„Það er glatað, það er okkur Hafnfirðingum ekki til sóma og það á ekkert barn að mæna á göturnar í bænum á meðan önnur börn mæta glöð í skólann. Þetta eru ótrúlegar tölur og eitthvað sem maður hálfpartinn skammast sín fyrir sem Hafnfirðingur,“ segir Símon Birgisson kennari á Facebook. Tilefnið er að í dag eru 39 börn í Hafnarfirði sem fá ekki skólavist, allt flóttabörn.
Birgir kennir við Hrunavallaskóla í Hafnarfirði og þekkir málefnið vel. Hann segir að ekki sé hægt að rökstyðja að um 40 börn sem hingað hafi komið í leit að vernd á árinu séu án skólavistar í lok október. „Það eru grundvallarmannréttindi hvers barns að fá menntun – sama í hvaða stöðu foreldrar þínir eru,“ skrifar hann og gagnrýnir yfirvöld bæjarins.
„Það hefur verið mikið gert úr því hjá bæjarstjórn að innviðir skólakerfisins séu að hruni komnir í Hafnarfirði út af flóttamannavandanum,“ skrifar hann. „Samt kom fram á foreldrafundi í Engidalsskóla fyrir nokkru að skólinn hefði einungis tekið við 4 flóttamönnum þennan veturinn, en verið tilbúinn að taka við fleirum.“
Þrátt fyrir þetta segir Birgir að 40 börn séu í þessari viku án skólavistar. Hann veit ekki hversu mörg börn úr verndarkerfinu séu í öðrum skólum í Hafnarfirði en þætti forvitnilegt að sjá þær tölur einhvers staðar. „Tilfinning manns er að Hvaleyrarskóli og Hraunvallaskóli hafa verið látnir taka við straumnum og þar reynir sannarlega á innviði – eins og bæjarstjórinn talaði um,“ skrifar Símon.
Mikilvægt að aðrir foreldrar láti í sér heyra
„Ég þekki þetta mál af eigin reynslu,“ segir Símon. „Eitt af þessum flóttamannabörnum er stelpa sem var í leikskóla með tvíburunum mínum – útskrifaðist með þeim og heillaði alla með brosinu sínu og húmor. Þessi stelpa var ekki komin með skólavist í september þegar allir hennar vinir voru löngu mættir með nýja tösku og nesti í skólann. Hún var ein af þessum ca. 40 börnum en fékk sem betur fer skólavist í Hraunvallaskóla í byrjun október. Ef hún hefði ekki haft stuðningsnet í kringum sig frá leikskólanum og okkur foreldrum, sem skildum ekkert í því af hverju hún var ekki í skólanum með vinum sínum, væri hún líklega enn utan skólakerfisins í Hafnarfirði.“
Pólitísk ákvörðun
Símon, sem var fyrir nokkrum árum í framboði fyrir Samfylkinguna, segir að þetta sé klárlega pólitísk ákvörðun og þess vegna þurfi íbúar í bænum að láta í sér heyra. Hann skorar á foreldra, skólasamfélagið og pólitíkina til að láta í sér heyra og leysa þetta mál.
„Byrjum nóvember þannig að ekkert barn sé í bænum án skólavistar,“ skrifar Símon. „Sama hvað manni finnst um þessi flóttamannamál og hversu flókin þau eru þá eigum við alltaf að taka utan um börnin og veita þeim þá umhyggju og menntun sem þau eiga skilið”.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga