Suður Afríka hefur lagt fram kæru gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum sem sakar Ísrael um þjóðarmorð og ásetningu um tilraun til þjóðarmorðs á Palestínumönnum á Gasaströndinni. Kæran er samtals 84 blaðsíður og fer í smáatriðum yfir hundruð atvik og færir sannanir fyrir því að ísraelskir ráðamenn hafi hvatt til þjóðarmorðs og gerst sekir um þjóðarmorð í árásunum á Gasaströndina.
Árásir Ísraelshers eru bornar saman við önnur átök en mannúðarkrísan sem hefur skapast á Gasaströndinni er fordæmalaus. Það líður heldur ekki sá dagur í Ísrael þar sem fréttamenn, stjórnmálamenn, opinberir starfsmenn, álitsgjafar, hermenn eða almennir borgarar hvetja ekki til þjóðarmorðs á Palestínumönnum. Fyrir utan þjóðarmorðsyfirlýsingar á hæstu stöðum þá hafa ísraelskir hermenn verið iðnir á TikTok að senda frá sér efni sem styður við efni kærunnar. Sameinuðu Þjóðirnar, Alþjóðlegi Rauði Krossinn og helstu mannréttindasamtök heims hafa auk þess öll varað við þjóðarmorði í Palestínu. Ég ætla ekki að telja upp ákæruatriðin hér en ég hvet fólk til að lesa kæruna. Þetta er óhugnanleg lesning.
Niðurstaða Alþjóðadómstólsins væri bindandi. Áhrifin geta því verið talsverð, ekki bara fyrir Ísrael heldur fyrir öll ríki heims, sér í lagi þau sem styðja við Ísrael hernaðarlega en þar eru fremst í flokki Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Ítalía. Endanleg niðurstaða gæti tekið einhver ár en í málum þar sem nægar sannanir liggja fyrir hefur dómstóllinn tæki til að grípa inn í strax. Slíkur úrskurður myndi skuldbinda Ísrael til að láta af hernaðaraðgerðum sem stuðla að þjóðarmorði strax og draga fólk til ábyrgðar sem hefur hvatt til eða átt þátt í að fremja þjóðarmorð. Ísrael og Bandaríkin vísa kærunni á bug en sérfræðingar eru sammála um að bæði ríkin hafa miklar áhyggjur af framhaldinu. Einstaka opinberir starfsmenn í Bandaríkjunum gætu til dæmis átt yfir höfði sér ákærur fyrir hernaðarlegan stuðning við Ísrael, sér í lagi þar sem ríkisstjórnin hefur farið fram hjá öllum venjulegum verkferlum sem eiga að koma í veg fyrir að vopn séu seld eða gefin til ríkja sem fremja stríðsglæpi eða þjóðarmorð.
En þetta kemur Íslandi líka við. Alþjóðalög um þjóðarmorð virka þannig að þau ríki sem hafa skrifað undir samninginn bera sameiginlega ábyrgð til að stoppa þjóðarmorð hvort sem ríkin eru aðilar í átökunum eða ekki. Um leið og ríki verða meðvituð um mögulegt þjóðarmorð þá ber þeim lagaleg skylda sem er bindandi í þjóðarrétti að grípa til aðgerða sem eru þá fyrirbyggjandi. Það er í raun nóg að sýna fram á ásetning þó að kæra Suður Afríku gangi mikið lengra enda telja helstu sérfræðingar heims að það sé óvenjulega mikið til af handbærum sönnunum sem sýna ekki bara ásetning heldur tilraun til þjóðarmorðs.
Þegar Rússland réðst inn í Úkraínu fór Úkraína strax með málið fyrir Alþjóðadómstólinn. Rússar hafa ekki orðið við úrskurði réttarins en í kjölfarið fylgdu umsvifamiklar viðskiptaþvinganir og allskyns aðgerðir bæði innan Sameinuðu Þjóðanna, Evrópuráðsins og hjá einstökum ríkjum til að refsa Rússlandi. Í máli Ísraels sáum við hins vegar vestræna leiðtoga gefa Ísrael ótvíræðan stuðning við aðgerðir þeirra á Gasaströndinni, þar á meðal Ísland. Bandaríkin virðast tilbúin til að fórna öllum þeim stofnunum sem settar voru á fót eftir Seinni Heimsstyrjöld sem áttu að tryggja heimsfrið og grundvallast á mannréttindum og réttarríkinu til þess eins að styðja við Ísrael í þessari skelfilegu vegferð.
Lög um þjóðarmorð eru mun alvarlegri en ásakanir Úkraínu gegn Rússum vegna þess að lögin gera öll aðildarríkin ábyrg um að aðhafast tafarlaust til að koma í veg fyrir þjóðarmorð. Ísland að mínu mati gerði stórkostleg mistök þegar landið kaus gegn mannúðarvopnahléi á Gasaströndinni í fyrstu tilraun á Allsherjarþinginu í október. Mótmæli almennings á Íslandi tel ég að hafi haft töluvert að segja þegar Ísland snéri við blaðinu og kaus með mannúðarvopnahléi í seinni tilraun síðastliðinn desember, en kosningin og einstaka tíst ráðherra á samfélagsmiðlum er alls ekki nóg. Okkur ber skylda að aðhafast.
Suður Afríka þorði að ríða á vaðið. Ljóst er að fjöldi ríkja mun flykkja sér á bak við þessa kæru. Ég myndi eindregið hvetja íslensk stjórnvöld til að standa með Suður Afríku. Við höfum viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki og okkur ber skylda að stoppa þjóðarmorð gegn Palestínumönnum. Íslendingar höfnuðu gyðingum sem leituðu til Íslands á flótta undan þjóðarmorði Hitlers. Þetta er svartur blettur á okkar sögu. Ætlum við að endurtaka söguna og fórna Palestínumönnum fyrir Netanyahu og þægilegt stjórnmálasamband við Bandaríkin eða ætlum við að taka þátt í því að koma í veg fyrir þjóðarmorð?