„Ég var búinn að gleyma hversu reiður ég var“

Skoðun Guðröður Atli Jónsson 10. mar 2023

Eftir viðtalið hér á Samstöðunni skoðaði ég gamalt blogg sem ég skrifaði eftir aðgerðina í Gautaborg 2007. Athygli mína vekur hversu reiður ég var. Ég var búinn að gleyma hversu reiður ég var. Það koma líka fram atriði sem ekki voru í viðtalinu. Nákvæmni í frásögn er líka meiri.

Fyrsta málsgreinin er líkingamál, svona eins og sjómenn myndu tala um veðrið. Á að lýsa mínum innri hugsunum og hvers vegna ég leitaði ekki til læknis fyrr á þessum tíma. Síðan kemur annað líkingamál, þar líki ég hugsunum mínum við bilanagreiningartölvu.

Bloggfærsla 01. júlí 2007

Þetta er búin að vera löng sigling sem byrjaði með ómerkilegri bliku sem virtist vera hversdagsleg bræla, bara kaldi skítur sem gengur yfir. Þetta byrjaði allt árið 2003 í janúar. Ég var alltaf þreyttur og þyrstur, hver vinnudagur varð erfiðari og þyngri. Sjálfskoðun framkvæmt. Vinnsla …. Niðurstaða er tilbúin. Hættu að væla, það er ekkert að þér. Annað en sjálfsvorkun agaleysi.

Aðgerðaráætlun:  Farðu að hreyfa þig. Hugsaðu jákvætt og einbeittu þér að því að vinna. Mánuðir liðu en byrðin var þyngri með hverjum degi. Þreytan og orkuleysið var orðið óbærilegt en ég reyndi samt að halda haus jafnvel þó að ég stæði undir krananum hvern dag. Þorstinn var óbærilegur. En niðurstaðan var sú sama, aumingjaskapur og leti.

Áhætta er skrýtið hugtak, í raun og veru er lífið áhætta, en þegar þú tekur meðvitaða ákvörðun er það miklu ógnvænlegra heldur en ómeðvituð gjörð. Ég var að undirbúa föstudagstörn á Domino’s, og var farin að fá sjóntruflanir og líða virkilega illa, hélt engum mat niðri og var almennt mjög slappur, þannig að ég ákvað að fara á læknavaktina í Spönginni. Ég talaði þar við lækni sem var á læknavakt. Hann hélt í byrjun að þetta væri bara flensa eða því um líkt en  ekkert alvarlegt. Ég bað samt um að ég yrði sendur í blóðrannsókn og hann jánkaði því bara svona til þess að losna við mig að ég held. Yfir helgina tók ég mínar vaktir og reyndi að þrauka þær. Ég átti að mæta í blóðprufu á mánudeginum en ég svaf yfir mig, ég var svo þreyttur, en ég mætti í blóðprufu í Mjóddinni á þriðjudeginum.

Næstu dagana þegar ég var að bíða eftir niðurstöðum frá blóðprufunum, leið mér mjög illa, ég var stöðugt þyrstur, drakk örugglega 10 lítra á dag, var alltaf á klósettinu og mjög þreyttur, einnig höfðu sjóntruflanirnar aukist sem stafaði af of háum blóðsykri. Ég hef oft hugsað ef ég hefði ekki beðið lækninn um blóðprufurnar hvort ég hefði ekki bara drepist einhvers staðar. Ég man að það hafði nýlega liðið yfir mig inni á baði þar sem ég fékk flog, það var mjög skrítin tilfinning.

Ég man ekki nákvæmlega hvenær það var en þegar læknirinn hringdi í mig sagði hann við mig að ég þyrfti eiginlega að gefa mig fram á bráðamóttökunni og spurði hvort ég gæti komið í Spöngina og náð í læknabréf fyrst, sem ég gerði. Þeir byrjuðu á því að ballensera blóðsykurinn hjá mér með insúlínsprautum og eftir það var ég tvær vikur inn á gjörgæslu sem var mjög leiðinlegt. Enginn svefnfriður, stöðugt verið að taka prufur og ég var tengdur við öll hugsanleg tæki sem til voru og það tók svolítið langan tíma að finna út hvað væri að í mínu tilviki.

Gunnar hélt fyrst að ég væri með sykursýki eitt. Síðan var ég sendur heim, bara með insúlínsprautur og sykurmæli og var látinn ballensera sjálfur eins og ég væri sykursjúkur. Einnig var mjög gaman að hitta allar hjúkrunarkonurnar sem komu með þessa heilsuræðu um hollt mataræði og að þetta væri allt mér að kenna sem í raun og veru í mínu tilfelli var EKKI. Ég hitti Garðar skurðlækni 4. ágúst og þá sýndi hann mér myndir af æxlinu, það var mjög stórt að hans sögn, það var eitthvað um 4 sentimetrar að minnsta kosti. Það var talsvert mikið sjokk að sjá þessa mynd, þetta var svona raunveruleikasjokk.

8. ágúst 2003 fór ég í aðgerðina. Það er mjög kuldaleg tilfinning að láta svæfa sig, sérstaklega þegar maður fer í svona áhættusama aðgerð. Maður er látinn taka einhverjar pillur, svona kæruleysispillur, svo er sett á mann gríma og maður svæfður. Mér var haldið sofandi í 5 klukkustundir. Þegar ég vaknaði upp var hálsinn fullur af blóði og slími, ég var mjög lengi að hósta öllu ógeðinu upp úr mér, einnig var ég með mikinn hausverk og fékk ég morfínkokteil við því. Tveimur dögum síðar var ég útskrifaður að mig minnir og fékk vottorð upp á 4 vikna leyfi frá vinnu. Í þessu veikindaleyfi mínu minnir mig að ég hafi farið eitthvað vestur með pabba. Þá upptvötaði ég mér til mikillar lukku að ég þyrfti ekki á insúlínsprautunum að halda, æxlið hafði minnkað það mikið að blóðsykurinn var kominn í jafnvægi.

Þannig að Gunnar hafði rangt fyrir sér að ég væri með sykursýki 1 sem betur fer. Síðan eftir þetta veikindaleyfi byrjaði ég að vinna aftur, byrjaði meira að segja með nýja verslun og nýtt starfsfólk. Fólk verður að skilja að vinnan var mér mikils virði. Ég fann strax að ég var alls ekki með fulla heilsu, mér fannst ég bara versna með hverjum mánuðinum. Eftir um sex mánuði ráðlagði Gunnar mér að fara í aðgerð. Mig minnir að það hafi verið í febrúar 2004. Það var nokkuð merkilegt að Garðar reyndi að tala mig ofan af því að fara í þessa aðgerð. Það var greinilegt að sérfræðingarnir voru ekki sammála um það sem ætti að gera. Eftir á að hugsa skil ég ekki af hverju ég var ekki sendur eitthvað annað, til Bandaríkjanna eða Svíþjóðar í aðgerð. Þessi aðgerð skilaði nákvæmlega ekki neinu að sögn Garðars. Hann hafi aðeins náð viðgerðarvef, hann setti fitu í staðinn svo að hún sæist sem svart á röntgenmyndunum.

Nú jæja, fyrst að seinni aðgerðin hafði ekki skilað neinum árangri og Garðar ráðlagði ekki fleiri skurðaðgerðir, þá hafði Gunnar ákveðið að reyna að ráða við vaxtarhormónið með lyfjum, Sandostatin og Dostinex. Sú meðferð minnir mig á að hafi byrjað 1. janúar 2005 eftir að Gunnar var búinn að sjá samkvæmt blóðprufunum að það var greinilega ekkert að koma út úr seinni aðgerðinni.

Jæja, þá var það eina sem hægt var að gera var að fylgjast með. Ég var sendur reglulega í röntgen- og blóðrannsókn. Einnig fór ég í lyfjagjöf einu sinni í mánuði á Landspítalanum. Ég var alltaf í fullri vinnu á meðan á þessu stóð, þá er ég að tala um meira en fulla vinnu. En það kom að því að eitthvað gaf eftir, ég hreinlega hafði ekki meira úthald. Í júlí 2005 eftir sumarfrí var ég hreinlega að niðurlútum kominn. Ég var orðinn 170 kg. Ég var bæði orðinn mjög þunglyndur og kvíðinn, gat ekki fest svefn og hreinlega réði ekki við vinnuna lengur. Ég reyndi að hafa samband við þessa snillinga á Landspítalanum, þessa innkirtlasérfræðinga en fékk frekar köld svör þaðan og lítinn skilning.

Þið verðið að skilja, að sjálfsögðu gat ég ekki sýnt nein veikleikamerki í vinnunni, því þá yrði mér sagt upp, ég yrði að komast úr vinnunni með vottorði. Ég fékk þetta vottorð frá heimilislækni í spöngina sem sýndi mér skilning á þessu. Hann skrifaði læknabréf til innkirtlasérfræðings á Landspítalanum sem lagði mig inn í viku, hann var meira en lítið dónalegur við mig. Hann var bara með hortug heit og skæting. Hann var eitthvað rosalega reiður út af einhverju sem ég skildi ekki, ég held að ég hafi verið að trufla hann í sumarfríinu eða eitthvað þvíumlíkt. Hann sagði að ég væri bara þunglyndur og með kvíða, en hann sá á blóðprufunum líka að testósterónið var alltof lágt. Ég hef oft hugsað síðan að djöfull vildi ég að eitthvað af þessum mönnum væri með þennan sjúkdóm.

Eftir það var ég sendur heim, ég var heima í um fjórar vikur og komst svo loks inn á Reykjalund í endurhæfingu. Ég var nokkuð bjartsýnn á það myndi ganga vel til að byrja með, en í raun og veru batnaði mitt ástand ekki neitt, þótt ég hafi stundað þessar æfingar. Ég var á Reykjalundi alveg næstu mánuði til apríl 2006 að mig minnir.

Sú endurhæfing skilaði mér ekki miklu, nema því að mér leið aðeins betur andlega. En vonleysið var samt algjört, ég sá ekkert spennandi við lífið, í raun og veru var lífið fyrir mér búið, ég vonaði að ég dræpist sem fyrst.

En jæja, ég lét mánuðina líða, var með aðstoð frá borginni, heimilishjálp. Það breytti svo sem ekki miklu. Það er svo skrítið að þegar lífsneistinn er horfinn, þá er erfitt að kveikja hann aftur. Líkamlegt ástand mitt var orðið verra en nokkru sinni fyrr. Ég þurfti ekki annað en að fara fram úr, fá mér vatn eða vera í tölvunni eða í Ljósinu, þá var ég í stöðugum svitakofum.

Mánuðirnir liðu í þessari rútínu, ég tók að mér tölvuviðgerðir fyrir vini og ættingja og aðra, ég gerði ekkert annað nema að spila EVE Online, mér fannst það alveg nóg.

Árið 2007 í byrjun árs var Gunnar byrjaður að tala um aðgerð í Gautaborg. Ég var frekar vantrúaður á það, þar sem fyrri aðgerð hafði ekki gert neitt. En það varð greinilega að gera eitthvað. Gildi vaxtarhormónsins var það sama eftir aðgerðina 2004 og æxlið hafði ekkert minnkað. Svo var þriðja aðgerðin gerð hér í Gautaborg. Svo vitið þið allt um þessa aðgerð sem var hérna 28. júní 2007. Ég er að reyna að líta björtum augum á framtíðina, það er samt mjög erfitt. Ég byrja sennilega í námi í Iðnskólanum næsta haust eða næstu vorönn, við sjáum bara til hvernig það gengur.

Mér líður eins og ég eigi ekki tilverurétt. Ég er einskis nýtur í samfélaginu, en þannig líður mér bara. Í raun og veru er ég byrjaður að hata þetta samfélag sem byggir meira og meira á efnishyggju, en ekki gildum eins og heiðarleika, nágungakærleik eða samstöðu í stað samkeppni. Við þurfum bara að horfa á kirkju nútímans fjölmiðla, þar er talað um hagnað, kaup, sölu og gengi. Það er eins og þú sért ekkert nema þú eigir eitthvað hlutabréfum.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí