Í Heimsstyrjöldinni fyrri féllu eða særðust tæplega fjörutíu milljónir þeirra 65 milljóna sem kvaddar höfðu verið til vopna. Þegar reynt er að grafast fyrir um þessar tölur kemur á daginn að þær eru fjarri því að vera nákvæmar. Hvernig ætti annað að vera þegar skotið er og sprengt án afláts árum saman til að eyðileggja sem mest og drepa sem flesta. Hætt er við því að gögn um þá sem verða fyrir sprengjunum eða undir rústum bygginga verði lítið annað en ágiskanir. Síðan er það hungur og sjúkdómar sem herja á bjargarlaust fólkið og fella það milljónum saman.
Í Heimsstyrjöldinni fyrri varð mannfallið mest í skotgrafarhernaði. Hermönnum var skipað ofaní firnalanga skurði við víglínuna, upp úr þessum skotgröfum skriðu þeir síðan öðru hvoru samkvæmt skipunum til að ráðast á hinn hataða óvin og reyna að drepa hann. Þessi „hann“ sem átti að drepa, þessi óvinur, var náttúrlega ungi maðurinn og drengurinn handan víglínunnar. Sama regla gilti að sjálfsögðu beggja vegna hennar. Þegar árás var fyrirskipuð varð mannfallið. Milljónir létu þannig lífið! Ég get mér þess til að þá hafi orðið til hugtakið byssufóður. Kannski var það orðið til löngu áður því ekki var það nýtt af nálinni að valdastéttir létu hina undirokuðu deyja fyrir sína hönd.
Þeir sem stjórnuðu þessum árásum og gagnárásum fengu gjarnan medalíu þegar vel tókst til og margir voru drepnir en vel að merkja hinir föllnu voru yfirleitt í því liði sem skipað var að gera áhlaup hverju sinni. Einhverjir hinna föllnu munu líka hafa hlotið viðurkeninngu fyrir þann hetjuskap að deyja með þessum hætti. Ég þykist vita að flestir hinna dánu hafi þó þurft að bíða þess að safnast væri saman við gröf hins óþekkta hermanns til að mæra ómetanlegt framlag í þágu „okkar allra.“
Nú berast þær fréttir að í Úkraínu sé hernaðurinn að þróast í þessa átt – í skotgrafarhernað. Og ekki stendur á viðbrögðum þeirra sem vilja færa þennan hrylling sér í nyt. Við lesum í blöðum að nú standi til að framleiða enn afkastameiri morðtól og enn fleiri skotfæri svo hægt verði að drepa enn fleiri unga menn og drengi í hermannabúningum.
Eins og fyrri daginn eru hinir seku bak víglínunnar og flestir í órafjarlægð en mæta næst þegar setja á krans á leiði hins óþekkta hermanns. Þetta eru hinir eiginlegu böðlar.
Hvenær á að láta staðar numið? Hvenær verða böðlarnir stöðvaðir? Hvenær kemur sú tíð að vopnaframleiðendur og þeir sem þeir þjóna hætti að stjórna heiminum?
Sú tíð kemur þegar við viljum að hún komi. Þegar við viljum það nógu mörg; þegar við verðum nógu mörg sem krefjumst þess að vopnin verði kvödd: Á Gaza, í Úkraínu, í Kúrdistan, í Jemen, í Sýrlandi, í Indónesíu, á Sachel svæði Afríku þar sem nýlenduveldin gömlu eru enn að, blóðug og ofbeldisfull …