Geta hundrað þúsund bjargað einni konu?

Skoðun Þóra Kristín Ásgeirsdóttir 2. nóv 2023

Hundrað þúsund konur söfnuðust saman á Arnarhóli til að sýna samstöðu með baráttu fyrir kvenfrelsi og gegn kynbundnu ofbeldi. Dómsmálaráðherra var meðal þeirra kvenna sem mættu á fundinn.

Nokkrum dögum seinna er hafinn undirbúningur þess að nauðungarflytja úr landi einstæða móður frá Palestínu með átta börn, þar af 6 undir lögaldri, 2 þeirra veik.

Þetta er gert meðan Ísraelsmenn halda uppi linnulausum árásum á Gaza og önnur skotmörk þar sem þeir telja að hamasliða sé að finna. 8.796 Palestínumenn hafa látið lífið. Þar af 3500 börn, á þriðja tug þúsunda eru særð.

Um 400 börn eru myrt á hverjum degi til að hefna fyrir hryðjuverk Hamas gegn Ísrael. Íslenska ríkisstjórnin treysti sér ekki til að styðja ályktun SÞ um vopnahlé vegna þess að ekki var fordæmd hryðjuverkaárás Hamas á Ísraelska borgara, árás sem hefur margsinnis verið fordæmd.

Utanríkisráðherrann verður sér til skammar á blaðamannafundi utanríkisráðherra Norðurlanda með því að snupra fréttamann fyrir að tala um árásir á flóttamannabúðir sem ísraelar hafa þó viðurkennt.

Við erum þjóð sem viðurkenndi sjálfstæði Palestínu fyrir 12 árum síðan. Við treystum okkur ekki til að leggja til hlé á morðárásum á börn á Gaza vegna deilu um orðalag.

Við erum örþjóð þar sem hundrað þúsund konur mótmæla í miðborginni kynbundnu ofbeldi gegn konum. Við getum samt ekki bjargað þessari einu hjálparlausu konu. Það er næstum því eins og það sé okkur til háðungar að brottflutning hennar ber upp á þessum tíma og dómsmálaráðherrann af Arnarhóli heldur um alla þræði.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí