Þó pundið hafi hætt að hrynja í morgun í kjölfar umdeildra skattalækkana eiga fleiri skellir eftir að dynja á breskum heimilum. Margar lánastofnanir undirbúa nú vaxtahækkanir sem munu rýra hag heimila og fyrirtækja enn frekar. Nú þegar hafa sumar lánastofnanir stöðvað veitingu ákveðinna húsnæðislána.
Eftir tilkynningu um skattalækkanir fyrir þá ríkustu sem nema um 2% af þjóðarframleiðslu hrundi pundið. Einnig jókst skuldabréfaálag ríkissjóðs sem gerir aukin fjárlagahalla dýrari. Englandsbanki fann sig knúin til að gefa út yfirlýsingu í gær og kveðst „ekki muna hika við stýrivaxtahækkanir“. Seinni hluti fjárlaganna verður kynntur síðar en þar má búast við miklum niðurskurði á grunnþjónustu.
Mörg hagkerfi í Evrópu eru nú þegar á barmi kreppu vegna orkuskorts. Markmiðið með vaxtahækkunum er að draga úr eftirspurn, sem getur verið það högg sem kemur hagkerfinu í samfellt samdráttarskeið – þ.e.as. kreppu.
Breska pundið hefur veikst um 20% á móti dollar það sem af er ári þrátt fyrir styrkingu dagsins.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga