Seðlabankar heimsins hækka stýrivexti hver af öðrum. Markmið vaxtahækkana er að þyngja róður fyrirtækja og heimila sem veikir eftirspurn hagkerfisins og heldur þannig aftur af hækkunum á verðlagi. Og enginn seðlabankinn hefur hækkað vexti jafnt mikið og Seðlabanki Íslands.
Alþjóðabankinn telur miklar líkur á að ætlunarverk seðlabanka sé að takast og að kreppa sé í aðsigi. Í nýútkominni skýrslu þeirra er talað um „samræmdasta kafla efnahagsþrenginga síðustu fimm áratuga“.
Hvergi eru þó vaxtahækkanir eins snarpar og miklar og hér á landi. Ábyrgðin hvílir á peningastefnunefnd en hún hefur sjálfstæði til að þrengja að efnahagslífinu, vinnumarkaði og kjörum fólks. Stýrivextir voru lækkaðir úr 4,5% í 0,75% á rúmu ári frá lífskjarasamningum inn í cóvid.
Hér má sjá hækkun á stýrvöxtum í Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Íslandi og Evrópusambandinu. Bláa súlar eru vextirnir fyrir ári og sú rauða vextirnir í dag.
Hagfræðingurinn Stephanie Kelton, höfundur bókarinnar Deficit Myth, telur að þessi viðbrögð seðlabankanna séu óábyrgar þar sem stýrivaxtahækkanir hafi fyrst og fremst áhrif á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Telur hún að þær aðstæður sem nú ríkja í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsins í Úkraínu séu fyrst og fremst kæling framboðshliðarinnar þar sem þurfi sértækari aðgerðir en vaxtabreytingar.
Athygli hefur verið vakin á því að á Íslandi sé verðlag með því lægsta í Evrópu ef húsnæði er undanskilið. Þar hefur orkuverð spilað stórt hlutverk, en það hefur haldist mun lægra og stöðugra en í Evrópu. Undirliðir verðbólgunnar á Íslandi eru því nokkuð frábrugðnir þó að verðbólgumælingar séu í og við tveggja stafa tölu eins og víðast hvar annars staðar.
Samkvæmt nýútkomnum mælingum lækkaði húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu 0,4% á milli mánaða, sú fyrsta og eina í meira en tvö ár. Óvíst er hvort það sé merki um að verðbólgan hafi náð hátindinum að sinni.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga