„Við vorum eiginlega alveg sannfærðir um það að viðbrögðin yrðu ekki nein, það myndi enginn bregðast við. En sem betur fer vakti þetta athygli og það er þessi fimm ára rannsókn sem hefur staðið yfir á Íslandi. Svo er töluvert lengri rannsókn í Namibíu þar sem fjöldi manns situr í varðhaldi og bíður dóms, bíður að koma fyrir dómara.“
Þetta sagði Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður við Rauða borðið í gærkvöldi en hann er einn af þeim sem átti stóran þátt í því að Fishrot-hneykslið svokallað var afhjúpað. Nú eru fimm ár liðin síðan greint var frá sviðnari jörð Samherja í Afríku. Á þeim tíma hefur rannsókn lögreglu á blaðamönnum í tengslum við það mál vakið talsvert meiri athygli en meint rannsókn á afbrotum Samherja. Raunar hefur lítið sem ekkert heyrst af þeirri rannsókn í öll þessi ár.
Ættum við að hafa áhyggjur af þeirri rannsókn?
„Já og nei. Ég held að þetta mál sé gífurlega flókið fyrir rannsakendur hér heima, til að fara í saumana með þeim hætti að það sé fullnægjandi fyrir dómi. En ég held líka að það þurfi að bæta verulega í. Þær stofnanir, eða stofnun, sem hefur það hlutverk að rannsaka mál eins og þetta, við sjáum að á fimm árum er ekki búið að rannsaka þetta mál til hlítar. Á sama tíma eru fjölmörg önnur mál sem bíða bara á meðan,“ svarar Aðalsteinn.
Hann segir að svo að segja einföld mál taki mörg ár hjá Héraðssaksóknara, til samanburðar. Nokkuð ljóst er að rannsóknir á Íslandi hafa á síðustu árum farið að taka óeðlilega langan tíma og á það við um svo að segja öll afbrot. Aðalsteinn bendir á að meira að segja í málum þar sem öll gögn liggja fyrir, í gífurlega einföldum málum samanborið við mál Samherja, þá sé einnig margra ára bið.
„Ekki nema nokkrum mánuðum eftir að við fjölluðum um þetta, Samherja og viðskipti þeirra í Namibíu, þá fjölluðum við um annað mál þar sem það voru augljósar vísbendingar um að mútur hefðu verið greiddar, svokallað Gamma-mál, þar sem greiðslur fóru til starfsmanns fasteignafélagsins frá verktakafyrirtæki sem hafði fengið óvenju hagstæða samninga frá því fyrirtæki. Það liggur alveg fyrir að þessar greiðslur áttu sér stað og að þær fóru fram með leynd, fram hjá yfirmönnum hans og eigendum fyrirtækisins. Félagið var svo rekið í þrot og fjöldi af fjárfestum töpuðu háum fjárhæðum, sem er hægt að rekja til þess hvernig fasteignafélagið fór með sín mál. Þetta hefur bara legið inn á borði í fimm ár, hjá embætti Héraðssaksóknara,“ segir Aðalsteinn.
Hér fyrir neðan má sjá umræðuna í heild sinni: