Jakob Frímann vill leyniþjónustu að hætti James Bond

Stjórnmál 30. sep 2022

„Eflum það sem að heitir eftirlit sérfræðinga til að fyrirbyggja að pípurnar okkar verði klipptar í sundur og samfélagið lamað á svipstundu,“ sagði Jakob Frímann Magnússon þingmaður Flokks fólksins í ræðustól Alþingis. „Þetta er í skötulíki hjá okkur, viðurkennum það bara. Ég er margoft búinn að nefna þetta í utanríkismálanefnd.“

Jakob byrjaði umræðuna á þjóðlegum nótum: „1896 fæddist maður Vilhjálmur Vigfússon Stefánssonar ættaður frá Tungubrekku á Snæfellsnesi,“ hóf Jakob Frímann mál sitt. „Hann átti eftir að sýna ótrúlega djörfung og dug að því er varðaði njósnir, stríðsdulkóða og sitthvað fleira. Og þessi ágæti maður, sem ólst upp í Kanada í Winnipeg, er maðurinn sem skáldsagnapersónan James Bond er byggð á, sem margt hefur verið um ritað og kvikmyndað.“

Þarna vísaði Jakob til William Stephenson, Kanadamanns af íslenskum ættum sem starfaði innan bresku leyniþjónustunnar í Ameríku og haldið hefur verið fram að sé fyrirmynd Ian Flemming að persónu James Bond. Á wikipedíu segir að faðir William hafi verið William Hunter Stanger frá Orkneyjum en móðirin, Sarah Gudfinna Johnston verið íslensk, en ekki er vitað um ætt hennar né hvaðan af Íslandi hún var. Faðir William lést þegar drengurinn var fjögurra ára og móðirin treysti sér ekki til að sjá fyrir öllum börnum sínum svo að William var tekinn í fóstur af Vigfúsi Stefánssyni og Kristínu Guðlaugsdóttur, sem ættuð voru af Snæfellsnesi, og fékk hann nafn þeirra.

Opnað hefur verið safn um William Stephenson í kjallara við Vesturgötu og kallast það True Spy, gerir út á þá sögu að William hafi verið fyrirmyndin að James Bond.

Jakob sagðist nefna William til sögunnar í tilefni að því að gamla herraþjóðin hafi orðið fyrir því fyrir nokkrum dögum að gaspípur hafi þar verið sprengdar. Jakob sagðist láta sér málið varða sérstaklega þar sem dóttir hans og synir hennar búi þarna rétt hjá og að þeir sem eru þarna á bátum eða skipum eigi á hættu að sökkva þegar gasið blandast sjónum.

Og Jakob sagðist líka vilja vekja athygli á þessu vegna þess sem var á forsíðu Morgunblaðsins í síðustu viku.

„Þar var einhverra manna ráðagerð að sprengja okkur öll í loft upp sem hér störfum og sömuleiðis þau í lögreglusveitinni,“ sagði Jakob. „Ég held að við eigum að beina því til utanríkisráðuneytisins, þar sem varnarmálin eru vistuð, og kannski til fleiri stofnana sem hér eru okkur til atfylgis og trausts að við þurfum að efla mjög verulega það sem að William Stephenson fékkst við í því að kanna hvort ógnir kunni að stafa af, kannski á hafsbotni. Að hér væri hægt að lama innviði á mjög skömmum tíma. Við erum ansi berskjölduð miðað við aðrar þjóðir. Við treystum á Nató og við treystum á atfylgi þeirra sem vilja okkur vel. En ég held að það myndi efla mjög sáluheilsu bæði landsmanna og þeirra sem láta sig Ísland varða ef við kæmum okkur upp sterkri vörnum í þessum efnum. Á þessum vettvangi eru stríðin háð ekki síður en með skriðdrekunum á jörðu.“

Jakob kom þrisvar upp í púlt Alþingis til að ítreka þessa tillögu sína, að hér yrði byggð upp öflug leyniþjónusta í anda William Stephenson eða James Bond til að fygjast með því sem blasir ekki við á yfirborði jarðar

Tökum þessari áminningu, sagði Jakob Frímann. Við þurfum að hafa einhverja sérfræðinga í því að fylgjast með því sem menn eru að aðhafast. Grimmdin og villimennskan taumlaus og við varnarlaus.

Það má sjá og heyra ræður Jakobs Frímanns í spilaranum hér að ofan. Eins og alþjóð veit gefur skrifaður texti ekki rétta mynd af frásögn Jakobs, hún lifnar í lifandi flutningi hans sjálfs.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí