Á meðan Palestínumenn gefast ekki upp þá gefumst við ekki upp

Skoðun Yousef Ingi Tamimi 5. nóv 2023

WCNSF, ég endurtek, WCNSF er skammstöfun sem er heyrist mjög oft á Gaza þessa daganna. WCNSF stendur fyrir  Wounded Child No Surviving Family sem einfaldlega þýðir slasað barn, enginn eftirlifandi fjölskylda.

Þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir Ísraels í Palestínu eru skelfileg staðreynd. Núna, árið 2023, erum við að horfa á í beinni útsendingu þjóðernishreinsanir ísraelskra stjórnvalda með fullum stuðningi Bandaríkjanna, ESB og Íslands. En við skulum hafa það á hreinu að stuðningur íslensku ríkisstjórnarinnar á þjóðarmorðum í Palestínu er ekki í mínu nafni. Þótt að utanríkisráðherra Íslands eigi erfitt með meðtaka staðreyndir, opinberar yfirlýsingar ísraelska stjórnvalda um þjóðernishreinsanir og það að hann eigi erfitt með að skilgreina hvað árás sé, þá er staðreyndin sú að flestar stofnanir, allt frá Amnesty till sérstakra eftirlitsmannSameinuðu þjóðanna, eiga ekkert sérstaklega erfitt með þetta. Ísrael er að ráðast á Palestínu, Ísrael er að stunda aðskilnaðarstefnu og alvarleg brot á mannúðarlögum eru framkvæmd daglega af Ísrael.

Ísrael er ekki að berjast gegn Hamas. Ísrael er í stríði gegn börnum í Palestínu. Ísrael er markvisst að myrða börn. Um 4 þúsund börn hafa verið myrt á Gaza, hundruð ef ekki þúsund barna eru týnd undir rústum sundursprengdra húsa og á hverjum klukkutíma eru sex börn myrt á Gaza. Sem þýðir að á meðan að þessi fundur hefur átt sér stað hefur Ísrael myrt 9 börn. Tala myrtra Palestínumanna nálgast hátt í 10 þúsund. Tíu þúsund á 4 vikum en ríkisstjórn Íslands á erfitt með að segja vopnahlé.

Það er staðreynd að heilbrigðiskerfið á Gaza er hrunið. Sjúkrahús geta ekki sinnt sínu starfi, sjúkrahúsin geta ekki hjálpað fólki og hjúkrað sjúkum. Sjúkrahúsunum á Gaza skortir nauðsynleg heilbrigðisgögn, skortir eldsneyti fyrir rafmagni og ítrekað hefur verið ráðist á heilbrigðisstarfsfólk og það myrt. Nýjasta útspil Ísraels er að sprengja sólarrafhlöður sjúkrahúsa til að gulltryggja endanlega að Palestínumenn munu deyja. Ísrael ætlar ekki að hlífa neinum í árásum sínum. Markmiðið er eitt, Palestína á að hverfa.

Palestínumenn hafa reynt ýmsar aðferðir við að berjast gegn hernámi, arðráni og aðskilnaðarstefnu Ísraels. Fyrsta intifada var of ofbeldisfull fyrir ráðamenn vestrænna ríkja og voru niðurstöður Oslóarsamkomulagið. Sem að fékk Palestínu til að viðurkenna Ísrael en á sama tíma þurfti Ísrael ekki að viðurkenna Palestínu. Ísrael hefur markviss keyrt Oslóarsamkomulagið á kaf, eyðilagt það. Aukið hernám, arðrán og aðskilnaðarstefna er það sem Ísrael stundar. Við tók bið, bið eftir engu og svo seinni intifada. Aftur, of ofbeldisfullt fyrir vestræn ríki. Í kjölfar seinni intifada reyndu Palestínumenn friðsamari aðferð til að berjast fyrir réttindum sínum, sniðgönguhreyfingu í anda sniðgöngu gegn apartheid Suður-Afríku. Friðsöm stefna sem hvetur einstaklinga og ríki til að sniðganga Ísrael þar til ríkið fer að alþjóðalögum. Þessi friðsama aðferð hentaði ekki vestrænum ríkjum og hafa verið sett lög víðsvegar í Evrópu og Bandaríkjunum sem einfaldlega banna sniðgöngu gegn Ísrael, túlka hana sem gyðingahatur. Kosningar í Palestínu 2006, sem eftirlitsmenn fundu ekkert athugavert við, leiddu til sigurs Hamas – Niðurstöður sem að ekki heldur hentuðu vestrænum ríkjum og viðskiptabann var sett á stjórnvöld. Og svo árið 2014 þegar Palestínska heimastjórnin reyndi að semja um að Ísrael drægi sig alveg úr Palestínu, hentaði ekki stefnu Ísraels og hafa Ísraelar ekki rætt við ráðamenn Palestínu síðan.

Á meðan öllu þessu hefur staðið hefur Ísrael sett Gaza í herkví, herjað fjögur stríð á Gaza, drepið yfir 6 þúsund Palestínumenn á tímabilinu 2008 til 2023, aukið landrán á Vesturbakkanum, ofbeldi landræningja hefur aukist um tugi prósenta, fjölgað byggingu á landræningjabyggðum Palestínu og reynt að þurrka Palestínu út af kortinu. Ísrael hefur algjörlega skorið í sundur land Palestínu og stjórnar öllu lífi Palestínumann með harðri hendi, stjórnað hver fer hvert og hvenær, hver fær vatn og hvenær, hver fær rafmagn og hvenær og hver verður drepinn og hvenær.

Það má því spyrja sig – hvaða aðferð hentar vestrænum ríkjum fyrir Palestínu að berjast fyrir frelsi sínu? Því það virðist vera að ofbeldi er ekki rétt aðferð, sniðganga er ekki rétt aðferð, kosningar eru ekki rétta aðferðin, friðarsamkomulag er ekki rétta aðferðin. En vestræn ríki hafa ákveðið hvaða aðferð er rétt og hún er sú að palestínska fólkið á leggjast niður og einfaldlega deyja, hverfa og hætta að vera með vesen.

Og svo kom 7. október –  Upphafið af öllu. Vestrænir leiðtogar keppast um að koma fordæmingu áleiðis en gleyma því að upphafið var ekki 7 október. Það sannar þó þá staðreynd að status-quo, hið stöðuga ástand eða friðurinn er róleg útrýming á Palestínu, stöðuga ástandið eða friðurinn er morð á Palestínu fólkinu. Stöðuga ástandið eða friðurinn er að Palestína tapi meira land og hægt og rólega hverfi.

Ég veit þó fyrir víst að íslenska þjóðin stendur ekki með þjóðarmorðum. Íslenska þjóðin er á móti þjóðernishreinsunum og íslenska þjóðin stendur með Palestínu. Þótt að íslensk stjórnvöld geta ekki staðið í lappirnar og fordæmt þjóðernishreinsanir í beinni útsendingu þá veit ég að hugur íslensku þjóðarinnar er hjá Palestínu. Það að íslensk stjórnvöld geti ekki krafist vopnahlés á meðan Ísrael myrðir þúsundir Palestínumanna þá veit ég að hugur þjóðarinnar er með Palestínu. Það að íslenskir ráðamenn reyni að friðþægja sína eigin samvisku með því að auka fé til hjálparstofnana í Palestínu mun ekki fá mig til að þegja. Ég mun ekki þegja fyrr en íslensk stjórnvöld fordæmi þjóðarmorðið. Ég mun ekki þegja fyrr en íslensk stjórnvöld fordæmi þjóðernishreinsanir og ég mun ekki þegja fyrr en íslensk stjórnvöld slíti stjórnmálasamband við Ísrael, þangað til að ísraelsk stjórnvöld viðurkenni Palestínu, þangað til að ísraelsk stjórnvöld farið að alþjóðalögum og þangað til að ísraelskir ráðamenn verður dregin fyrir dómstóla fyrir þjóðernishreinsanir og þjóðarmorð á íbúum Palestínu.

En margir spyrja sig, hvað get ég gert. Hvernig get ég á Íslandi gert eitthvað fyrir Palestínu.  Það er hægt að gera svo mikið!

Fyrir það fyrsta – mæta! Eins og þið öll hafið gert. Mæta á fundi, mæta á mótmæli og fræðast um málstaðin.

Númer tvö: Deila efni, hvort sem það er á instagram, facebook, snapchat eða á kaffistofunni. Framlengja rödd Palestínumanna á svæðinu, dreifa upplýsingum áfram og láta raddir Palestínumanna heyrast sem víðast. Vera dugleg að deila efni. Það. skilar. Árangri.

Númer þrjú sniðganga. SNIÐGANGA Ísrael og fylgja fordæmi sniðgöngu hreyfingar Suður-Afríku, fylgja BDS hreyfingu Palestínu og neyða Ísrael til að fara eftir alþjóðalögum. Það er ekkert Gyðingahatur fólgið í því að neita að versla við ríki sem stundar hernám, aðskilnaðarstefnu og arðrán. Facebook síða og instagram síða íslensku deildar sniðgöngu hreyfingarinnar er virk og deilir efni sem gott er að lesa um.

Síðast, en alls ekki síst. Setja kröfur á okkar eigin þingmenn. Á morgun verður lögð fram þingsályktunartillaga um að íslenska ríkið eigi að fordæma aðgerðir Ísraels og ég legg til. Ég krefst þess fyrir hönd Palestínumann að þið farið heim og skrifið ÖLL bréf til þingmanna um að þið krefjist að þau styðji þessa tillögu. Að við náum öll að setja það mikinn þrýsting á Þingmenn að þeir standi með mannréttindum og gegn þjóðarmorðum. Að þingmenn kjósi með tillögu um tafarlaust vopnahlé! Öll saman, farið heim og skrifið. Í dag!

Ágætu fólk –  Palestína hefur barist fyrir réttindum sínum í meira en 75 ár. Palestína hefur þurft að búa við ofbeldi, hernám, arðrán og nýlendustefnu Ísraels í 75 ár. Palestínumenn hafa verið fangelsaðir og drepnir í yfir 75 ár og Palestínumenn eru ekki að gefast upp. Á meðan Palestínumenn gefast ekki upp þá gefumst við ekki upp. Á meðan Palestínumenn halda áfram að berjast þá höldum við áfram að berjast og á meðan Ísrael stundar þjóðernishreinsar og þjóðarmorð í Palestínu þá munum við halda áfram að berjast fyrir frjálsri Palestínu. Palestína skulda okkur ekki neitt, en við skuldum Palestínu allt sem í okkar valdi stendur til að berjast með þeim, hlið við hlið og dreifa boðskapnum um réttlátan frið og frjálsri Palestínu.

Takk fyrir

Ræða flutt á Stórfundi fyrir Palestínu í Hásólabíói 5. nóvember 2023

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí