Sigurður Þórðarson, fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, hefur sent mál Lindarhvols ehf. til embættis ríkissaksóknara til efnislegrar meðferðar. Þetta kemur fram í bréfi sem Sigurður sendi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum og greinir frá í frétt.
Lindarhvoll er félag sem Bjarni Benediktsson þáverandi og núverandi fjármálaráðherra stofnaði til árið 2016. og hafði umsjá með sölu á eignum sem féllu til ríkisins í kjölfar fjármálahruns. Eignir sem skilanefndir föllnu bankanna sóttu fóru til Lindahvols sem átti að fá besta mögulega verð fyrir eignina. Félag sem átti að gæta hagsmuna ríkisins og þar með almennings.
Sigurður var settur ríkisendurskoðandi um tíma og vann þá skýrslu um Lindahvol sem ríkisendurskoðun og Birgir Ármannsson forseti Alþingis hafa neitað að birta. í nóvember á síðasta ári sendi Sigurður bréf til stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar þar sem hann sagði að miklir örðugleikar á öflun upplýsinga og aðgangi að frumgögnum hjá Lindarhvoli. Sama hafi átt við þegar leitað hafi verið eftir upplýsingum hjá Seðlabanka Íslands og slitabúum þeirra fjármálafyrirtækja sem tengdust stöðugleikaeignum. Hann hafi samt talið tilefni til að gera Alþingi grein fyrir stöðu verksins og þá hvaða atriði gæfu tilefni til frekari upplýsingaöflunar og mats á því hvort rétt hefði verið staðið að málum.
Þegar nýr ríkisendurskoðandi var skipaður féll starf Sigurðar niður og ríkisendurskoðun sendi frá sér skýrslu um allt hefði verið í lagi hjá Lindahvol. Það hefur Sigurður illa sætt sig við, ætíð gefið til kynna að svo hafi alls ekki verið. Samkvæmt Viðskiptablaðinu hefur hann nú sent málið til saksóknara, sem ber að rannsaka lögbrot og ákæra ef tilefni er til.