Kveikjan að þeirri stefnu sem rannsóknin á hvarfi Geirfinns Einarssonar tók var fylleríisröfl í manni sem var að bera af sér sakir í yfirheyrslu hjá lögreglunni, segir Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður og áhugamaður um Geirfinns- og Guðmundarmál. Í drykkjurausi mannsins þremur mánuðum áður en meginþættir sömu sögu fara að renna upp úr sakborningum eru allir meginþættirnir; mannfjöldi í dráttarbrautinni í Keflavík, spírasmygl, Klúbbmenn, ökuferð frá Reykjavík o.s.frv. Maðurinn sagðist meira að segja hafa fengið 70 þúsund krónur greiddar, sömu upphæð og Sævar sagðist síðar hafa boðið Geirfinni.
Hjálmtýr sótti um styrk til Kvikmyndasjóðs til að gera mynd um Geirfinns- og Guðmundarmálið eftir handriti Jóns Daníelssonar blaðamanns en fékk tvisvar sinnum nei. Hjálmtýr sótti níu sinnum um styrk til að gera mynd um Palestínumálið en fékk níu sinnum nei. Hann segir þetta dæmi af viljaleysi kerfisins til að þess að fjalla um umdeild mál. Og Geirfinnsmálið er eitt þeirra, sem reynt hefur verið að halda utan umræðunnar. Hjálmtýr tekur undir með Soffíu Sigurðardóttur sem ræddi málið við Rauða borðið fyrr í vikunni. Það þarf að rannsaka rannsóknina á Geirfinnsmálinu, rannsókn sem kallaði mikinn harm yfir fjölda fólks og fjölskyldna.
Hjálmtýr rakti nokkur dæmi um hversu vitlaus þessi rannsókn var og götótt. Svo virðist sem engar tilraunir hafi verið gerðar til að staðfesta frásögnina hjá vitnum. Samkvæmt sögunni áttu sakborningar að hafa burðast með lík inn í húsagarð við Grettisgötuna sem blasir við úr gluggum fjölda íbúða. Samt voru íbúar í þessum íbúðum aldrei spurðir hvort þeir hafi séð hóp manna bera lík inn í garðinn og svo aftur til baka stuttu síðar.
Nágrannar í húsinu þar sem Guðmundur átti að hafa verið myrtur urðu einskis varir þótt þeir hafi oft kvartað yfir hávaða úr íbúðinni, svo hljóðbært var í húsinu. Fólk í næstu húsum sá heldur ekkert né heyrði þótt sagan segi að bílar hafi komið og farið þetta kvöld. Þegar í ljós kemur að sagan stóðst ekki, þar sem Toyota-bifreið sem Albert Klahn sagðist hafa fengið lánaða hjá föður sínum var ekki til á þessum tíma, faðirinn hafði átt Volkswagen-bjöllu á þessum tíma, þá breyttist Toyotan bara í Volkswagen. Samkvæmt sögunni sá vitni íbúðina útataða blóði. Samt fannst ekki neitt blóð þótt teppi íbúðarinnar hafi verið rannsökuð í þaula.
Hjálmtýr rekur líka að rannsókn lögreglunnar á ferð Sævars Ciesielski til Keflavíkur standist engan vegin. Það er engin leið að Sævars hafi komist þessa leið á þeim tíma sem haldið er fram í ákæru. Og það er svo augljóst að lögregla og saksóknari hljóta að hafa vitað það. Auk þess hafi Sævar getið rakið efni þátta í dagskrá sjónvarpsins, en hann sagðist hafa verið heima hjá mömmu sinni að horfa á sjónvarpið þegar lögreglan vildi staðsetja hann í dráttarbrautinni í Keflavík. Lögreglan kannaði þetta ekki.
Ekki frekar en nokkuð sem gat stutt frásögn sakborninga sem ekki féll að sögunni sem lögreglan hékk á allan tímann. Og sú saga er að stofninum til frásögn drukkins mann sem hann rakti þremur mánuðum áður en nokkur var handtekinn.
Í þeirri sögu var ferðin frá Reykjavík til Keflavíkur og tvær bifreiðar voru notaðar í báðum sögunum, sendiferðabifreið og fólksbifreið. Spírasmygl og spíraviðskipti með þátttöku Geirfinns voru í báðum sögum og Klúbbmenn nefndir. Dráttarbraut Keflavíkur er sögð vettvangur atburðanna og jafn stór hópur manna er í dráttarbrautinni í báðum sögunum. Auk Geirfinns og klúbbmannanna Magnúsar og Sigurbjörns eru tveir aðrir auk sögumanns í upphaflegu sögunni. Og sögumaður segist hafa fengið greiddar 70 þúsund krónur verða svo sama upphæð sem Sævar á að hafa boðið Geirfinni fyrir áfengi.
Hjálmtýr rekur aðra galla í rannsókninni og segir augljóst að sagan sem kom frá sakborningum hafi verið búin til að lögreglunni og eigi líklega upptök sín í drykkjurausi manns sem sagðist hafa orðið vitni af þessu öllu en var samt ekki hluti ákæru né notaður sem vitni.
Af þessum sökum sé augljóst að Erla Bolladóttir hafi verið þröngvað af lögreglunni til að bera fram rangar sakargiftir að undirlagi lögreglunnar. Það sé skammarlegt að þetta sé ekki viðurkennt og Erlu veitt uppreist æru.
Við munum halda áfram að fjalla um Geirfinnsmálið við Rauða borðið. Samtalið við Hjálmtý Heiðdal má sjá og heyra í spilaranum hér að ofan, en hér er viðtal við annan áhugamann um málið, Soffíu Sigurðardóttur.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga