Sagan sem ekki má segja – VG er gjaldþrota

Skoðun Teitur Atlason 8. mar 2023

Ein merkilegasta samtalsbók sem komið hefur út á síðari tímum er bókin “Sagan sem ekki mátti segja” eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur.  Í bókinni er rætt við Björn Sv. Björnsson sem var sonur fyrsta forseta Íslands og SS-foringi í nasistaher Hitlers. Bókin greip mig frá fyrstu blaðsíðu og ég hugsa oft til örlgaga Björns Sv. Björnssonar sem tók allar vitlausu beygjurnar á miklum örlgaga tímum. Mér er sérstaklega minnistæður lokakaflinn þar sem Björn segist sjá eftir þessari breytni sinni og að hann hefði átt að hlusta betur á alla vini sína sem allir með tölu vöruðu hann við að leggja Hitler og hyskinu í kringum hann, lið sitt og æru.  Björn Sv. Björnsson langaði frekar að vera í svörtum SS búningi og finna fyrir valdinu og óttanum sem honum fylgdi frekar en að gera það sem er rétt og eðiilegt.

Það eru reyndar fleiri sögur sem ekki má segja heldur en þessi sem sögð var árið 1989.  Núna má ekki sagja frá innihaldi skýrslu sem greinir frá því hvað varð um eigur ríkisins sem urðu til í efhahagshruninu. Skýrslan sem ekki má sýna gerir grein fyrir hvað var selt og hverjir keyptu. Margir gætu hugsað sem svo að þetta væri nú varla ríkisleyndarmál en sú virðist vera raunin.  Eitthvað er í þessari skýrslu sem þolir ekki dagsins ljós.  Það sem er sorglegt í þessu samhengi er að VG hefur slegið sjaldborg um þessar upplýsingar og hindað að þær komi fyrir augu almennings.  Nokkuð sem er á skjön við flokk sem segist vera “róttækur vinstri flokkur”.  VG hefur því miður tekið allar vitlausu beygjurnar í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og alveg ljóst hvað varðar pólitíska refskák, er Bjarni Benediktsson heimsmeistari. Hann fær öllu sínu fram, í staðinn fyrir að gefa eftir fínasta ráðherrastólinn.  Þetta er sannkölluð draumastaða Sjálfstæðisflokksins.  “Teflon maðurinn” er ljósárum á undan öllum íslenskum stjórnmálamönnum þegar kemur að klókindum.

En það er því miður ekki bara þessi eindregni samhljómur við Sjálfstæðisflokkinn sem gerir VG að því viðundri sem flokkurinn er.  Það er fleira.  Einn þingmaður VG kvartaði sáran yfir lélegum kjörum fyrir nokkru og sagði útilokað að greiða af húsi númer tvö sem fjölskyldan ætti í Reykjavík.  Þess má geta að umræddur þingmaður er einn hæst launaðasti þingmaður þjóðarinnar (en á samt í erfiðleikum með að láta “enda ná saman”).

Þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson var umhverfisráðherra pressaði hann stíft á að minnka plastnotkun í iðnaði.  Matvælafyrirtækin svöruðu kallinu með því að skipta út plaströrum á litlum fernum og kynna til sögunar pappaskeiðar í stað plastskeiðanna sem fylgdu skyr-dollunum.  Þetta fór í taugarnar á mörgum en telja má víst að flestir hafi metið það svo að ávinningurinn af þessum skiptum væri meiri en kostnaðurinn við plastruslið.  Það var þó einn atvinnugeiri sem slapp alveg við átak ráðherra í plastmengunar málum. Það var að sjálfsögðu útgerðin en frá henni er langsamlega mest plastmengun borið saman við aðra atvinnugeira á Íslandi.  Eitt plastker sem fer í sjóinn vegur 86 kíló.  Það er sennilega vikuskammtur af rörum og skeiðum sem matvælabransinn notar.  Netarusl og veiðarfæri hverksonar eru meira og minna úr plasti og maður getur bara ímyndað sér hvað slík verkfæri menga mikið lífríkið við Ísland.  Guðmundur Ingi Guðbrandsson ákvað að líta framhjá mengun sjávarútvegsins.  Í ensku er þetta kallað “low hanging fruit” og þýðir að taka bara það fyrir hendi er næst.  Til að bæta gráu ofa á svart þá kom á dögunum tillaga frá einhverri samráðsnefnd um framtíðarfyrirkomulag auðlyndamála að sjávarútvegurinn gæti sótt fé í ríkissjóð til að hreinsa upp draslið sem bransinn hendir í sjóinn.

VG er langt frá því að vera “róttækur, þjóðlegur, femínískur flokkur”. VG er samverkaflokkur Sjálfstæðisflokksins.  Það hefur eitthvað gleymst á leiðinni í vegferðinni með Sjálfstæðisflokknum.  Það voru reyndar allir búnir að vara við þessu, en eins og með Svein Sv. Björnsson þá lagði Katrín Jakobsdóttir ekki við hlustir.  Það var reyndar undarleg röksemdafærsla sem sást eftir að til stjórnarsamstarfsins var brallað því áhrifamanneskja í VG sagði eitthvað að þá leið að samstarfið við Sjálfstæðisflokinn væri ekki síst til þess að vondir hlutir gerist ekki (!) Þetta er undarlegur snúningur og tóm þvæla ef grannt er skoðað.  Enginn stofnar til sambands við einhver til þess að vondir hlutir gerist ekki. 

Það sem VG hefur gert er þó ýmislegt.  Það var farið í miklar hækkanir á opinberum gjöldum í miðju verðbólgukasti sem vitað var að myndi auka verðbólguna.  Það var farið í miklar samningaviðræður við alþjóðakerfi til þess að flugvélarnar sem koma til Íslands þurfi ekki að borga kolefnisskatt.  Og jú.  Svo var það auðvitað skjaldborgin um Lindarhvolsskýrsluna sem þingmenn VG stoppuðu af.  Í krafti meirihluta en í trássi við lög og rétt. 

VG heldur í vonina um að vera róttækur flokkur með tveimur málum.  Lengja fæðingaroflof (í fjórða skiptið eftir því sem ég man rétt)  og styrkja Samtökin 78 (í þriðja skiptið á árinu)  Þessi tvö atriði eru ágæt hvort um sig en hvorug eru dæmi um róttækni. Svo var það námskeiðið sem á að skikka alla opinbera starfssmenn á.  Námskeið um hatursorðærðu.  Ég er opinber starfsmaður og skal glaður mæta á þetta námseið en bara með því fororði að þingmenn og ráðherrar mæti á námskeið um pólitíska spillingu.  

Þessi upptalning eru ágætis sýnishorn um hugmyndafræðilegt gjaldþrot VG.

Nýlega heyrði ég forsætisráðherra tjá sig um miklvægi þess að viðhalda “stafrænu fullveldi Íslands”.  Þetta er alveg í anda VG þar sem einhverskonar þjóðernis-fullveldis-sjálfstæði grunnur er andlag stefnunnar.  Með góðum ásetning má segja að VG sé að sönnu þjóðlegur vinstri flokkur. En þá bara í því ljósi að viðhald óréttlætisins og misskipting gæðanna sé þjóðleg og þar af leiðandi æskileg.

VG er gjaldþrota sjórnmálaflokkur.  

VG hefur að sönnu hækkað fjármagnstekjuskatt, en það var flöt hækkun og fer jafnt yfir alla. Miljónamæringa sem og fólk sem leigir út herbergi í húsinu sínu.  Þetta er einni dæmi um stefnulegt gjaldþrot. Hvernig væir að hækka fjármagnstekjuskatt á tekjur umfram eitthvað ákveðið?  Hvernig væri að bæta við nokkrum skattþrepum og lækka skatta á tekjulægstu tíundirnar? Hvernig væri að skikka útgerðina til þess að týna upp sitt eigið rusl?  Hvernig væri að byggja helling af félagslegu húsnæði út um allt land?  Hvernig væri að lækka skatta á rafmagnsbíla en ekki hækka þá? (eins og ríkisstjórnin gerði með velþóknun VG).  Hvernig væri að létta byrðunum af þeim lægst launuðustu og færa þær yfir á þau sem allt eiga (og allt mega).  VG lofaði leiguþaki fyrir síðustu kosningar. Aldrei er minnst á það lengur enda er slíkt talið heftandi fyrir hinn frjálsa (og alvitra) markað.

Það er bara ein leið til að vekja VG upp úr doðanum.  Það er að hætta að ljá þeim atkvæði í kosningum.  Það er mikil gróska í vinstri pólitík á Íslandi og Samfylkingin á fleygi ferð. Sósíalistaflokkurinn er sömuleiðis að standa sig vel.  Ég er hluti af Rósinni sem er landsmálafélag Samfylkingarinnar. Við erum róttækt vinstri afl. Ekki stjórntækt vinstri afl.  Við erum stór og við ætlum okkur stóra hluti. Við höfum áhrif og við ætlum að beita þeim.  Ef fólk hættir að kjósa VG, fækkar samverkaflokkum Sjálfstæðisflokksins um einn.  Það er ekki svo lítið.

Eitt af þeim málum sem Rósin ætlar að berjast fyrir þegar Samfylkingin kemst í aðstöðu til, er að  birta Lindarhvolfsskýrsluna fyrir þjóðinni, enda kemur innihald hennar okkur við.  Það er því bara tímaspursmál hvenær þessi skýrsla verður opinberuð.  VG getur barist við hlið Sjálfstæðisflokksins þar til þeim þrýtur þor en Lindarhvolsskýrslan verður birt.

Lindarhvolsskýrslan verður birt.

Höfundur er stjórnarmaður í Rósinni – Landsmálafélagi Samfylkingarinnar

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí