Lyfjagjöf er eina leiðin fyrir þetta fólk til þess að fúnkera

Þetta bréf lýsir ýmsum skaðlegum viðhorfum, eins og skrif Óttars Guðmundssonar gera gjarnan. Mér finnst eftirfarandi tilvitnun samt áhugaverð vegna þess að hann virðist vera mjög nærri því að fatta svolítið án þess að komast alla leið að niðurstöðunni:

„En er þetta kannski í himnalagi? Er til bóta fyrir íslenskt samfélag að hluti þegnanna sé alltaf upptjúnaður á amfetamíni? Munu hjól atvinnulífsins snúast hraðar? Hagvöxturinn aukast í takt við amfetamínneysluna? Mun ganga betur að skutla og sækja með smáörvandi í blóðinu?“

Mig grunar að hraðinn í nútímasamfélagi, og það magn áreita sem við sitjum undir í daglegu lífi, margfalt á við það sem mannfólk þurfti að þola fyrir einungis nokkrum áratugum, geri það að verkum að fólk með ADHD sem hefði vel geta verið lyfjalaust áður fyrr, á erfitt með að lifa með einkennum sínum í dag.

Á sama tíma er þjóðfélagið miskunnarlaust gagnvart þeim einstaklingum sem fúnkera illa eða alls ekki, og lyfjagjöf er því það bjargráð sem stendur ADHD fólki til boða.

Ég held það sé alls ekki af hinu illa að við spyrjum okkur hvort hluti af lyfjaþörfinni í samfélaginu geti skýrst af samfélagsgerðinni, og hvort samfélagið stefni hugsanlega í ranga átt ef sú er raunin. Við verðum hins vegar að skilja að ef niðurstaðan er sú að samfélagslegar breytingar hafi raunverulega leitt af sér aukna lyfjaþörf, þýðir það ekki að fólkið, sem er á lyfjum, þurfi ekki á þeim að halda í alvörunni. Það sem það þýðir er að við höfum búið til aðstæður þar sem lyfjagjöf er eina leiðin fyrir þetta fólk til þess að fúnkera.

Til gamans má geta að þennan pistil hefði ég aldrei getað skrifað nema vegna þess að ég tók Elvanse® 50mg í morgun.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí