Ég tel að það sem okkur hefur verið sagt um geðheilbrigði séu mikil ósannindi

Geðheilbrigði 12. sep 2022

Fyrir helgi birtist aðsend grein í The Guardian með þessar fyrirsögn: Ég er sálfræðingur – og ég tel að það sem okkur hefur verið sagt um geðheilbrigði séu mikil ósannindi

Og undirfyrirsögnin var: Samfélagið metur það svo að rót geðraskana séu innra með manneskjunni sjálfri og hunsar pólitískar orsakir fyrir neyð fólksins.

Höfundurinn er Sanah Ahsan, sem er starfandi sálfræðingur, ljóðskáld og baráttukona gegn óréttlæti, hún er lesbísk og múslima, og hefur þurft að berjast fyrir tilvist sinni innan samfélags Pakistana og sem hluti af því samfélagi í Bretlandi

Hún byrjar á að lýsa neyðarástandi í geðheilbrigðismálum sem magnaðist upp eftir cóvid. Í Bretlandi eru 1,6 milljón manns á biðlista eftir geðlæknisþjónustu (jafngildir 9 þús. á Íslandi). Og fullyrt er að 8 milljón þurfi á aðstoð að halda en komist ekki einu sinni á biðlistana. Það jafngildir 45 þús. manns á Íslandi. Börn koma á bráðadeildir spítalanna og segjast vilja deyja, þeim líði svo illa.

Sanah segir síðan að ef horfum á þetta neyðarástand ekki aðeins út frá læknisfræðilegu sjónarhóli má spyrja: Er þessi vanlíðan ekki eðlileg viðbrögð við samfélaginu. Lífríkið er að brotna niður og loftslagsváin magnast. Fólk berst við að komast af meðan verðlagið ríkur upp. Margir eru enn fullar af sorg og einmanaleika eftir cóvid. Og fréttir berast af lögregluofbeldi sem grefur undan trú okkar á kerfinu.

Sanah segist hafa efast um viðbrögð geðheilbrigðiskerfisins lengst af vinnu sinnar innan NHS, breska heilbrigðiskerfisins, fundist að verið væri að af-stjórnmálavæða vanda sem er sannarlega há-pólitískur í grunninn.

Gagnast það konu sem sefur ekki fyrir aðkomukvíða vegna þess að hún hefur ekki nægar tekjur til að framfleyta sér og börnum sínum að fá sex tíma í hugrænni athyglismeðferð til að losa sig við neikvæðar hugsanir? Gagnast það svörtum manni sem upplifir einangrun og fordóma í vinnunni að taka þunglyndislyf vegna vanlíðanar sinnar? Gerir það konur öruggari sem verða fyrir heimilisofbeldi og öðru kynferðislegu ofbeldi að vera greindar með áfallastreituröskun þegar þær lifa í samfélagi þar tvær konur eru myrtar á heimilum sínum í hverri viku? Og núvitund leysir ekki vanda barna sem búa við fátækt og linnulausan samanburð við jafnaldra sem búa við betri efni, verandi föst í skólakerfi sem er drifið áfram af prófum frekar en þörfum nemendanna.

Sanah spyr hvort við myndum skilgreina visnandi plöntu sem hún væri með visnunarsjúkdóm? Eða myndum við bæta aðstæður plöntunar, vökva hana, skipta um mold, gefa henni bætiefni, lofta út, færa hana í sólarljósið?

Sanah bendir á að kenningar um að rekja megi geðraskanir til ójafnvægis í efnabúskap heilans séu fallnar og hafi auk þess ekki verið gagnlegar. Það valdeflir ekki fólk í vanda ef því er sagt að það því líði eins og það líði vegna þess að það sé einfaldlega svona og verði til æviloka.

Skiljanlega bendir Sanah á að einstaklingsmiðum meðferð hjálpi mörgum og að geðlyf geti hjálpað sumum. En hún segist óttast að þessi nálgun sé í besta falli plástur á hið raunverulega mein, sem er að fólk þjáist vegna stöðu sinnar í samfélaginu og samskipta sinna við annað fólk. Geðraskanir eru ekki eins og hverjir aðrir sjúkdómar, sem rekja má til einhverra líkamlegra ágalla. Geðraskanir eru oftast merki um tilvistarlegan vanda fólks í samfélagi sem reynir mikið á fólk, meiðir það og kúgar.

Sanah segir að Bretar gætu lært mikið af Ignacio Martín-Baró, Jesúítapresti sem upphaf frelsunar-sálfræðinnar er rakið til. Við gætum haft heilan þátt um Baró. Hann varaði sálfræðinga við að taka þátt í að normalisera óeðlilegt ástand í samfélaginu. Geðraskanir væru þegar fólk bregðist óeðlilega við eðlilegum aðstæðum – ekki þegar fólk bregst eðlilega við óeðlilegum aðstæðum. Kvíði gagnvart óöryggi er ekki sjúkdómur, áfall vegna ofbeldis eða tilvistarlegur vandi vegna kúgunar og útilokunar. 

Frelsunar-sálfræðin lítur ekki á fólk í vanda sem sjúklinga heldur félaga í mikilvægu verkefni, að breyta heiminum, vinna gegn óréttlæti og ójöfnuði. Lögð er áhersla á sögu, menningu og hefðir hvers samfélags og hvít-evrópskri nálgun einstaklingsmiðaðar meðferðar. Frelsunar-sálfræðin skorar upphafna einstaklingshyggju á hólm og hvetur fólk til pólitískrar þátttöku til að bæta ástandið sem veldur sálrænni vanlíðan; heldur því fram að virk þátttaka í baráttu fyrir betri kjörum og aðstæðum með fólki sem er í sömu aðstöðu sé í raun besta meðferð. Þegar okkur er illt í þeim hluta okkar sem erum við í samfélagi með öðru fólki, þá ættum við að vinna innan þess hlutar. Ekki taka lyf eða fara í samtalsmeðferð hjá sálfræðingi.

Ignacio Martín-Baró var drepinn ásamt fimm öðrum Jesúítum af morðsveitum hægri stjórnarinnar í El Salvador 1989. Með vitund og velvilja bandarísku leyniþjónustunnar, CIA. Hér er hann brosandi á veggmynd í San Salvador ásamt öðrum fórnarlömbum þessar skálmaldar, sem gekk út á að eyða og þagga niður alla frelsisbaráttu alþýðunnar, kæfa sósíalíska verkalýðsbaráttu og drepa alla sem kröfðust réttlætis og jöfnuðar. Sá sem er lengst til hægri á myndinni er Óscar Romero erkibiskup, sem tók að sér að rödd hinnar raddlausu og barðist gegn óréttlætinu í samfélaginu. Hann var drepinn við messu af dauðasveitum hægri manna.

Sanah fer svo sem ekki með þessa sögu í greininni. Og hún tekur fram að hún er ekki að leggja til að fólk með geðraskanir skelli sér allt í verkfallsvörslu og róttækar aðgerðir. En hún nefnir ýmis samtök sem hún sjálf tekur þátt í og notar til að halda sönsum í óréttlátum heimi. Til dæmis Sálfræðingar fyrir félagslegum umbótum, en myndin er af þátttöku þeirra í mótmælagöngu fyrir auknu réttlæti. Þarna er skilti sem á stendur: Jöfnuður er besta meðferðin. Og: Fyrir fólk, ekki fjármagn

Sanah endar greinina á að taka aftur dæmi af plöntunni sem er að visna vegna lélegs aðbúnaðar og spyr hvort við getum ekki brugðist eins við gagnvart manneskjum. Eins og við vökvum plöntuna getur vatnið verið örugg framfærsla fyrir alla. Eins og við færum plöntuna þangað sem sólin skín getum við tryggt öllum ódýrt og öruggt húsnæði, auðvelt aðgengi að náttúru og samfélagi. Moldin getur verið ástrík persónuleg sambönd og skilningsríkur félagslegur stuðningur. Besta leiðin til að bæta geðheilbrigði fólks er að bæta aðstæður þess, að umbreyta kúgun í virðingu, fátækt í velsæld, ótta í öryggi. 

Öll þurfum við samfélag og stuðning til að komast í gegnum daginn og lífið. Lífið er erfitt og það er ekki alltaf auðvelt að vera manneskja. En ef við fáum vatn og sólarljós, fáum að skjóta rótum í næringarríkum jarðvegi, rými til að breiða út laufin okkar og frelsi svo við getum blómstrað … væri lífið þá ekki lífvænlegra fyrir alla?

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí