Refsiramminn allt að ævilöngu fangelsi

Hryðjuverkaógn 25. okt 2022

Verjendur Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson reyna nú hvað þeir geta að forða ákæru byggðri á að mennirnir hafi ráðgert hryðjuverk. Ástæðan er að refsiramminn er fyrir undirbúning hryðjuverks er ævilangt fangelsi, en ráðagerðir um ofbeldisverk ekki meira en tvo til sex ár.

Ákvæðið um hryðjuverk í hegningarlögum segir að refsa skuli með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar.

Síðan eru talin upp manndráp, líkamsárásir, frelsissvipting, röskun á umferðaröryggi, flugrán, brenna og annað slíkt.

Þeir Sindri Snær og Ísidór hafa ekki framið þessi brot en næsta málsgrein segir að sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru hér að ofan.

Til samanburðar við ævilangt fangelsi sem refsiramma má nefna þetta ákvæði í hegningarlögum: Hver, sem hefur í frammi hótun um að fremja refsiverðan verknað, og hótunin er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Þarna er himinn og haf á milli. Tvö ár að hámarki eða ævilangt fangelsi, sem í tilfelli Sindra Snæs og Ísidórs yrði líklega yfir sextíu ár sé miðað við ungan aldur þeirra, en Sindri er 25 ára en Ísidór 24 ára.

Til að sýna hversu þung refsing er sett við því sem skilgreint er sem hryðjuverk þá segir í hegningarlögum að hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Sá sem síendurtekið ógnar nákomnum með ofbeldi fær að hámarki sex ár. Sá sem hótar að fremja hryðjuverk gæti fengið ævilangt fangelsi.

Og í kaflanum um hryðjuverk í hegningarlögum segir að hver sá sem aðstoðar við undirbúning hryðjuverka geti fengið allt að tíu ára dóm. Lögreglan framkvæmdi húsleitir víða og lagði hald á töluvert magn af vopnum. Ekki hefur komið fram hvort nokkur þeirra sem þau áttu sé grunaður um að hafa aðstoðað þá Sindra Snæ og Ísidór.

Í viðtali við Rauða borðið benti Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur hversu huglæg skilgreiningin á hryðjuverki getur verið. Með blaðamannafundinum hafi lögreglan sett rannsóknina í þennan farveg og ef hún heldur því til streitu getur verið snúið fyrir verjendur að koma því úr því hjólfari.

Sveinn Andri Sveinsson verjandi hafnar öllu tali um undirbúning hryðjuverka í viðtölum við fjölmiðla. Sagði þá Sindra Snæ og Ísidór hafa gengist við brotum á vopnalögum en sagði rannsókn á meintum ráðagerðir þeirra um hryðjuverk og dráp á fólki í pólitískum tilgangi vera farsa. Sveinn Andri málar ungu mennina upp sem fákunnandi og hálfgerða rata. Viðurlög við brotum á vopnalögum eru að hámarki fjögur ár, sex ár ef brotin eru stórfelld.

Um þennan refsiramma og hversu þunn línan kann að vera milli hryðjuverka og ofbeldisbrota, sem ekki eru skilgreind með þeim hætti, er rætt í viðtalinu við Margréti. Og um þann jarðveg sem hryðjuverk og pólitískt ofbeldi sprettur. Og þegar líður á viðtalið ræðir Margrét um umræðuna í samfélaginu almennt, hvernig vissar skoðanir eru skrímslavæddar, sem ef til vill ýtir undir hættuna af þeim frekar en að draga úr henni.

Sjá má og heyra viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Myndin er af mönnunum sem lögreglan grunar um undirbúning hryðjuverka. ísidór er til vinstri og Sindri Snær til hægri.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí