Tólf mánaða verðbólga á Íslandi mældist minni í september en ágúst. Reiknuð húsaleiga sem tekur mið af þróun á fasteignamarkaði stóð í stað milli mánaða. Talsverð hækkun er hins vegar á leigumarkaði. Þrátt fyrir þessi tíðindi telur greiningadeild Landsbankans að enn megi búast við hækkun Seðlabanka Íslands á stýrivöxtum úr 5,5% í 6%.
Í Evrópu heldur orkuverð áfram að draga úr kaupmætti. Þar er verðbólgan komin í 10%, en mældist 9,1% í ágúst sem var þá þegar met í sögu evrunnar. Evrópa hefur orðið sér út um gas frá Noregi og fljótandi gas víðsvegar að sem vegur að mestu upp þá orku sem áður var flutt inn frá Rússlandi. Enn er þó viðvarandi orkuskortur sem bitið hefur á framfærslu- og einkum orkukostnað heimila, en orka hefur hækkað upp úr öllu valdi.
Verðbólgan í Frakklandi mælist hvað lægst á þeim svæðum þar sem orkuskortur hefur vegið þungt. Ástæðan er verðbremsa, orkan er niðurgreidd af ríkissjóði. Á næstunni mun Þýskaland og Bretland beita svipuðum aðferðum til að halda verðlagi í skefjum. Í mörgum tilfellum er niðurgreiðslan fjármögnuð að miklu leyti með hvalrekaskatti á orkufyrirtæki sem skila miklum hagnaði um þessar mundir.
Krugman skiptir um skoðun
Fyrir minna en ári síðan sagði Paul Krugman, líklega virtasti hagfræðingur okkar tíma, að verðstýring á orku væri sannanlega heimskuleg aðferð og vísaði þá til umræðunnar sem var hafin í Evrópu um orkukrísuna. Í nýlegum pistli í New York Times fer hann hinsvegar nokkuð fögrum orðum um þessar aðferðir við að dreifa samfélagslegum byrðum. „Þú getur ekki — átt ekki — alltaf að láta markaðinn ráða ferðinni“ segir Krugman í pistlinum. Skólabókakenningar hagfræðinnar eru að víkja fyrir raunveruleikanum sem ríkisstjórnir Evrópu standa frammi fyrir.
Þýskaland, vegna stærðar hagkerfisins innan Evrópu, leiðir verðlagshækkanir. Þjóðverjar eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir orkukreppunni. Orkustefna Þýskalands hefur verið gagnrýnd í gegnum tíðina fyrir að vera of háð Rússlandi. Hagfræðingar segja flestir að kreppa sé yfirvofandii í Evrópu.
Evrópska kerfisáhætturáðið gaf út viðvörun í gær vegna ástandsins, að hækkun skulda og skuldabyrði samhliða lækkun eignaverðs, geti valdið fjármálakreppu. Þetta er fyrsta viðvörun ráðsins frá því það var stofnað 2010. Það er því verðbólga, vaxtahækkanir, fall gjaldmiðla, efnahagssamdráttur, lækkun eignaverðs og hætta á fjármálakreppu í Evrópu.
Áhrif hækkandi stýrivaxta
Út um allan heim eru seðlabankar að draga úr eftirspurn með hækkun stýrivaxta, eins og Samstöðin hefur áður greint frá. Greinendur hafa bent á að þegar stýrivextir, sem hafa verið í kringum núllið í mörgum ríkjum, fara nú að gliðna í sundur geti það endurvakið vaxtamunaviðskipti sem voru vinsæl fyrir hrun. Mikið fjármagnsflæði milli landa getur dregið enn frekar úr viðnámsþrótti og stöðugleika hagkerfa. Þetta á sérstaklega við um smærri ríki með sjálfstæða mynt og óheft flæði fjármagns, eins og Ísland fyrir hrun.
Hærri stýrivextir þyngja einnig róður ríkissjóða. Meira af fjármunum ríkissjóða fara í vaxtagreiðslur af ríkisskuldum. Margir hagfræðingar hafa gagnrýnt ríkisstjórnir fyrir að fara ekki í stærri fjárfestingar þegar vextir voru lágir. Í kjölfar efnahagshrunsins var sveltistefnu beitt í mörgum ríkjum og innviði látin grotna niður. Mikil þörf er á endurnýjun innviða víðsvegar um Evrópu. Samtök Iðnaðarins meta uppsafnaða viðhaldsþörf innviða á Íslandi nema 372 milljörðum króna.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga