Danir heppnir miðað við íslensku afborganageðveikina

Pistill sem Grímur Atlason hjá Geðhjálp hefur birt fer nú eins og eldur í sinu um Internetið. Þar gerir Grímur samanburð á húsnæðiskaupum ungs fólks í Danmörku og hér á landi.

Eftir lesturinn stendur sú spurning eftir hvort stærstu efnahagslegu mistök Íslendinga hafi verið gerð þegar við sögðum skilið við Dani árið 1944!

Grímur tekur sem dæmi tvö ungmenni, annað danskt og hitt íslenskt.

Bæði kaupa íbúð á 60 milljónir króna, borg út tíu milljónir og taka 50 milljóna lán til 30 ára.

Mánaðarleg afborgun í Danmörku er um 235.000 af óverðtryggðu láni.

Á Íslandi er afborgunin 256.000 í verðtryggðu umhverfi en annars tæp 400.000.

Íslenska verðtryggingin sem þekkist hvergi á byggðu bóli utan Íslands, þýðir að afborganir af lánum íslenska íbúðarkaupandans fara í ekkert annað en vexti  90% af lánatímanum.

Með því að bera saman Ísland og Danmörku kemst Grímur að því út frá fyrrnefndu dæmi að í Danmörku borgi ungmennið 96,4 milljónir fyrir milljónirnar 50 en lán Íslendingsins kosti hann verðtryggt eins og staðan er í dag 231 milljón króna! Það er næstum fimmföld upphæð peninganna sem íslenska ungmennið fékk að láni.

Lántakandi á Íslandi sem tekur óverðtryggt lán situr ekki í sömu súpu en hann þarf eigi að síður að borga 97% meira til lánastofnunarinnar en lántaki í Danmörku. Hann þarf í ofanálag að borga 68% hærri afborganir en sá danski. Og hafi íslenski lántakinn valið verðtryggt lán þarf hann að borga 140% meira til lánastofnunarinnar en sá sem tók lánið í Danmörku.

Greiðslubyrði á mánuði er 9% hærri en í Danmörku. Margir velja leið verðtryggingarinnar þar sem þeir treysta sér til að borga 257 þúsund krónur á mánuði í húsnæðislán þegar 395 þúsund á mánuði gætu reynst of þungur baggi.

Lánastofnanir hér fá rúmum 142 milljónum króna meira á þessum viðskiptum en kollegar þeirra í Danmörku. Það segir sína sögu um íslenska bankakerfið og þá vexti sem við búum við.

„Hér má sjá hvernig komið er fyrir okkur hér í faðmi íslenskrar krónu og sérgæslumanna sem hér fara með öll völd og virðast ekki hugsa um neitt annað en sína prívathagsmuni í bland við furðulega þjóðernisást. En það er samt alls ekki tímabært að ræða gjaldmiðilinn og aðild að Evrópusambandinu,“ segir Grímur sem styður aðild að ESB og er ekki einn um það í þeirri efnahagsmartröð sem heldur skuldugum í hlekkjum hér á landi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí