Hvetur Samfylkingarfólk til mótframboðs gegn Kjartani

Stjórnmál 26. okt 2022

„Því miður hefur formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar stolið senunni býsna oft og eiginlega alltaf með skelfilegum afleiðingum fyrir flokkinn. Verst var sennilega fyrir kosningarnar til alþingis 2021 þegar við vorum í dauðafæri á að vinna hressilega á. Það klúðraðist eftirminnilega vegna þess að framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar ákvað að að velja sjálf á lista Samfylkingarinnar,“ skrifar Teitur Atlason flokksstjórnarmaður á vef Rósarinnar, aðildarfélags samfylkingarinnar. Teitur kallar eftir mótframboði gegn Kjartani Valgarðssyni, formanni framkvæmdastjórnar, á landsfundinum um helgina.

„Þó að komandi landsfundur sé á yfirborðinu átakalaus, er undirliggjandi óánægja með formann framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar,“ skrifar Teitur. „Ég hef ekki farið í launkofa með skoðun mína á þessu og vil fá nýjan einstakling í hlutverkið nema að það sé sterkur vilji innan Samfylkingarinnar að viðhalda þessar klúðursmenningu. Ég held að enginn vilji það.“

Hart er sótt að Flosa Eiríkssyni að bjóða sig fram, fyrrum framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins frá formannstíð Björn Snæbjörnssonar, en Björn vann mjög gegn róttækari armi verkalýðshreyfingarinnar á ASÍ-þinginu sem var frestað um daginn.

Teitur rekur tvennt sem skaðað hefur flokkinn til Kjartans. Annars vegar val á lista fyrir kosningarnar 2021.

„Þetta snerist auðvitað þannig að þessi “könnun” var í raun ígildi prófkjörs,“ skrifar Teitur og vísar í könnun meðal flokksfélaga sem átti að vera til viðmiðunar við val á lista. „Það voru auðvitað smalanir og fólk hvatt til að velja þennan frekar en hinn. En þetta fyrirbæri – smalanir – var einmitt helsta ástæðan fyri því að prófkjörsleiðin var ekki valin. Þegar “könnunin” var tilbúin og valinkunnur hópur átti að velja á listann fór af stað agaleg atburðarás. Einhver úr hinum valinkunna hópi sem átti að nota niðurstöðu “könnunarinnar” til að raða á listann, lak honum í fjölmiðla. Auðvitað.“

„Þá um leið var ljóst hvern hinn valinkunni hópur væri að setja út í kuldann og hverjum hann var að hampa,“ heldur Teitur áfram. „Þetta var svo vond niðurstaða að segja má að við fengum verstu eiginleikana úr prófkjöri og svona flokksvali þar sem fámennur hópur velur á lista.

Til að bæta gráu ofan á svart, ef það er yfir höfuð hægt, þá var þessi könnun meingölluð því fólk átti ekki að merkja við fulltrúa eftir því sem var í efsta sæti og niður, heldur var bara beðið um nöfn án þess að taka tillit til hvar í púllíunni téð nöfn áttu að lenda. Þetta þýddi að það nafn sem var nefnt oftast, var efst. Þetta gat þýtt að það nafn sem allir voru sammála um að ætti að vera neðarlega, lenti efst.

Sjálf könnuninni var líka ónýt. Útfærslan var ónýt og hugmyndin var ónýt. Þetta var algert klúður.“

„Það er ömurlegt að rifja þetta upp,“ skrifar Teitur. „Það var auðvitað hlegið að okkur þetta sló úr okkur allan þrótt. Í stað þess að vinna á, töpuðum við manni. Sem er óvenjulegt því við erum í stjórnarandstöðu.

Þetta var ömurlegt og margir enn þá sárir eftir þessa ömurlegu aðferð til að velja fólk á lista. Ábyrgðin á þessu klúðri liggur auðvitað hjá þeim sem ýttu þessu úr vör. Ég endurtek: Ábyrgðin á þessu liggur hjá framkvæmdastjórn og formanni hennar sérstaklega því að Kjartan Valgarðsson átti þessa hugmynd og barðist fyrir framgang hennar.

Svona lagað gerist öðru hvoru. Það er mannlegt að klúðra og sjá ekki fyrir óvænta atburðarás. Það er “eðlilegt” ef svo má segja en það er ekki í lagi þegar svona rugl birtist aftur og aftur. Þá verður að stíga á bremsuna,“ skrifar Teitur.

Og svo fjallar Teitur um annað klúður Kjartans.

Það var nefnilega ekki fyrir svo mörgum vikum að við sáum áþekkt rugl og við sáum með könnunina og flokksvalið,“ skrifar hann. „Nýja ruglið snýr að skipun Verkalýðsmálaráðs en það er frekar löng og leiðinleg saga, en gengur í rauninni út á að í verkalýðsmálaráð skipaðist fólk úr annarri fylkingu af tveimur sem barist hafa á banaspjótum í verkalýðshreyfingunni.

Nú hef ég enga sérstaka skoðun á þessum deilum, en mér finnst agalegt að Samfylkingin sé að taka afstöðu í þessum glæringum. Við eigum að sjálfsögðu að standa með vinnandi fólki og verkalýðshreyfingunni en með því að færa deilurnar um ASÍ inn í Samfylkinguna, erum við að tryggja að annar armurinn (meirihlutinn) mun ekki – aldrei – kjósa okkur.“

„Nú hefur verið sagt að þetta verkalýðsmálaráð hafi verið kosið löglega og alls ekki handvalið og allt alveg einstaklega frábært,“ skrifar Teitur. „Þetta er rétt svo langt sem það nær. Fólkið var sannarlega kosið á flokksráðsfundi sem sennilega hafði heimild til þess að kjósa í ráðið, en þau sem voru í framboði voru að valin af framkvæmdastjórn. Gott dæmi um hvað dagskrárvaldið er sterkt. Þetta var ekki fólk “af götunni” heldur fólk sem var beðið um að bjóða sig fram. Það er hálf grátlegt að fylgjast með yfirklórinu vegna þessa klúðurs. Eiginlega harmrænt. Það er bara viðurkennt að þessi uppákoma sé afleit og staðan sé slæm …”en svona birtist bara lýðræðið” sagði einn og glotti við tönn og hringaði loðið skottið.“

Myndin er af þeim Teiti Atlasyni t.v. og Kjartani Valgarðssyni t.h.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí