ESB og stjórnarskrá ekki forgangsmál hjá Samfylkingu

Stjórnmál 29. okt 2022

„Undir minni forystu mun Samfylkingin ekki reyna að selja fólki Evrópusambandið sem töfralausn. Enda er það ekki töfralausn. Það hefur bæði kosti og galla. Og það er mikilvægt að Samfylkingin sýni ólíkum sjónarmiðum og áhygum fólks virðingu. Það er vel hægt að vera jafnaðarmaður og hluti af Samfylkingunni án þess að vera sannfærður um ágæti aðildar Íslands að Evrópusambandinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar í stefnuræðu sinni á landsþingi flokksins.

Kristrún sagði að löngu væri kominn tími á að uppfæra og endurnýja umræðuna um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. „Af alvöru,“ bætti hún við og sagði að nú væru tveir áratugir frá því að Samfylkingin stóð fyrir víðtækri kynningu á Evrópusambandinu og samráði við fólk um land allt. Kristrún sagði margt hafa breyst síðan þá. Bæði í Evrópu og hér heima.

„Við getum ekki bara haldið áfram að þylja upp öll gömlu rökin,“ sagði Kristrún. „Og þess vegna segi ég það hér: Samfylkingin mun ekki setja fulla aðild að Evrópusambandinu fram sem forgangsmál nema að undangengnu víðtæku samtali og uppfærðri rannsókn á kostum og göllum aðildar.“

Kristrún sagði það sama eiga við um stjórnarskránna.

„Nú hefur málið verið algjörlega stopp í tíu ár,“ benti hún á. „Hvernig getum við komist eitthvað áfram? Við étum ekki fílinn í einum bita — það ætti að vera orðið ljóst að það er ekki raunhæft. Krafan um allt eða ekki neitt í stjórnarskrármálum hefur ekki skilað árangri og við verðum að breyta um nálgun, viðurkenna vafningalaust að breytingar á stjórnarskrá munu kalla á málamiðlanir og breitt samstarf stjórnmálaflokka á Alþingi.“

Kristrún nefndi þessi tvö mál í ræðunni sem dæmi um þau sem hún myndi ekki leggja áherslu á. Hún útilokaði heldur ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. „Við fórum ekki í pólitík til að vera í stjórnarandstöðu,“ sagði hún, „til að kvarta og kveina undan endalausum ríkisstjórnum undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Með misjafnlega veikburða fylgiflokkum.“

Kristrún lýsti árangri Samfylkingar í kosningum: „Þegar þú tapar kosningum í lýðræðisríki — þá þarf að líta í eigin barm,“ sagði hún. ~Þú stendur ekki bara uppi á stalli og horfir niður á kjósendur og spyrð: Hvað voruð þið eiginlega að hugsa? Þú horfir inn á við og spyrð: Hvað gerðum við vitlaust?

Samfylkingin hefur núna tapað fernum kosningum til Alþingis í röð. Við höfum eftirlátið Sjálfstæðisflokknum áratug til að stjórna þessu landi, óslitinn. Með alvarlegum afleiðingum sem eru að koma betur og betur í ljósi.“

„Vonleysið sigraði í síðustu kosningum til Alþingis,“ sagði hún síðar. „Dæs Framsóknarflokksins og uppgjöf VG. Er ekki bara best að yppta öxlum, geispa og gefast upp? Þetta var boðskapur Framsóknar. Skiptir máli hvernig þú stjórnar? Nei, það skiptir bara máli hver situr í stólnum og hittir fræga fólkið í útlöndum. Þetta er stefna VG.

Og auðvitað er Sjálfstæðisflokkurinn samur við sig. Hann ræður ferðinni í þessari ríkisstjórn með því að reka harða og úrelta hægristefnu úr fjármálaráðuneytinu. Heldur kerfunum okkar í hjólförum með skammsýni og skort á yfirsýn um hvað þetta verkefni snýst um: við erum að reka hér samfélag.“

Á móti þessu, ósigrum og áherslum Samfylkingar síðustu árin og vondri ríkisstjórn stillti Kristrún fram nýrri forystu Samfylkingarinnar, breyttum verklagi og opnara flokksstarfi og áherslum á þau mál sem brenna á fólki. Þar nefndi hún endurreisn velferðarkerfis byggða á réttlátara skattkerfi.

„Hátt í 50 milljarðar króna árlega hafa verið teknir út úr ríkissjóði á kostnað velferðarkerfisins með almennum skattabreytingum – og þau skilaboð eru send út til fólks að það eigi bara að sjá um sig sjálft, hver og einn í sínu horni vinnur með sínar auknu ráðstöfunartekjur sem af þessum skattalækkunum hljótast,“ sagði Kristrún meðal annars í ræðu sinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí