Við getum haft allar mögulegar skoðanir

Skoðun Illugi Jökulsson 27. jan 2024

Við getum haft allar mögulegar skoðanir.

Við getum haft allar mögulegar skoðanir á Hamas, og framgangi og framferði þeirra samtaka, bæði fyrr og nú.

Við getum líka haft ýmsar skoðanir á tilverurétti ríkisins Ísraels og við getum verið sammála eða ósammála um ýmist það sem það hefur staðið fyrir gegnum tíðina.

Við getum líka haft allar mögulegar skoðanir á framferði Bandaríkjanna í heiminum, og Bretlands og Evrópusambandsins og við getum ennfremur haft allar mögulegar skoðanir á framferði Arabaríkjanna.

Og við getum haft hinar og skoðanir á útlendingamálum hér á Vesturlöndum og hér á Íslandi sérstaklega, og við getum leyft okkur að hafa alls konar skoðanir á álit á þeim löndum okkar, á þeim einstaklingum, sem láta að sér kveða á þeim sviðum, og þetta allt saman getum við leyft okkur, og það er okkar lúxus.

En við getum þó ekki — og ég sé bara ekki hvernig við gætum haft nema eina skoðun á því sem núna, einmitt núna og núna samfleytt í bráðum fjóra mánuði — ég kem bara ekki auga á hvernig við getum haft nema eina skoðun á því sem núna fer fram á Gasasvæðinu.

Framferði ísraelska hersins á Gasa er svo viðurstyggilegt, svo grimmdarlegt, svo miskunnarlaust og svo skeytingarlaust um líf saklauss fólks, líf barna, líf varnarlausra, líf rúmliggjandi sjúklinga, og nú síðast líf gamalla kvenna sem veifa hvítum fánum, að ég kem sem sagt ekki auga hvernig hægt er að hafa nema eina skoðun á því:

Fordæma þetta framferði afdráttarlaust, alltaf og algerlega, og krefjast þess af íslenskum stjórnvöldum að þau geri hvað sem er, hvað-sem-er, til að lýsa andstyggð okkar á hinu villimannlega framferði Ísraelshers á Gasa, og geri líka hvað sem er, til þess að við getum linað þjáningar þó ekki væri nema fáeinna fjölskyldna á Gasa með því að frelsa þær frá því helvíti sem nú geisar á Gasasvæðinu og til ástvina sinna hér á landi.

Við eigum ekki að þurfa að BIÐJA stjórnvöld okkar um að lýsa tafarlaust, afdráttarlaust og algjörlega fordæmingu sinni á drápi þúsunda barna. Við eigum ekki að þurfa að biðja um að allt sé gert — hve smátt sem það kann að virðast — til að bjóða fram aðstoð okkar.

Og við eigum ekki að þurfa að standa í tilgangslausu þrefi um að málið sé svo voðalega flókið og erfitt og það þurfi að taka tillit til þessa og þessa, og hafa samflot með hinum og þessum.

Við eigum ekki að þurfa að biðja og bíða.

Við eigum bara að krefjast þess að stjórnvöld í okkar landi taki tafarlausa og afdráttarlausa afstöðu gegn ofbeldinu á Gasa og með allri þeirri mannúð sem við getum sýnt þeim sem þar þjást.

Það mál er ekkert flókið.

Það þarf ekkert að hugsa það í þaula, það þarf ekkert að vega og meta, það þarf bara að taka afstöðu eftir því sem hjartað býður.

Á þessu held ég og er reyndar sannfærður um að við getum ekki haft nema eina skoðun ef við viljum halda á lífi siðferðisneistanum í brjósti okkar, við verðum að gera allt sem við getum til að fordæma manndrápin, fordæma stríðsglæpina, fordæma hryðjuverkin, fordæma þjóðarmorðið, en leggja hrjáðu fólki lið.

Við viljum lifa, við viljum frið og réttlæti og frelsi, og með orðum frægasta íbúa í Palestínu fyrr og síðar: Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.

Lifi frjáls Palestína.

Ræða flutt á samstöðufundi með Palestínu á Austurvelli 27. janúar 2024.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu.

Skrá mig arrow_forward
Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí