Ólíkir armar innan Alþýðusambandsins leita nú að lendingu eftir að allt sprakk upp í dag. Fáum líkar sú framtíðarsýn að Ólöf Helga Adolfsdóttir taki við Alþýðusambandinu og því vilja sumir biðja Ragnar Þór Ingólfsson um að hætta við að hætta á meðan aðrir nefna Björn Snæbjörnsson formann Einingar sem mögulegan forseta.
Í raun er allt upp í loft. Kristján Þórður Snæbjarnarson, starfandi forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði í samtali við Ríkisútvarpið að hann vissi ekki hvort hann myndi draga framboð sitt til baka, ekki hvort þingið yrði starfhæft á morgun né hvort svo gæti farið að hann myndi bjóða sig fram sem forseta.
Svo virðist sem þau sem studdu framboð Ólafar Helgu hafi aldrei reiknað með sigri. Nú þegar Ragnar Þór hefur dregið framboð sitt til baka leita þau nú leiða til að forða því að Ólöf verði sjálfkjörin. Sú tillaga hefur verið nefnd að Björn Snæbjörnsson formann Einingar bjóði sig fram gegn því að Ólöf drægi framboð sitt til baka.
Einhver hópur vill ganga á eftir Ragnari Þór og biðja hann um að skipta um skoðun, en hitinn er svo mikill í hópnum að ólíklegt er að af því geti orðið. Litlar líkur eru á að fulltrúar Eflingar og VR mæti aftur til þings og því verður það ekki nema hálft þing sem mun kjósa forseta yfir Alþýðusambandi í molum frammi fyrir klofningi.
Það eru ekki margir sem vilja taka að sér að leiða slíkt.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga