Seðlabankinn með langhæstu raunvexti í Evrópu

Peningamál 24. sep 2022

Með samanburði á verðbólgu og stýrivöxtum í Evrópu má sjá að íslenski seðlabankinn er með hæstu raunvextina, miklum mun hærri en í öðrum löndum. Íslenskir skuldarar bera því meiri byrðar vegna vaxtahækkana en aðrir Evrópubúar.

Hagstofan birti í gær samræmda evrópska neysluvísitölu og samanburð hennar á Íslandi við önnur lönd Evrópu. Munurinn á samræmdri neysluvísitölu og þeirra sem Hagstofan birtir og almennt er vísað til á Íslandi er sá helstur að húsnæði er ekki inn í þeirri samræmdu. Þetta veldur því að verðbólgan á Íslandi er mæld sem 9,7% með vísitölu neysluverðs, sem almennt er vísað til, en er 5,5% samkvæmt samræmdri evrópskri neysluvísitölu.

Og samkvæmt hinni evrópsku er verðbólga á Íslandi minni en í öllum löndum Evrópu að Sviss einu frádregnu. Tafla Hagstofunnar lítur svona út:

Samkvæmt þessu er vandi Íslendinga ekki almenn verðbólga heldur fasteignabóla, sem sprengt hefur upp upp húsnæðiskostnað almennings á svipaðan hátt og orkukreppan í Evrópu hefur margfaldað orkukostnað almennings þar. Í Evrópu grípa stjórnvöld til sérstakra aðgerða til að verja almenning fyrir hækkun orkuverðs, en beita vaxtaákvörðunum seðlabanka til að draga úr almennri verðbólgu með það markmið að draga úr þenslu og eftirspurn.

Hér heima virðist markmiðið hins vegar vera að beita vaxtahækkunum til að kæfa eftirspurn á húsnæðismarkaði til að lækka þar verð, þótt almennt sé viðurkennt að ástæða eignabólu á fasteignamarkaði sé skortur á framboði. Framboðið er mun minna en eðlileg eftirspurn. Jafnvel þótt vaxtahækkun dragi úr braski á markaðnum setur eftir eftirspurn venjulegs fólks sem vantar einfaldlega hentugt húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína.

Og íslenski seðlabankinn beitir þessu vopni ákafar en flestir aðrir. Hér er tafla yfir stýrivexti í Evrópu:

Það eru hærri stýrivextir í Tyrklandi, Ungverjalandi, Tékklandi og Póllandi en á Íslandi en þar er verðbólgan líka mun meiri. Stýrivextir á Íslandi eru hærri en í helstu nágrannalöndum og mun hærri en í Sviss, þar sem verðbólgan er svipuð en ívið minni.

Besta leiðin til að bera saman stýrivextina er að meta hversu háir þeir eru í samanburði við verðbólgu, þ.e. hverjir eru raunvextir stýrivaxta. Og þá er staðan þessi:

Þarna sker íslenski seðlabankinn sig úr með því að ætla að halda uppi stýrivöxtum sem vega upp alla verðbólguna, ekki láta verðbólguna rýra fjármagn lánveitenda og láta skuldara bera alla verðbólguna. Enginn annar seðlabanki er á þessari línu.

Ásgeir Jónsson bankastjóri Seðlabankans hefur sagt að íslenski seðlabankinn sé ekki á sérleið, heldur sé það frekar svo að aðrir seðlabankar komi á eftir með vaxtahækkanir sínar. Það er ekki að sjá á þessum gröfum heldur einmitt að stefna Seðlabanka Íslands sé sérstök og skeri sig úr.

Húsnæðiskaupendur á Íslandi bera miklum mun meiri byrðar vegna vaxtahækkana en annars staðar, þurfa að greiða niður verðbólguna með kaupmáttarskerðingu sem hækkun húsnæðiskostnaðar veldur.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí