Vannýttir tekjustofnar allt í kringum okkur

Skoðun Sanna Magdalena Mörtudóttir 15. apr 2025

Endrum og eins velti ég því fyrir mér hvernig hugsunarhátturinn væri ef ég aðhylltist hugmyndafræðilega stefnu hægrisins. Ég myndi sennilega skammast yfir því að hið opinbera dirfist til að reyna að gera eitthvað í húsnæðismálum með því að styðja við óhagnaðardrifna húsnæðisuppbyggingu. Undrun mín staldrar ekki þar og beini ég sjónum næst að því félagslega sem ég myndi líklega sjá sem hindrun sem dragi úr getu fólks til að hjálpa sér sjálft úr ömurlegum aðstæðum. Svo myndi ég sennilega hneykslast á bókasöfnum. 

Hvílík hneisa er það að niðurgreiða bækur til þeirra sem þurfa ekkert á því að halda. Af hverju er opinbert fjármagn að fara í svona ölmusu? Og hvað kennir þetta fátækum?! Ekkert læra þeir um virði hlutanna með nánast óheftu aðgengi að bókum til útláns fyrir eingöngu 3.200 krónur á ári. „Ættum við ekki að kenna fólki að vera duglegra að spara svo það geti sjálft keypt sér bækur, af hverju er hið opinbera að skipta sér af þessu?“ myndi hægri manneskjan kannski segja og velta því fyrir sér hvort ekki væri um að ræða ósjálfbæran rekstur. 

Fjárhagslegt virði væru gleraugun sem kæmu mér í gegnum lífið, sem hjálpuðu mér að  sjá og greina heiminn. Skyndilega fer ég að sjá vannýtta tekjustofna allt í kringum mig: Hólf leikskólabarna þar sem þau geyma útifötin sín og annað yfir daginn, af hverju er ekki verið að rukka fyrir þetta geymslupláss? Af hverju er ekki gjald tekið fyrir rútuferðir grunnskólabarna sem þarf að ferja í sundkennslu. Þetta kostar allt, einhver þarf nú að greiða fyrir þetta allt saman. 

Hægri manneskjan ég sæi sennilega ekkert athugavert við það að á sama tíma sé vellauðugt fólk ekki að greiða af fjármagnstekjum sínum til nærsamfélagsins. Eitthvað hljóta þeir að hafa gert rétt og vel til að eiga skilið að vera laus við opinber afskipti af sínum tekjum. Var ekki  skattur líka þjófnaður í okkar bókum? Það væri bara skrýtið að rukka duglegasta fólkið um útsvar sem þó treystir á leik- og grunnskólana, vegina, sorphirðuna og sækir listasöfnin. 

Svo væri för minni heitið í sund í heita pottinn til að slaka á eftir alla þessa hneykslun og undrun. Sundið er mikilvægur liður í kvöldrútínunni til að ná að hvílast vel og vera tilbúin í næsta dag, til að grípa tækifærin og hámarka virðið mitt.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí