Logi segir Samfylkingu ekki taka afstöðu til klofnings ASÍ

Stjórnmál 12. okt 2022

„Samfylkingin tekur ekki afstöðu í kosningum launþegahreyfingarinnar eða hjá öðrum frjálsum félagasamtökum,“ segir Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, en athygli hefur vakið að meðal þeirra sem beittu sér harðast gegn Ragnari Þór Ingólfssyni og félögum á þingi ASÍ var fólk úr verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar.

Þetta hefur meðal annars verið rædd á lokuðum Facebook-hópum flokksfélaga, til dæmis þegar Axel Jón Ellenarson, starfsmaður Sameykis, sagði sig úr flokknum vegna þessarar afstöðu stjórnarfólks í verkalýðsmálaráðinu og hvernig árásargreinum gegn Ragnari Þór og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, var dreift í þessum spjallhópum. Og að þingmenn flokksins lækuðu þær færslur.

„Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar, sem kosið var úr fjölda manns á flokksstjórnarfundi flokksins í vor, tekur heldur afstöðu í þessu,“ segir Logi. „Annað mál er svo hvaða afstöðu einstakir félagar í Samfylkingunni taka. Við erum stór flokkur og innan okkar raða er að finna stuðningsmenn þeirra sem standa í þessum deilum þó að flest okkar hafi fyrst og fremst áhyggjur af þessari sundrung og fylgjumst með þessum illvígu átökum með sorg í hjarta. Ég vil hvetja fólk til að hætta þessum innbyrðis átökum og valdabaráttu og sameinast um það sem skiptir máli: að bæta kjör íslenskrar alþýðu,“ segir Logi.

„Fáránlega aumt að ganga út í gær & pathetic að kenna facebookstatus frá Halldóru í Bárunni um,“ skrifaði Ólafur Kjaran Árnason á twitter í morgun, en hann skipuleggur kosningabaráttu Kristrúnar Frostadóttur í formannskjöri, sem kannski verður ekki. En Ólafur Kjaran hefur verið kosningastjóri Samfylkingarinnar og unnið náið með Kjartani Valgarðssyni, formanni framkvæmdastjórnar.

„Hvers vegna tóku þau ekki slaginn og sýndu hvernig þeim finnst ASÍ eiga að vera rekið? Sáu þau fram á að tapa? Fá ekki allt sem þau vildu?“ spyr Ólafur. Og bætir við: „Í öllu falli rosalegt ábyrgðarleysi.“

„Ragnar Þór & Sólveig Anna hafa aldrei séð gildi ASÍ,“ skrifar Ólafur. „Þau hafa alltaf talað sambandið niður og aðallega notað það til að heimta sitt með því að hóta úrsögn. Nú eru þau að reyna að rústa ASÍ. Sorglegt. En góðu fréttirnar eru að það mun ekki takast. Í fyrsta lagi er ólíklegt að félagar í VR & Eflingu kjósi með úrsögn. Ég held að egó formanna muni vega minna en hagur félagsmanna. Og í öðru lagi, jafnvel þó að VR og/eða Efling hætti (tímabundið) í samstarfinu, þá mun ASÍ lifa áfram. ASÍ á 106 ára sigursögu. Þökk sé krafti samstöðunnar. Og þökk sé forystufólki sem hefur skilið gildi ASÍ, sáttar & breiðs samstarfs í verkalýðshreyfingunni,“ skrifar Ólafur og þaggar þeim sem börðust gegn Ragnari Þór og Sólveigu Önnu fyrir að hafa bjargað ASÍ.

„Fjöldi félaga í Samfylkingunni er einnig virkur á öðrum vettvangi, meðal annars verkalýðshreyfingunni,“ segir Helga Vala Helgadóttir þingflokksformaður. „Núverandi verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar er skipað fólki sem bauð sig fram og var kosið á flokksstjórnarfundi sl. vetur sem er óvenjulegt því alla jafna á ráðið að vera kosið á Landsfundi og verður svo einnig eftir hálfan mánuð. Sú staða var hins vegar uppi að eitthvað hafði kvarnast úr verkalýðsmálaráðinu sem var og það því ekki fullmannað. Verkalýðsmálaráð hefur að því ég best veit ekki ályktað um ástandið og það hefur flokksforystan ekki gert heldur.“

„Svo ég fari í persónulega afstöðu þá þykir mér þessi staða í verkalýðshreyfingunni afskaplega sorgleg,“ segir Helga Vala, „því ég hef áhyggjur af því að þetta veiki verkalýðshreyfinguna verulega og geti valdið skaða til framtíðar fyrir launafólk í landinu. Þarna þarf að ná sáttum, hvernig sem á að fara að því. Ég met allt þetta ólíka fólk mikils enda um eldheitt baráttufólk að ræða í hverju sæti.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí