Ekkert virðist vera hæft í fullyrðingum Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um mikla fjölgun hælisleitenda vegna veikleika íslenskrar löggjafar. Hælisleitendum fækkar þvert á móti ef undan er skilið flóttafólk frá löndum sem íslensk stjórnvöld bjóða sérstaklega velkomin, frá Úkraínu og Venesúela.
Íslensk stjórnvöld hafa samþykkt, líkt og aðrar Evrópuþjóðir, að ríkisborgarar Úkraínu fái hér sjálfkrafa dvalarleyfi. Það sem er ólíkt á Íslandi og á Norðurlöndunum er að ríkisborgurum Venesúela hefur verið gefin þessa sama staða. Þeir fá skilyrðislaust vernd vegna þess hversu alvarlegt ástand ríkir í heimalandinu, að mati íslenskra stjórnvalda.
Í fyrstu var þetta gert samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Ákvörðunin var klárlega byggð á pólitík fremur en mannúðarsjónarmiðum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undir forystu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þá utanríkisráðherra studdi tilraunir Juan Guaidó til valdaskipta í Venesúela með aðstoð Bandaríkjastjórnar. Liður í stuðningi við þessar aðgerðir var að skilgreina flóttafólk frá Venesúela í sérstakri hættu, þótt landflóttinn þaðan sé ekki skilgreindur sem neyðarástand af alþjóða flóttamannastofnunni.
Hin Norðurlöndin hafa ekki skilgreint flóttafólk frá Venesúela með þessum hætti, eins og koma fram í frétt Samstöðvarinnar 20. september, sjá hér: Vill herða útlendingalög vegna álags á grunnkerfin. Á meðan hin Norðurlöndin taka hlutfallslega á móti mun fleirum frá Sýrlandi þá taka Íslendingar á móti mun fleirum frá Venesúela, ekki hlutfallslega heldur í raun. Hlutfallslega taka Íslendingar á móti tuttugufalt fleira fólki frá Venesúela en hinar þjóðirnar.
Útlendingastofnun reyndi að draga þessa sérstöðu ríkisborgara frá Venesúela til baka, líklega þegar ljóst var að byltingartilraunir Juan Guaidó höfðu runnið út í sandinn. Í stað þess að veita öllum ríkisborgurum frá Venesúela skilyrðislaust vernd breytti Útlendingastofnun reglunum og vildi taka mál hvers einstaklings fyrir sérstaklega. Stofnunin taldi sig hafa heimildir fyrir að sumt af fólkinu hefði farið heim aftur í frí, sem benti til að fólkið væri ekki í bráðri hættu í heimalandinu.
En úrskurðarnefnd útlendingamála hafnaði þessari túlkun, sagði að Útlendingastofnun gæti ekki breytt reglunum án þess að sýna fram á að ástandið í Venesúela hefði batnað. Sem stofnunin hafði ekki reynt. Því er staðan sú sama og áður. Ríkisborgarar Venesúela fá skilyrðislaust vernd á Íslandi en ekki á hinum Norðurlöndunum. Og í raun ekki í neinu öðru landi.
Áhrif þessa sjást vel þegar við skoðum þróun fjölda hælisleitenda og aðgreinum fólk frá Úkraínu og Venesúela:
2022-súlan inniheldur fyrstu níu mánuði ársins. Þarna sést að hælisleitendur frá öðrum löndum en Venesúela og Úkraínu hefur ekki fjölgað að ráði, þegar tillit er tekið til þess að árin á undan einkenndust af cóvid og litlum ferðalögum milli landa. Hælisleitendur frá öðrum löndum en Venesúela og Úkraínu stefna í að verða viðlíka og 2018/19 og nokkru færri en 2016/17.
Aukningin er öll frá Venesúela og Úkraínu. Það er því ekki rétt sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur haldið fram að ástæða fjölgunar hælisleitenda sé að íslensk lög séu á einhvern hátt ólík lögum nágrannalandanna. Eða valdi því að fólk leiti sérstaklega hingað, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, heldur fram.
Í grein á Vísi í gær skrifaði Sigmundur: „Umsóknir hælisleitenda á Íslandi (að frátöldum Úkraínumönnum sem boðið var til landsins) eru nú líklega orðnar u.þ.b. tífalt fleiri en í Danmörku og Noregi. Fyrir nokkru var hlutfallið orðið sexfalt og svo skömmu síðar áttfalt. Það er afleiðing sérreglna á Íslandi og þeirra skilaboða sem íslensk stjórnvöld senda frá sér (eins og ráðherrar hafa loks viðurkennt).“
Þarna leikur Sigmundur sér að því að fela þá staðreynd að fjölgun flóttamanna frá Venesúela er afleiðing pólitískrar ákvörðunar stjórnvalda. Og lætur í veðri vaka að fjölgunin sé vegna þess að íslensk lög séu götótt og götóttari en lög annarra landa. Leggur jafnvel til að flóttafólkið verði flutt til Rúanda.
Þetta er firra í Sigmundi, annað hvort er hann að segja vísvitandi ósatt eða hann hefur ekki kynnt sér málið. Það síðara er ólíklegt, þar sem Sigmundur er nýkominn heim úr ferð þingmanna um Norðurlöndin að kynna sér útlendingastefnu.
Hér má sjá samskonar graf um veitta vernd og mannúðarleyfi. Þetta er flóttafólkið sem fær vernd, en er ekki vísað burt. Þess vegna eru tölurnar lægri. Þarna er Venesúela og Úkraína sérgreind sem fyrr, en öll önnur lönd talin saman. 2022-súlan inniheldur fyrstu níu mánuði ársins:
Aftur sést að ekkert er hæft í yfirlýsingum Jóns og Sigmundar um vanda vegna götóttra útlendingalaga. Þvert á fullyrðingar þeirra fækkar þeim sem fá vernd, sem ekki eru frá Venesúela eða Úkraínu.
Það þarf enginn að efast um að fjölgun flóttafólks reynir á grunnkerfi samfélagsins. Rauði krossinn opnaði fjöldaflóttastöð í vikunni þar sem fólk sefur á hermannabeddum í skrifstofuhúsnæði. Heilbrigðis- og menntakerfi voru við það að bresta áður, að ekki sé talað um húsnæðiskerfið þar sem vantaði tólf þúsund íbúðir áður en flóttamannastraumurinn brast á.
En þetta er ekki vandi vegna fjölgunar flóttafólks sem kemur hingað á eigin vegum. Vandinn er tilkominn vegna áratuga vanrækslu við upbyggingu grunnkerfa samfélagsins og vegna þess að stjórnvöld buðu öllum ríkisborgurum Venesúela og Úkraínu að koma hingað og fá vernd án þess að gera nokkuð til að geta tekið á móti þessu fólki.
Vandinn er því ekki flóttamannavandi heldur vandinn við þessa ríkisstjórn, sem virðist enga hugmynd hafa um afleiðingar ákvarðana sinna. Ríkisstjórnin bauð flóttafólki frá Venesúela og Úkraínu að koma hingað í trausti þess að þetta myndi reddast. Sem það það gerði ekki.
Þess vegna eru grunnkerfi samfélagsins við það að bresta. Ástæðan er að ríkisstjórnin er ekki að gera neitt að verja þau, sem þó er meginhlutverk stjórnvalda. Í stað þess að sinna starfi sínu benda ráðherrarnir á flóttafólkið sem sökudólga.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga