Þjónustuver Strætó lokað og farþegar úti í kafaldsbyl

Skoðun Sara Stef. 19. des 2022

Um helgina stóðum við eldsnemma morguns, á annan tug farþega, í nístandi kulda og trekki í Mjóddinni, stærstu skiptistöð landsins, og gátum ekki annað.

Ekkert skjól var í boði hvað þá salernisaðstaða eða horn til að ylja sér. Fólk sem mætt er í Mjóddina snemma morguns um helgar er flest á leið út úr bænum – með landsbyggðastrætó – og á þessum laugardagsmorgni máttum við hýrast í opnum strætóskýlum milli vonar og ótta um að vagnarnir væru á áætlun.

En auðvitað voru vagnarnir ekkert á áætlun.

Það var að skella á með brjáluðu veðri með vindhraða sem færi langt yfir þau mörk sem teljast örugg fyrir akstur. Þetta er auðvelt fyrir stjórnendur Strætó að sjá inn vef Vegagerðarinnar umferðin.is.

Samt voru engar tilkynningar um að ferðir yrðu felldar niður. Svo við biðum og biðum á meðan vindurinn gnauðaði og ljóst var að veðrið var bara að versna ef eitthvað.

Eftir rúmlega hálftímabið var enn engar upplýsingar að hafa. Samkvæmt Klappinu og upplýsingaskjá við læstar dyrnar inn í Mjódd var enn útlit fyrir að vagnarnir væru á áætlun.

Á forsíðu Strætó.is sagði einfaldlega: Þjónustuver lokað.

Fimm mínútum eftir áætlaðan brottfarartíma kom loks tilkynning í Klappið um að ferðin félli niður. Fólkið sem beið með mér var ekki allt svo vel búið að hafa appið í símanum svo ég gat miðlað upplýsingunum til þeirra.

Mörg okkar sem ætluðum norður á laugardagsmorgninum vorum svo aftur komin á sama stað á sunnudagsmorgni. Við máttum vera vongóð um ferð norður enda enn engar tilkynningar um annað frá Strætó.

Ég var búin að fylgjast með á Klapp, strætó.is, Twitter og Facebook og meira að segja búin að skilja eftir spurningar út í áætlunarferðir. En nei. Engin svör. Ekkert að frétta.

Nú á Strætó að heita almannaþjónusta og almenningssamgöngur eiga að forgangsraða eftir þörfum almennings fyrst og fremst. En það er greinilegt á nýliðinni helgi að almenningur er ekki í forgangi hjá Strætó.

Enda af hverju ætti Strætó að vera velta ferðum farþega fyrir sér. Það er kannski bara aukaatriði þegar stjórn Strætó hefur á að skipa fólki sem þekkir ekki þá þjónustu sem það er í forsvari fyrir að veita.

Engir farþegar eiga fulltrúa í stjórninni og framkvæmdastjóri Strætó hefur lagt til enn meiri einkavæðingu í rekstrinum því það er svo mikið fjárhagslegt tap af því að hugsa um þarfir almennings.

Þótt búið sé að útvista og einkavæða á alla kanta gengur samt ekkert að reka almenningssamgöngur eins og hagnaðardrifið fyrirtæki. Af hverju ætli það sé nú? Jú, almenningssamgöngur verða aldrei reknar með hagnaði. Þær á að reka fyrir fjármagn fólksins, skattana okkar.

Strætó er samtrygging okkar fyrir ferðafrelsi og við eigum að leggja til þeirra með auknum skatttekjum. En ferðafrelsið á undir högg að sækja ef það á að einkavæða það enn frekar og við getum verið viss um að slík plön enda illa. Engum sögum fer af árangri einkavæðingar almenningssamgangna því þær er ekki hægt að reka með hagnaði, prófið bara að gúgla.

Sveitarfélög þurfa að krefja stjórnvöld um lagabreytingu svo hin ofurríku greiði skatt af fjármagnstekjum sínum og hægt sé að fjármagna grunnþjónustu eins og almenningssamgöngur með sóma.

Það er galið að horfa framhjá þessum mögulega tekjustofni eins og hann sé einhver ómöguleiki en láta á sama tíma eins og almennir borgarar, meira og minna blönk, eigi endalaust að púkka út fyrir alla jafnt.

Sampúkkið á auðvitað að eiga við um alla – líka hin ofurríku sem nota leikskóla, grunnskóla, hjúkrunarheimili, spítala, götur, gangstéttir, ljósastaura og kannski en líklega ekki almenningssamgöngur -eins og annað fólk.

Við þurfum að endurheimta almenningssamgöngur og reka þær fyrir tekjustofna sem geta haldið þeim gangandi.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí