„Skilvirkni í hagkerfinu er alltaf á leiðinni upp, en á einhverjum tímapunkti, getur hún gengið of langt. Þetta er smá tilvistarkreppa hjá hagfræðinni nú. Til dæmis: störf í ferðamálageiranum í dag. Þetta er einn stærsti geirinn á Íslandi nú. Út af því að það er alltaf að aukast skilvirkni, svo fyrirtæki geti vaxið, þá er alltaf spurt: „hvernig getum við dregið úr kostnaði“. Þá geta þau bara lækkað laun og gert störfin einfaldari. Gert störfin þannig að það þarf að skipta fólki út ótrúlega fljótt. Þá ertu kominn með samfélag þar sem fólk stoppar bara stutt, hvort sem þeir eru útlendingar eða ekki. Það er ekki ofboðslega skemmtilegt.“
Þetta sagði Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir, varaþingkona Pírata og Harvard-nema í hagfræði, við Rauða borðið í viðtali sem sýnt verður í kvöld. Hún útilokar ekki að íslensk efnahagsstjórn kunni að vera sú versta í heimi. Hún tekur einnig undir með þeim sem kalla eftir því að ríkið stígi fastar inn til að leysa húsnæðiskrísuna.
„Húsnæðiskrísan er „alltkrísan“. Þetta er svo mikil grunn undirstaða fyrir jöfnuð í samfélaginu en þetta er orðið eitthvað hlægilegt. Bæði lánakerfið og hvernig við byggjum húsnæði. Til dæmis hvað varðar lánakerfið, þú ert að borga húsnæðið þitt fimm til fimmtán sinnum eftir því hvernig vextirnir eru, og núna þá ertu að borga húsið þitt fjórtán sinnum til baka. Í Noregi ertu kannski að borga það tvisvar til baka.“
Viðtalið við Gunnhildi Fríðu má sjá og hlusta á í heild sinni við Rauða borðið í kvöld.