„Þeim ber skýr og ótvíræð skylda til þess að umgangast gagnagrunna og skjöl félagsins, þ.m.t. tölvupósta fyrrum starfsmanna í samræmi við meginreglur um persónuvernd. Hafi nýir forystumenn ekki virt þær reglur er um brot af þeirra hálfu að ræða,“ segir í yfirlýsingu sviðstjóra á skrifstofu Alþýðusambandsins vegna fréttar Kjarnans um tölvupósthólf Sólveigar Önnu Jónsdóttur hjá Eflingu.
Í yfirlýsingunni er sagt að svar Halldórs Oddssonar lögfræðings ASÍ til Ólafar Helgu Adolfsdóttur, þáverandi varaformanns Eflingar, hafi verið gefið þeim fyrirvörum að gæta þurfi reglum Persónuverndar. Svarið byggir á ákvæðum ráðningarsamnings Sólveigar Önnu samkvæmt yfirlýsingunni, sem segir að öll samskipti, rafræn sem og önnur, sem starfsmaður móttekur og sendir starfs síns vegna, sem og gögn sem mynduð eru í kerfum og á þjónum félagsins vegna starfsins, eru eign Eflingar.
Sólveig Anna hefur hins vegar birt ráðningarsamning sinn og þar er þetta ákvæði ekki. Sambærilegt ákvæði hljóða svo: „Eðli starfs síns vegna ber henni að meðhöndla allar upplýsingar, skjöl og gögn sem hún hefur aðgang að í starfi sínu af fyllsta trúnaði. Við starfslok afhendir hún öll skjöl, skilríki og önnur gögn sem eru í hennar vörslu og tilheyra félaginu.“
Sólveig Anna segir að ákvæðið sem sviðstjórarnir vitna til hafi verið sett í ráðningasamninga síðar, en sé ekki í hennar samningi. Samkvæmt því hefur Halldór byggt álit sitt á ágiskun frekar en raunverulegum gögnum eða verið færð vitlaus gögn.
En í svari Halldórs til Ólafar Helgu ítrekar hann umgegni um gögnin: „Mér skilst að Karl Karlsson lögmaður félagsins sé til vitnis um að þau hafi klárað það. Það eina sem eftir er að gera er að loka tölvupósthólfinu en áður en það er gert þá verðið þið að skjala þau gögn sem þar eru inni og hafa gildi fyrir félagið enda eru þau eign þess. “
Í frétt Kjarnans segir hins vegar: „Í kjölfar þessa var tölvupósthólf bæði Sólveigar Önnu og Viðars hjá Eflingu tengt við tölvupóstkerfi Agniezsku. Tölvupóstur þeirra var því opinn til vinnslu fyrir hana að minnsta kosti frá 12. janúar til 13. apríl 2022, samkvæmt upplýsingum frá upplýsingatækniþjónustuaðilanum, án þess að nokkrar hömlur væru á aðgengi Agnieszku að pósthólfunum og án þess að Sólveig Anna og Viðar vissu að því að aðgengið hefði verið veitt.“
Ef þarna er rétt greint frá er augljóst af ekki var farið eftir því sem Halldór tiltók í bréfinu. Hann áréttaði umgengnina um pósthólfið: „Að sjálfsögðu gilda enn þá reglur persónuverndar og friðhelgis um þær persónugreinanlegu upplýsingar sem þar er að finna, hvort sem um er að ræða upplýsingar er varðar þau sjálf eða einhverja aðra.“
Með þessari yfirlýsingu beina sviðstjórar ASÍ sökinni að þeim Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu Ziólkowska, varaformanni Eflingar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga