Vill herða útlendingalög vegna álags á grunnkerfin

Innflytjendur 20. sep 2022

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra lagði hert útlendingalög fyrir ríkisstjórn í morgun, en sambærileg lög hafa verið lögð fram á Alþingi mörg undanfarin ár án þess að ná fram að ganga. Þau hafa dagað uppi. Nú segir Jón að neyðarástand ríki, búast megi við um fjögur þúsund flóttamönnum á þessu ári og húsnæðiskerfið, félagslegu kerfin, menntakerfið og heilbrigðiskerfið þoli það ekki, þessi kerfi séu komin að þolmörkum.

Þetta kom fram í máli Jóns á Alþingi í gær, þar sem hann svaraði fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins, sem krafðist svara um hvernig ríkisstjórnin ætlaði að bregðast við fjölgun flóttamanna.

Hér má sjá og heyra samtal þeirra tvegga:


Þarna kemur fram að um helmingur flóttamanna sem hingað koma kemur frá Úkraínu en næstum helmingur þess sem eftir er kemur frá Venesúela, þótt Útlendingastofnun telji Venesúela vera öruggt land. Svo var ekki áður.

Þegar Juan Guaidó leiðtogi hægrimanna reyndi að ná völdum í Venesúela snemma árs 2019 þegar mikill fjöldi landsmanna leituðu til næstu landa vegna efnahagskreppu lýstu íslensk stjórnvöld yfir stuðningi við Guaidó og að hann væri rétt kjörinn forseti Venesúela. Á sama tíma var flóttafólki frá Venesúela gefinn neyðarréttur, fólk þaðan fékk sjálfkrafa hæli. Þegar Útlendingastofnun breytti þessari skilgreiningu á Venesúela hafnaði úrskurðarnefnd útlendingamála þeirri vendingu, svo nú nýtur fólk frá Venesúela enn sama réttar og fólk frá Úkraínu.

Í yfirliti Þjóðskrár yfir breytingar á íbúafjölda á fyrri helmingi þessa árs kom í ljós að erlendum ríkisborgurum hafði fjölgað um 4.126 manns frá 1. desember 2021. Á sama tíma fjölgaði íslenskum ríkisborgurum sáralítið.

Og þegar skoðað er hvaðan fólk kemur til Íslands sést að þegar íslensk stjórnvöld tóku þátt í neyðaraðgerðum til aðstoðar flóttafólki frá Úkraínu höfðu þau í reynd notað sömu aðferð gagnvart fólki sem kom frá Venesúela, veitt því dvalarleyfi og vernd í miklu meira mæli en fólk frá öðrum hörmungarsvæðum.

Þetta sést í tölum frá útlendingastofnun. Frá 2018-2021 var 429 manns frá Venesúela veitt vernd. Það er lang fjölmennasti hópurinn, meira frá næstu þremur löndum samanlagt; Írak, Sýrlandi og Afganistan, allt lönd þar sem alvarlegt neyðarástand ríkir. Hjá Útlendingalöndum má líka sjá að 91% mála frá Venesúela á þessum tíma fá jákvæða afgreiðslu (merkir ekki að restin fái synjun, sumt er afgreitt á næsta ári) á meðan hlutfallið 32% til 60% hjá fólki sem kemur frá hinum löndunum sem ég nefndi.

En þessi sérstaka stefna íslenska stjórnvalda gagnvart Venesúela sést líka hjá þjóðskrá hér heima og á Norðurlöndum. Hér eru nú 715 ríkisborgarar Venesúela, sem er meira en í Svíþjóð (505), Noregi (486) eða Danmörku (370). Ekkert hinna landanna virðust skilgreina ástandið í Venesúela sem sama forgangs-neyðarástandið og íslensk stjórnvöld.

Ef fólk frá Venesúela væri hér hlutfallslega jafn fjölmennt og á hinum Norðurlöndunum væru hér 18-34 manns, ekki 715. Bandaríkjastjórn er varla hálfdrættingur á við íslensk stjórnvöld, en fjöldi fólks frá Venesúela í Bandaríkjunum jafngildir 391 manni á Íslandi.

Til samanburðar eru hérlendis 421 manns með ríkisborgararétt í Sýrlandi. Ef fjöldinn væri hlutfallslega sá sami og í Danmörku væru hér 2.313 Sýrlendingar, 2.388 ef hlutfallið væri það sama og í Noregi og 2.495 ef það væri það sama og í Svíþjóð. Gagnvart Sýrlandi eru löndin þrjú samstíga, en Ísland langt, langt að baki. Þegar kemur að Venesúela er Ísland í einhverjum allt öðrum leik.

Þetta má skýra á tveimur súluritum:

Hér sjáum við fjölda ríkisborgara frá Venesúela á Íslandi og síðan hver fjöldinn væri ef fólk frá Venesúela væri hlutfallslega jafn margt hér og í hinum löndunum. Munurinn er sláandi.

Og hér er samskonar graf um ríkisborgara frá Sýrlandi. Íslenska súlan sýnir fjölda fólks með sýrlenskt ríkisfang á Íslandi en hinar súlurnar hversu margir Sýrlendingar væru á Íslandi ef fjöldinn væri hlutfallslega sá sami og í hinum löndunum.

Vg-liðar hafa stundum bent á að fleira flóttafólk hafi fengið vernd í tíð þessarar ríkisstjórnar en fyrri ríkisstjórna. Skýringin er sú að Sjálfstæðisflokksfólkið sem stýrir málefnum flóttafólks skilgreindi Venesúela sem sérstakt neyðarástand, þótt Alþjóðaflóttamannastofnunin geri það ekki. Þar er Venesúela ekki flokkað með löndum og svæðum þar sem neyðarástand ríkir, þar er fólk ekki í sömu hættu og í Afganistan, Úkraínu, Suður-Súdan, Írak, Sýrlandi, Jemen, Nígeríu, Kongó og Eþíópíu. En svo til öll aukningu verndar á Íslandi er vegna komu fólks frá Venesúela. Gagnvart öllu öðru fólki er stefnan óbreytt, hörð og grimm. Þar til að opnað var fyrir flóttamenn frá Úkraínu, sem njóta nú sömu stöðu á Íslandi og flóttafólk frá Venesúela hafði fengið hjá ráðuneyti og ríkisstofnunum Sjálfstæðisflokksins.

Auðvitað eru flestir á því að við eigum að taka á móti fólki frá Venesúela eins og Úkraínu og öllum öðrum löndum og svæðum þar sem hungur og örvinglan herjar, kúgun og bjargarleysi. Fólk í leit að betra lífi á að vera velkomið til Íslands, hér vantar fólk. Það er hins vegar eitthvað bogið við stjórnvöld sem nota mannúð eftir einhverri stórundarlegri pólitískri greiningu.

Sjálfstæðisflokkurinn (og hinir stjórnarflokkarnir auðvitað líka) horfa öðruvísi á fólk sem flýr upplausnarástandið eftir hernaðarárásir Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Afganistan, Írak, Líbýu og Mið-Austurlöndum eða hungur og átök í Afríku en fólk sem flýr hernað Pútíns eða efnahagshrun Venesúela. Sjálfstæðisflokkurinn er að velja til landsins fólk sem Valhöll telur að sé líklegt til að hafa réttar stjórnmálaskoðanir.

En þessi stefna hefur haft þær afleiðingar sem Jón Gunnarsson lýsir. Hann segir að fjöldi flóttamanna sé að fella innviði og grunnkerfi samfélagsins. Auðvitað er það afleiðing af ákvörðunum stjórnvalda, annars vegar með því að fjölga flóttafólki, ekki síst með því að skilgreina Venesúela öðru vísi en önnur lönd gera, og hins vegar að bregðast ekki við fjölguninni með því að styrkja grunnkerfi samfélagsins.

Og lausnin sem Jón leggur fram að er að takmarka aðgengi flóttafólks til landsins, sem kemur annars staðar frá en frá Úkraínu eða Venesúela. Það er hins vegar ekki hægt að sjá að það sé vandamálið. Fjölgun flóttafólks annars staðar frá er í engri líkingu við strauminn frá Úkraínu og Venesúela.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí