lagalegum réttindum flóttafólks.“
Stjórn Solaris fordæmir harðlega þessi brot ríkisstjórnarinnar á alþjóðlegum skuldbindingum sem birtast meðal annars í brottvísun Hussein og fjölskyldu, þar sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er brotinn sem og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttafólks og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.“
„Fjöldi fólk í viðkvæmri stöðu, fólk sem glímir við alvarlegan heilsubrest og fatlaður einstaklingur í hjólastól, eru nú um borð í leiguflugvél á leið til Aþenu,“ var skrifað á vegg No Borders á Íslandi á sama tíma. „Reyndar berast nú fréttir af því að hjólastóllinn verði tekinn af honum, enda sé hann í eigu íslenska ríkisins. Þessar viðbjóðslegu aðgerðir lögreglu og Útlendingastofnunar eru í boði dómsmálaráðherra Jóns Gunnarssonar og ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem öll ber ábyrgð á þessum níðingsskap.“
„Rauði krossinn á Íslandi fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem þegar hafa fengið stöðu sína viðurkennda í Grikklandi,“ segir í yfirlýsingu samtakanna. „Félagið hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir til Grikklands og telur að þær skapi fólki hættu sem íslensk stjórnvöld beri ábyrgð á.“
„Þá harmar félagið meðferð stjórnvalda á þeim á viðkvæma hópi umsækjenda um alþjóðlega vernd sem frelsissviptir hafa verið og þvingaðir úr landi. Í því sambandi áréttar félagið að stjórnvöld eru bundin af grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins um meðalhóf en samkvæmt henni skal stjórnvald einungis taka svo íþyngjandi ákvörðun, líkt og frelsissvipting er, þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti.“
UN Women á Íslandi tók undir áhyggjur Rauði krossinn og ítrekaði jafnframt mikilvægi þess að taka verði sérstakt tillit til hagsmuna viðkvæmra hópa, svo sem fólks með fatlanir, hinsegin einstaklinga, kvenna og barna.
„Við hvetjum stjórnvöld til að endurskoða þá ómannúðlegu stefnu að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fengið hafa stöðu sína viðurkennda í Grikklandi, aftur þangað í óboðlegar aðstæður,“ var ritað á vegg samtakanna á Facebook.
Í ljósi frétta af brottvísun fatlaðs einstaklings sem notast við hjólastól vildi Rauði krossinn benda á þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að, m.a. samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Mannréttindasáttmála Evrópu.
„Þroskahjálp hefur fylgst með máli viðkomandi síðustu 18 mánuði og tekið þátt í því að vekja athygli á sérlega viðkvæmri stöðu hans og stutt hann í því að láta á synjun Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála reyna fyrir dómstólum,“ segir í yfirlýsingu Þroskahjálpar.
Þroskahjálp benti á að í fyrsta lagi eru aðeins tvær vikur þangað til mál mannsins verður tekið fyrir hjá íslenskum dómstólum. Í öðru lagi hafi samtökin staðfestar heimildir fyrir því að hvorki lögmaður mannsins né réttindagæslamaður hafi fengið upplýsingar um stöðu mála frá yfirvöldum. Í þriðja lagi hafi þau upplýsingar um að hann hafi verið sendur úr landi án nauðsynlegra lyfja. Og í fjórða lagi hafi verið brotið gegn ákvæði samningsins um verndun friðhelgi einstaklingsins þegar maðurinn var fjarlægður með líkamlegu valdi úr hjólastólnum.
„Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir neyðarfundi með ráðherra mannréttindamála, Katrínu Jakobsdóttur, ráðherra málefna fatlaðs fólks, Guðmundi Inga Guðbrandssyni og ráðherra útlendingamála, Jóni Gunnarssyni. Samtökin telja augljóst að alvarleg mannréttindabrot hafi verið framin og krefjast skýringa tafarlaust,“ segir í lok yfirlýsingarinnar.
„ÖBÍ réttindasamtök fordæma aðgerðir stjórnvalda í máli Husseins Hussein, fatlaðs manns frá Írak, sem var handtekinn og svo vísað á brott til Grikklands í morgun,“ segir í yfirlýsingu ÖBÍ. „Eins og fram kemur í fjölmiðlum var Hussein handtekinn með vanvirðandi hætti án fyrirvara og fluttur frá Íslandi í ómannúðlegar og hættulegar aðstæður sem ógna munu heilsu hans og lífi. Ítarlegar skýrslur liggja fyrir um bágborna stöðu flóttafólks á Grikklandi. Fatlað fólk er þar í sérstaklega viðkvæmri stöðu og stendur gjarnan utan heilbrigðiskerfisins.“
„UNICEF á Íslandi fordæmir að ungmenni sem kom hingað til lands sem fylgdarlaust barn hafi verið vísað úr landi í gær stuttu eftir að það varð sjálfráða,“ er skrifað á vegg samtakanna á Facebook. „Móttaka fylgdarlausra barna hér á landi er bágborin en þarna tekur steininn úr. UNICEF á Íslandi bendir á að samkvæmt lögum skal barn ávallt njóta vafans og réttindi þess virt í hvívetna. Fylgdarlaust barn á rétt á þjónustu barnaverndar og að úrræði barnaverndar séu framlengd þar til ungmenni hefur fengið nægan stuðning til sjálfstæðs lífs.
„Fólki á flótta var vísað brott í skjóli nætur á ómannúðlegan hátt en þar á meðal voru nemendur sem sóttir voru af lögreglu og frelsissviptir á heimleið úr skóla,“ segir í ályktun þings Kennarasambands Íslands. „8. þing Kennarasambands Íslands fordæmir þær aðgerðir stjórnvalda sem fóru fram í vikunni við brottflutning flóttafólks úr landi.“
Í yfirlýsingu Íslandsdeildar Amnesty International segir að fjölmargar heimildir, svo sem skýrslur Evrópuráðsins, og mannréttinda- og frjálsra félagasamtaka gefi til kynna að raunverulegar aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu óviðunandi.
„Í nýlegum úrskurði kærunefndar útlendingamála kemur beinlínis fram að það sé mat hennar að það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafi alþjóðlega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfélagsins og búi í sumum tilvikum við félagslega einangrun,“ segir í yfirlýsingu deildarinnar.
„Kvenréttindafélag Íslands hefur ítrekað hvatt stjórnvöld til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar að standa vörð um konur og enn fremur til að standa vörð grundvallargildi íslensks samfélags, jafnrétti, lýðræði og frelsi einstaklingsins, eins og sjá má í fyrri ályktun Kvenréttindafélagsins,“ segir í ályktun félagsins.
Kvenréttindafélagið fordæmir þær aðgerðir sem fóru fram við brottflutning flóttafólks úr landi og kallar á tafarlaus viðbrögð frá stjórnvöldum. „Stjórnvöld réðust í afdrifamiklar aðgerðir í nótt að senda fólk sem kom hingað í leit að betra lífi úr landi. Þar á meðal voru stelpur sem voru sóttar á heimleið úr skóla, fjölskylda frá Írak sem beið eftir aðalmeðferð í máli sínu sem nú mun ekki geta mætt til að skila skýrslu, fatlaður maður og kona með alvarleg veikindi sem var neituð læknisþjónusta.“
„Ég styð að vel sé tekið á móti flóttafólki og hælisleitendum en ég vil ekki að fólki sem hingað er komið sé vísað úr landi,“ skrifaði Agnes M. Sigurðardóttir biskup í Kjarnann. „Það á líka að koma vel fram við þau sem fyrir eru. Ef ætlunin með þessari brottvísun er að fæla aðra frá því að beiðast hér hælis þá er þetta ekki gott ráð til að draga úr þeim fjölda sem hingað leitar. Það hlýtur að vera hægt að gera betur. Það á að gera betur.“