Sjálfstæðisflokkurinn í meirihluta stjórnar Strætó og vill einkavæða

Bæjarpólitík 19. okt 2022

Magnús Örn Guðmunds­son, stjórn­ar­formaður Strætó og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi, segir í samtali við Morgunblaðið að við blasi að bjóða þurfi út rekstur strætó. Sjálfstæðisflokkurinn er í afgerandi meirihluta í stjórn strætó þótt flokkurinn sé í miklum minnihluta í Reykjavík, sem þó lagði til stærsta hluta starfseminnar þegar stofnað var til byggðasamlagsins Strætó.

Strætó er að stofni til Strætisvagnar Reykjavíkur, SVR. Það fyrirtæki tók í raun yfir rekstur Strætisvagna Kópavogs og Hafnarfjarðarstrætó þegar Strætó bs. var stofnað. Eftir sem áður á Reykjavík aðeins einn af sex stjórnarmönnum í strætó, jafnmarga og Seltjarnarnes sem aldrei rak strætó eða Garðabær og Mosfellsbær.

Í stjórn strætó eru eftirtaldir:

Magnús Örn Guðmundsson formaður, Sjálfstæðisflokksmaður af Seltjarnarnesi.
Alexandra Briem, varaformaður, Pírati úr Reykjavík.
Andri Steinn Hilmarsson, Sjálfstæðisflokksmaður úr Kópavogi.
Kristín Thoroddsen, Sjálfstæðisflokkskona úr Hafnarfirði.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, Sjálfstæðisflokksmaður úr Garðabæ.
Lovísa Jónsdóttir, Viðreisnarkona úr Mosfellsbæ.

Þetta er líklega hægrisinnaðasta stjórn almannaþjónustu á landinu. Og ekki að undra að lausn hennar á lökum rekstrarárangri sinum sé að einkavæða almannasamgöngur.

Það er löngu viðurkennt greining á nýfrjálshyggjunni að einkavæðing sé undirbúin með því að láta opinberan rekstur grotna niður með vanfjármögnun og getuleysi í rekstri þar til almenningur fellst á einkavæðingu. Þegar þjónustan er orðin nógu slæm og linnulausar fréttir af rekstrarvanda og vandræðagangi hafa gengið yfir árum saman hefur skapast jarðvegur fyrir kröfuna um að eitthvað verði að gera. Og þetta eitthvað er vanalega einkavæðing. Með þeim hætti komast einkaaðilar að skattfé almennings, taka yfir opinberan rekstur og geta hagnast á honum eins og af hverjum öðrum fyrirtækjarekstri. Almenningur fjármagnar áfram þjónustuna og notar hana en einkaaðilar ná að taka sinn skerf af veltunni og greiða sér í arð.

Þessi staða virðist nú vera komin upp í Strætó. Þar er stjórnin nánast hrein nýfrjálshyggjustjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Viðreisn eru hreinir nýfrjálshyggjuflokkar með stefnu sem endurspeglar þessa hugmyndafræði og hún hefur átt sér sína fylgjendur meðal Pírata, ekki síst í borgarstjórnarflokknum.

Íbúar Reykjavíkur eru nærri 2/3 af íbúum höfuðborgarsvæðisins en samt fer Reykjavík aðeins með 1/6 af atkvæðunum í stjórn Strætó. Íbúar Reykjavíkur, sem byggðu upp strætó og nota hann mest, hafa því mjög takmarkaða leið til að hafa áhrif á rekstur strætó, öfugt við áður fyrr þegar kjósendur í Reykjavík gátu látið afstöðuna til almannasamgagna ráða atkvæði sínu í borgarstjórnarkosningum. Í dag er Strætó í raun kominn út af slíkum lýðræðisvettvangi. Hann er rekinn í samkomulagi sveitastjórn á höfuðborgarsvæðinu þar sem hver maður hefur ekki eitt atkvæði heldur hver bæjarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29,1% í sveitarstjórnarkosningunum síðastliðið vor en fer með 67% atkvæða í Strætó. Píratar fengu 9,7% atkvæða og Viðreisn 7,4% en flokkarnir fara með sitthvor 17% atkvæða. 53,8% kjósenda eiga ekki fulltrúa í stjórn Strætó.

Staðan er svipuð í Sorpu, annarri mikilvægri almannaþjónustu, sem frá sjónarhóli Reykvíkinga er gamla Sorphirðan sem þeir áttu og ráku. Nú er stjórn þess fyrirbrigðis svona:

Valdimar Víðisson formaður, Framsóknarmaður úr Hafnarfirði
Árelía Eydís Guðmundsdóttir varaformaður, Framsóknarkona úr Reykjavík
Aldís Stefánsdóttir, Framsóknarkona úr Mosfellsbæ
Guðfinnur Sigurvinsson, Sjálfstæðisflokksmaður úr Garðabæ
Orri Vignir Hlöðversson, Framsóknarmaður úr Kópavogi
Svana Helen Björnsdóttir, Sjálfstæðisflokkskona af Seltjarnarnesi

Þarna eru fjórir Framsóknarmenn og tveir Sjálfstæðismenn sem halda utan um þennan mikilvæga málaflokk. Framsóknarmenn, sem fengu 17,5% atkvæða í síðustu sveitarstjórnarkosningum á höfuðborgarsvæðinu er með 67% atkvæða í Sorpu. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 29,1% atkvæða en hefur 33% atkvæða í Sorpu. 53,4% kjósenda hafa ekki atkvæðarétt.

Borgarlína er verkefni sem er í svipuðum farveg og þessi tvö, en þar bætist ríkisvaldið við. Stjórn Betri samgangna sem á að halda utan um uppbyggingu og rekstur borgarlínu eru svona skipuð:

Árni Mathiesen, fyrrum ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Eyjólfur Árni Rafns­son, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Guð­rún Ögmunds­dótt­ir, úr fjármálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins.
Gunnar Ein­ars­son, Sjálfstæðisflokksmaður úr Garðabæ
Ólöf Örv­ars­dóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.
Hildigunnur Haf­steins­dótt­ir, lögfræðingur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Vara­menn eru Ármann Kr. Ólafs­son Sjálfstæðisflokksmaður úr Kópavogi og Guð­rún Birna Finns­dótt­ir úr fjármálaráðuneyti Sjálfstæðisflokksins.

Þarna eru allir sem hafa bein tengsl við stjórnmálin Sjálfstæðisflokksmenn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sterka stöðu innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þar falla atkvæðin eftir fjölda sveitarstjórna en ekki fjölda kjósenda. Og svo hefur flokkurinn stjórnað fjármálaráðuneytinu nánast óslitið frá 2013 og löngum þar á undan. Stjórn Betri samgangna er því í reynd stjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur tögl og hagldir.

Í gegnum þetta valdaójafnvægi, þar sem stór hluti kjósenda hefur ekkert aðgengi að stjórnun mikilvægrar almannaþjónustu sem sú stefna verður ofan á að það sé bara best að einkavæða strætó og almannasamgöngur þótt sú hugmynd njóti lítils stuðnings meðal almennings.

Þegar rennt er yfir stjórn Betri Samgangna sést hversu óhræddur Sjálfstæðisflokkurinn er að setja innvígt og innmúrað fólk í svona stjórnir. Og hversu auðveldlega aðrir flokkar kyngja því. Aðrir flokkar virðast fullkomlega sætta sig við að Sjálfstæðisflokkurinn stjórni Íslandi. Þeir eru sáttir ef þeir geta skotið einum embættismanni inn í stjórn sem í raun er stýrt innan úr Valhöll.

Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí