Borgin verður af 500 milljónum á ári vegna skattalækkana til fyrirtækja

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 19. sep 2023

16% reykvískra barna í fjórða bekk fara svöng að sofa því það er ekki til matur heima.

739 manneskjur bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá borginni, bíða eftir því að komast í öruggara skjól frá okurleigumarkaðnum.

Enn fleiri bíða eftir öruggu húsnæði sem hentar þeirra þörfum sé litið til allra biðlista borgarinnar eftir húsnæði.

196 barnafjölskyldur í borginni bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði, á meðan þau greiða allt of hátt leiguverð eða búa inni á öðrum og þurfa að neita sér um aðrar grunnþarfir.

Hlutverk borgarinnar er að veita íbúum Reykjavíkur góða þjónustu með sem hagkvæmustum hætti og leggja grunn að auknum lífsgæðum borgarbúa til lengri og skemmri tíma.

Svengd barna, heimilisleysi og afkomuótti teljast ekki til lífsgæða. Slíkur efnahagslegur veruleiki er andstæðan við lífsgæði.

Eflum tekjustofna borgarinnar

Borgin hefur ákveðna tekjustofna sem eiga að standa undir þjónustuveitingu.  Útsvarið er veigamesti stofninn en þar er einnig að finna framlög úr jöfnunarsjóði, gjaldskrár fyrir veitta þjónustu og fasteignaskatta; annars vegar á íbúðarhúsnæði og hinsvegar á atvinnuhúsnæði.

Í dag ræðum við fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði, skattar sem fyrirtæki innan Reykjavíkur greiða fyrir aðstöðu sína í borgarlandinu. Mikil samfélagsumræða hefur átt sér stað um gjaldtöku á fyrirtæki og hér er rétt að taka fram að Sósíalistar telja mikilvægt að aðstöðugjöld verði aftur lögð á fyrirtæki. Aðstöðugjöldin taka meira tillit til veltu fyrirtækja og hafa sósíalistar kallað eftir þrepaskiptu aðstöðugjaldi á fyrirtækin. Þar myndu smærri fyrirtæki greiða minna en þau sem eru stöndugri. Ákvörðun um aðstöðugjöld fer þó ekki fram innan borgarstjórnar heldur á Alþingi og því verður hér einblínt á ákvarðanir sem borgarstjórn getur tekið í dag: Ákvörðun um að hækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði í borginni. 

Í kjölfar áhrifa kórónuveirufaraldursins á samfélagið, gripu borgaryfirvöld til ýmissa aðgerða sem voru kynntar í mars 2020. Ein af þeim var að flýta lækkun fasteignaskatta á atvinnhúsnæði sem átti að taka gildi síðar á kjörtímabilinu en tók þess í stað gildi árið 2021. Skattarnir höfðu lengi vel verið 1,65% af fasteignamati húss og lóðar en voru árið 2021 lækkaðir niður í 1,60%.  Ekki var búið að gera ráð fyrir kostnaðaráhrifum og hvernig ætti að fylla í gatið sem lækkaðar tekjur mynduðu. Vegna þessarar ákvörðunnar, lækkuðu tekjur borgarinnar um 470 milljónir árið 2021. Síðan þá hefur borgarsjóður orðið af um hálfum milljarði ár hvert vegna þessara skattalækkana.

Almenningur látinn greiða fyrir skattalækkanir til fyrirtækja

Slíkt bitnar á borgarbúum. Gjaldskrár á almenning eru hækkaðar, þjónusta er skert sérstaklega við börn og ungmenni og viðkvæma hópa. Rýrnandi tekjur leiða til niðurskurðar þar sem opnunartími unglingasmiðja fyrir börn í viðkvæmri stöðu styttist, félagsmiðstöðvar loka fyrr á tímum þar sem mikilvægt er að efla nærþjónustu við ungmenni í stað þess að skerða hana. Fjármagn til endurnýjunar tækja og áhalda í leik- og grunnskólum er skert. Spara á í matarþjónustu við börn með því að auka útvistun og þar með fá inn aðkeyptan mat sem er framleiddur fjarri þeim sem neyta hans. Allt í nafni hagræðingar og svokallaðrar hagkvæmni.

Sala eigna er fyrirhuguð sem og niðurlagning mikilvægrar stofnunnar, Borgarskjalasafnsins. Slíkt er talið bæta fjárhagsstöðu borgarinnar. Ljóst er að verið er að skerða þjónustu á sviðum sem mega alls ekki við því.  

Biðlistar eftir grunnþjónustu eru taldir eðlilegir, almenningssamgöngur eru að grotna niður á meðan að við stöndum frammi fyrir umhverfisvá af völdum hamfarahlýnunnar og börn eru rukkuð fyrir mat í skólum, þar sem það þykir of dýr aðgerð að leyfa börnum að borða yfir skóladaginn.

Skattalækkanir til fyrirtækja bitna á þeim sem síst geta greitt fyrir þær, skattalækkanir bitna á svöngum börnum. Skattalækkanir bitna á heimilislausum og þær bitna á þeim sem eru að reyna að komast í gegnum mánuðinn með of fáar krónur sem eiga að deilast niður á alla þá daga mánaðarins sem eru eftir.

Það er hlutverk borgarstjórnar að leggja grunn að auknum lífsgæðum og í því samhengi þarf að ræða tekjustofna og hvernig eigi að beita þeim. Sósíalistar lögðu fram tillögu þess efnis að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði yrðu aftur 1,65% af fasteignamati, það hlutfall sem átti við áður en covid skall á. Það er að segja hækkun um 0,05%.

Tillagan var felld.

Hér má sjá tillöguna og meðfylgjandi greinargerð í heild sinni: https://reykjavik.is/sites/default/files/2023-09/tillaga_j_fasteignaskattar.pdf

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí