Íslenskar konur bjarga börnum meðan stjórnvöld eru sögð hafa brugðist

„Stjórnvöld hafa brugðist palestínsku þjóðinni og því hafa almennir borgarar tekið málið í sínar hendur.“

Svo segir í pósti frá Solaris sem sendur hefur verið út í þágu fjársöfnunar.

Eins og greint hefur verið frá fóru þrjár íslenskar konur á dögunum til Egyptalands eftir að þeim „blöskraði aðgerðarleysi og mælskubrögð ríkisstjórnarinnar“ eins og segir í póstinum.

Þar eru fjölskyldur sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar staddar. Konurnar, Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Lilja Þrastardóttir og Kristín Eiríksdóttur fóru út í síðustu viku til að bregðast við því neyðarástandi sem uppi er. Þær vinna nú að því á eigin vegum að koma fólki yfir landamærin.

Nú þegar hefur einni palestínskri fjölskyldu, með dvalarleyfi á Íslandi, verið komið frá Gaza. Segja konurnar að aldrei hafi þær séð hamborgara hverfa eins hratt niður í barka barnanna sem þær björguðu.

„Ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafa stöðugt forðað sér undan því að svara fyrir aðgerðarleysi sitt gagnvart dvalarleyfishöfum á Gaza. Í stað aðgerða gefa þeir í skyn að verið sé að íhuga mögulegar lausnir og að málið sé flókið,“ segja Solaris.

Þann 6. febrúar 2024 lýsti Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra því yfir í viðtali hjá RÚV að verið væri að skoða aðgerðir sem væru „töluvert umfangsmiklar og flóknar.“

„Staðreyndin er sú að málið er ekki flókið. Rúmlega hundrað einstaklingar frá Palestínu, sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, hafa beðið mánuðum saman eftir liðsinni íslenskra stjórnvalda til að komast undan þjóðernishreinsunum ísraelskra stjórnvalda. Um er að ræða 128 einstaklinga, af þeim eru 75 börn, 44 mæður og 9 feður. Íslensk stjórnvöld, einkum utanríkisráðuneytið, hafa ekki tekið þau mikilvægu skref sem til þarf til að koma fólkinu frá Gaza og til Íslands. Á landamærum Egyptalands þarf að vera ábyrgðaraðili á vegum íslenskra stjórnvalda sem kæmi þeim til Kaíró,“ segir í bréfi Solaris.

Þaðan myndi Alþjóðlega fólksflutningastofnunin (IOM) aðstoða þau við að ferðast til Íslands og greiða fyrir allt ferðalagið.

„Utanríkisráðuneytið hefur loksins viðurkennt að nauðsynlegt sé að hafa íslenskan fulltrúa til staðar á landamærunum til að taka á móti fólki. Það að enginn slíkur fulltrúi sé enn kominn á vettvang og að ekki sé útlit fyrir að það breytist, eins og utanríkisráðherra sagði þann 6. febrúar, gefur til kynna að stjórnvöld ætli sér ekki að koma fólkinu til aðstoðar í tæka tíð. Stjórnvöld hafa staðið aðgerðalaus hjá mánuðum saman.“

Fólk sem býr hér á landi og bíður fjölskyldna sinna í örvæntingu hefur ítrekað óskað eftir samtali við ráðamenn eftir því sem segir í bréfi Solaris. „Óskum fólksins hefur nær eingöngu verið vísað frá eða ekki svarað. Á sama tíma hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar ítrekað farið með ósannindi til þess að afvegaleiða umræðuna og reynt að fría sig allri siðferðislegri ábyrgð.“

Solaris segir tímann á þrotum.

„Á Gaza er fólk í bráðri lífshættu. Það þarf að bregðast við þeirri neyð. Að koma fólki út af Gaza og til Egyptalands kostar töluverða fjármuni. Heildarkostnaðurinn við að koma um 100 manneskjum löglega yfir landamærin, í samvinnu við þjónustuaðila og tengiliði sem starfa með egypskum og ísraelskum stjórnvöldum sem annast þessi mál, er um 50 milljónir íslenskra króna. Saman getum við komið fjölskyldunum undan þjóðernishreinsunum og sameinað þau hér á landi. Sett hefur verið af stað landssöfnun til að koma fleira fólki sem hefur fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar frá Gaza og heim til Íslands,“ segja Solaris.

Myndin er af Bergþóru sem hefur verið talsmaður björgunarinnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí