„Ég bið þig, af fyllstu einlægni. Sýndu okkur að biðlistabörnin skipti þig máli. Sýndu okkur að á meðan þau njóta ekki sömu tækifæra og önnur börn, þá tölum við ekki um menntakerfið sem jöfnunartæki í samfélaginu,“ skrifar Alma Björk Ástþórsdóttir, varaformaður Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra, í opnu bréfi til Katrínar Jakobsdóttur.
Tilefnið er pistill Katrínar um menntun og velsæld, þar sem hún fjallaði um menntakerfið sem eitt jöfnunartækið í samfélaginu okkar. Þar segir Katrín að innan menntakerfisins gefist einstakt tækifæri til þess að hlúa að hverjum og einum og tryggja að öll börn fái tækifæri til að þroska hæfileika sína og vaxa og dafna.
Þetta gekk fram af Ölmu Björk, svo mjög að hún skrifaði opið bréf til Katrínar og birti í Fréttablaðinu. „Þegar ég las þessi orð velti ég fyrir mér á hvaða bleika skýi þú værir og með hvaða gleraugum þú horfir á skólasamfélagið,“ skrifar Alma Björk. Og spyr Katrínu: „Hefur þú eitthvað heyrt af umræðunni um vandann í skólakerfinu? Ert þú að hlusta?“
„Þú talar um að stigin hafi verið stór skref í aukinni farsæld barna með því að breyta lögum og reglum um málefni barna,“ heldur Alma Björk áfram. „Hugsunin sé að búa vel að hverju einasta barni. Hefur þú heyrt talað um að barnasáttmálinn sé ítrekað brotinn gagnvart mörgum börnum í skólum landsins? Og iðulega brot sem ekki verður komist hjá vegna þess að kerfið okkar er meingallað?“
Og svo tekur hún dæmi:
„Það var bara síðast í gær sem ein móðir skrifar um raunir sínar í spjallhóp foreldra barna á einhverfurófi og birtir bréf sem hún sendi á barnamálaráðherra. Í bréfinu spyr hún Ásmund að því hvernig hann sjái fyrir sér að börn í þessari stöðu geti lifað á Íslandi. Móðirin óskaði fyrst eftir greiningu þegar barnið var 5 ára. Það var ekki hlustað fyrr en barnið var í öðrum bekk og vildi deyja. Þá var óskað eftir frumgreiningu hjá þjónustumiðstöð þar sem biðlistinn er 2 ár. Þegar forgreining er komin fer barnið á biðlista hjá Þroska og hegðunarstöð sem er 3 ár. Barnið er því orðið 12 ára þegar það verður loksins búið í greiningarferlinu og fær í kjölfarið viðeigandi aðstoð í skólanum. Í mörgum sveitarfélögum er það nefnilega svo að enga aðstoð er að fá fyrr en greining liggur fyrir.
Er það jöfnuður?
Önnur móðir sagði greiningarferlið hafa byrjað þegar barnið var í 1 bekk. Nú sé það í 5 bekk og kemst líklega að næsta vor. Hún birtir mynd af samskiptum við kennara barnsins þar sem fjallað var um erfiðan dag og vandræði í námi. Hún þarf að rjúka í skólann 1-2 í viku til þess að róa barnið. Heldur þú að þetta barn sé að njóta sín í skólanum?
Er þetta barn að fá sama tækifæri til menntunar og barn sem ekki glímir við taugaþroskaröskun?
Önnur móðir skrifar að barnið hennar sé búið að bíða eftir greiningu frá því í 6 bekk. Það er núna í 10 bekk.
Fékk þetta barn tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í grunnskóla?
Önnur móðir segist hafa óskað eftir greiningu þegar barnið var í leikskóla en að ekki hafi verið hlustað. Í 4 bekk glímir barnið við skólaforðun. Barnið er 12 ára í dag og staðan skánaði þó aðeins við það að flytja í annað sveitarfélag.
Er það jöfnuður þegar fólk þarf að flytja í annað sveitarfélag til þess að fá viðeigandi þjónustu?“ spyr Alma Björk.
Og skrifar svo: „Grunnskólagangan er 10 ár. Þegar barn þarf að bíða í 3-6 ár eftir greiningu er það nokkuð augljóst að barnið fær ekki sömu tækifæri til náms og önnur börn, getur ekki vaxið og dafnað á sama hátt og önnur börn, og þar af leiðandi nýtur það ekki sömu tækifæra í samfélaginu.
Foreldrar barna í þessari stöðu upplifa mikla vanvirðingu þegar talað er um jöfnuð í skólakerfinu. Þeir horfa nefnilega uppá glötuð tækifæri barna sinna alla daga. Og þegar sjálfur forsætisráðherra landsins lítur fram hjá því og fjallar um jöfnuð og tækifæri, þá er erfitt að skilja það öðruvísi en svo að tækifæri þessara barna skipti samfélagið engu máli.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga